Fiskveiðar utan lögsögu Íslands

Laugardaginn 20. apríl 2002, kl. 17:47:15 (8049)

2002-04-20 17:47:15# 127. lþ. 124.64 fundur 670. mál: #A fiskveiðar utan lögsögu Íslands# (norsk-íslenski síldarstofninn) frv. 50/2002, Frsm. 2. minni hluta JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 127. lþ.

[17:47]

Frsm. 2. minni hluta sjútvn. (Jóhann Ársælsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég taldi mig reyna að koma nákvæmlega þessu á framfæri. Ég tel að grundvöllurinn fyrir veiðireynslunni hafi í raun brostið, þeirri veiðireynslu sem varð til áður en dómurinn féll, vegna dóms Hæstaréttar. Dómur Hæstaréttar setti, að mínu viti, alla sem voru í útgerð fyrir þann dóm undir sama hatt hvað þetta varðar. Hann taldi að þeir hefðu fiskað á Íslandsmiðum á sama tíma og aðrir sem hefðu haft áhuga á því og vildu gera út höfðu ekki aðgang að veiðileyfum. Það var sem sagt einokunarfyrirkomulag á Íslandsmiðum sem Hæstiréttur dæmdi sem brot á stjórnarskránni. Það var nú ekkert minna.

Ég tel fráleitt að halda því fram að menn eða útgerðarfyrirtæki geti eignast einhvers konar réttindi út á veiðireynslu sem verður til við þær aðstæður sem þá voru. Í raun hefðu menn strax átt að fara í það, ef menn ætluðu að halda sig við að nýta veiðireynslu til úthlutunar, að skipta strax yfir á þá veiðireynslu sem varð til í framhaldinu.

Ég hef stundum haldið því fram að það hefði getað verið lausn á ýmsum vandamálum sem við höfum glímt við í deilum um stjórn fiskveiða ef mönnum hefði ævinlega verið úthlutað veiðirétti út frá veiðireynslu síðustu þriggja ára.