Fiskveiðar utan lögsögu Íslands

Laugardaginn 20. apríl 2002, kl. 15:03:15 (8044)

2002-04-20 15:03:15# 127. lþ. 124.64 fundur 670. mál: #A fiskveiðar utan lögsögu Íslands# (norsk-íslenski síldarstofninn) frv. 50/2002, Frsm. meiri hluta EKG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 127. lþ.

[15:03]

Frsm. meiri hluta sjútvn. (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 1253 um 670. mál, frv. til laga um breytingu á lögum um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, með síðari breytingum.

Hér er verið að víkja frá úthlutunarreglu 2. mgr. 5. gr. laga um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, en eins og kunnugt er voru í gildi sérstök lög á árunum 1998--2001 varðandi norsk-íslenska síldarstofninn. Þau lög eru nú úr gildi fallin og að öllu óbreyttu mundi taka gildi ákvæði sem felur í sér 2. mgr. 5. gr. laga um að hlutdeild hvers skips yrði ákveðin á grundvelli veiðireynslu þess miðað við þrjú bestu veiðitímabil þess á undangengnum sex veiðitímabilum. Hér er sem sagt lagt til að horfið verði frá þessu og þess í stað verði aflahlutdeildinni úthlutað á grundvelli aflareynslu þessara skipa á árunum 1994--2001 að báðum árum meðtöldum. Ástæðan fyrir því að farið er að þeirri leið er sú að þessum veiðum hefur verið stýrt undanfarin ár og þess vegna er ekki eðlilegt að nota þá viðmiðun sem verður til við óheftar veiðar. Þess vegna er miklu eðlilegra að hafa hér undir lengra veiðitímabil.

Ég vek athygli á því að fram kom í meðförum málsins í hæstv. sjútvn. að hagsmuanaðilar, bæði útvegsmenn og sjómenn, eru sammála þeirri leið. Ég vek líka athygli á því að þetta er auðvitað í nokkurri óvissu. Ekki liggur fyrir hver hlutdeild okkar verður í þessum veiðum. Þess vegna þarf að ná samkomulagi.

Ég vek líka athygli á því að miðað við síðustu tölur um 130 þús. tonna afla úr þessum stofni, þá er það ígildi um 5.000 þorskígildislesta, þ.e. þorskígildið í norsk-íslensku síldinni er 0,04. Hér er auðvitað ekki um að ræða mjög miklar veiðiheimildir í þorskígildum talið þó vel megi rökstyðja að hugsanlega geti þetta vaxið með því að hægt verði að nýta síldina betur til verðmætari hluta, en það er auðvitað óviss þáttur sem við ekki vitum og einkanlega vegna þess að óvissan er líka háð því hversu miklu verður úthlutað.

En í ljósi alls þessa leggjum við hv. þm. til, auk þess sem hér stendur, hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, Guðmundur Hallvarðsson, Hjálmar Árnason, Sigríður Ingvarsdóttir og Helga Guðrún Jónasdóttir, að málið verði samþykkt óbreytt.