Framhald þingfundar

Laugardaginn 20. apríl 2002, kl. 20:10:03 (8070)

2002-04-20 20:10:03# 127. lþ. 124.91 fundur 530#B framhald þingfundar# (um fundarstjórn), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 127. lþ.

[20:10]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Það var fullt samkomulag um að það fengist umræða um stjórn fiskveiða seinni part dags. Það hefur fengist, menn hafa verið í umræðu um það. Ég kom hins vegar hér upp til þess að mótmæla því fyrir mína hönd persónulega, ég er algerlega á móti því að menn séu á laugardagskvöldi að halda fund á hinu háa Alþingi. Það er í prinsippinu þannig að ég er á móti því að menn séu að halda fundi á laugardagskvöldum, sér í lagi þegar sér ekkert hilla undir lok þingsins.

Í annan stað er það ekki nokkur hemja að hér er allnokkur hópur þingmanna sem hefur verið að störfum fyrir þingið nánast hvert einasta kvöld utan eitt. Þetta eina kvöld var þó þingfundur, þ.e. í gær, til kl. 19. Að öðru leyti höfum við sem erum í efh.- og viðskn. verið að störfum hvert einasta kvöld, ýmist til kl. 11 eða 12. Það er ekki hægt að bjóða mönnum upp á þetta.

Við höfum á seinni árum tekið upp umræður jafnvel stundum á þinginu sjálfu um nauðsyn þess að fylgjast með framvindu tímans að því leyti til að gera þetta starf þannig að fjölskyldumenn geti með sæmilegu móti sinnt því. Ég er fjölskyldumaður og er í þeirri stöðu öðruvísi heldur en ýmsir aðrir þingmenn að ég á ung börn og mér finnst þetta alveg með ólíkindum, og mér finnst þetta ómögulegt.

Í þriðja lagi, herra forseti, er það þannig að það er ekkert samkomulag um kvöldfund hér, ekki neitt. Hæstv. forseti hefur að sönnu látið uppi þau viðhorf að hann æski kvöldfundar en það er enginn sem hefur tekið undir það af þeim ástæðum sem ég hef tilgreint. Ég mótmæli þessu harðlega, herra forseti, og ég hlýt auðvitað að segja það að ofbeldi af þessu tagi, því að ég upplifi þetta ekki öðruvísi en sem ofbeldi, verður ekki til þess að greiða fyrir þingstörfum í næstu viku og það er rétt að forseti geri sér grein fyrir því hvaða loga hann er að tendra hér. Við erum komin undir síðasta hluta þingsins og þá er nauðsynlegt að menn fari að horfast í augu og kanna hvort einhver sameiginlegur flötur sé á að lenda málum á skaplegum tíma. Það hafa ansi litlir tilburðir verið uppi af hæstv. forseta til þess.

Ég læt mér svo sem í léttu rúmi liggja úr þessu hvort fundi verður haldið áfram fram á kvöldið eða ekki en ég vek eftirtekt á því að hæstv. forseti sagði að hér yrði kvöldfundur. Ég kom áðan upp til þess að spyrja hæstv. forseta hvenær hann hygðist ljúka fundi og nú spyr ég hæstv. forseta: Hvenær í hans norðlenska tímatali lýkur kvöldi? Ætlar hæstv. forseti að taka þetta mál inn í nóttina og þar með að brjóta í blað eða láta staðar numið kl. 12? Ég ítreka að það hefur aldrei gerst áður þegar ekki hillir undir lok þings að menn haldi áfram fundi inn í aðfaranótt sunnudags. Það er bara hefð. En hér er kannski komið brjót til hefða.