Uppsagnir hjá Landssímanum á Akureyri

Mánudaginn 22. apríl 2002, kl. 10:11:15 (8080)

2002-04-22 10:11:15# 127. lþ. 125.91 fundur 534#B uppsagnir hjá Landssímanum á Akureyri# (aths. um störf þingsins), ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 127. lþ.

[10:11]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir góðar undirtektir hæstv. samgrh. Ég treysti því að hann kynni sér málið og fari í þetta af fullri hörku. Og sem eigandi Landssímans vil ég beina þeim orðum til hæstv. ráðherra að hann skoði stjórnunarhætti, og þá hjá yfirmönnum fyrirtækisins, vegna þess að það er eyðileggjandi fyrir hvert fyrirtæki að hafa yfirstjórnendur sem bera ekki virðingu fyrir starfsmönnum hverjir svo sem þeir eru. Þurfi að segja upp fólki, þá fer það eftir settum reglum þar sem báðir halda haus, atvinnurekandi og starfsmaður. Hér er augljóslega pottur brotinn hjá yfirstjórn fyrirtækisins og við getum ekki liðið það að opinber fyrirtæki séu rekin á þann hátt að fólk sé óöruggt með vinnuna þar. Það leiðir til þess að menn vilja ekki ráða sig í vinnu hjá slíkum fyrirtækjum, það orðspor fer af því að þar sé ekki trygga vinnu að hafa hvernig svo sem fer, og ef menn fara að haga sér á þann hátt að segja upp fólki sem á eftir örfá ár eða missiri í starfslok, í eftirlaun, þá er illa farið fyrir hvaða fyrirtæki sem er. Einkaaðilar mundu ekki gera þetta og ég vitna í fjölskyldumeðlim þar sem ég bjó sem skiptinemi í eitt ár úti í Ameríku þar sem heimilisfaðirinn rak stórt og öflugt fyrirtæki. Hans mottó var að starfsmennirnir væru gull fyrirtækisins og hver sem réði sig til fyrirtækisins mætti vera viss um það að hann yrði meðhöndlaður af virðingu fram í starfslok. Ekkert fyrirtæki þrífst og blómgast nema starfsfólkið sé öruggt og gott og því líði vel og þess vegna er nauðsynlegt að hæstv. samgrh. taki til í yfirstjórn Landssímans.