Ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar

Þriðjudaginn 23. apríl 2002, kl. 17:03:50 (8167)

2002-04-23 17:03:50# 127. lþ. 126.4 fundur 714. mál: #A ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar# frv. 87/2002, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 126. fundur, 127. lþ.

[17:03]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ef ég man rétt barðist hv. þm. gegn miðlægum gagnagrunni og samflokksmenn hans. Ef eitthvað átti að fara út á land voru það einmitt störf í kringum það. Ég veit að það hefur gengið illa að koma því á koppinn. Lái þeim hver sem vill. Ekki hefur aðstoðin komið frá stjórnarandstöðunni í því máli.

Ég þykist vita, eftir samtöl við þá sem hafa skoðað fjárhag deCODE og Íslenskrar erfðagreiningar að fyrirtækið sé skuldlaust. Það hefur komið fram á hluthafafundum fyrirtækisins hvernig staða þess er. Það á ekki að hafa þurft að fara fram hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni. Það hefur líka komið fram nákvæmlega hvað innstæður eru háar hjá fyrirtækinu í dollurum. Það er ekkert leyndarmál. Flestar upplýsingar sem menn hafa verið að tala um að vantaði eru til og hluthafar hafa getað aflað sér þeirra.

Ég held að menn eigi líka að rifja upp öðru hvoru að þegar Íslensk erfðagreining fór á markað á sínum tíma voru allar nákvæmustu upplýsingar sem hægt var að fá, miðað við alþjóðlegar reglur og ströngustu kröfur um útboð fyrirtækja, lagðar fram af hálfu stjórnar Íslenskrar erfðagreiningar. Slík vinnubrögð höfðu aldrei tíðkast í íslenskum atvinnurekstri áður þegar um útboð af þessu tagi var að ræða. Ég held að að því leyti hafi verið markað spor í átt að vandaðri vinnubrögðum. Menn geta ekki sagt annað en að þarna hafi menn virkilega vandað sig.

Auðvitað er þetta ekki svo fullkomið að ekkert bjáti á, að allt gangi nákvæmlega upp á punkt og prik sem sagt er í áætlunum, enda eru áætlanir áætlanir og ekki endilega gert ráð fyrir því að þær standi upp á prik. En það er unnið samkvæmt þeim. Ég trúi því að það sé gert hjá Íslenskri erfðagreiningu.