Tekjustofnar sveitarfélaga

Miðvikudaginn 24. apríl 2002, kl. 12:51:55 (8195)

2002-04-24 12:51:55# 127. lþ. 127.19 fundur 616. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (grunnskólabyggingar) frv. 60/2002, Frsm. meiri hluta ArnbS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 127. lþ.

[12:51]

Frsm. meiri hluta félmn. (Arnbjörg Sveinsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nál. meiri hluta félmn. um frv. til laga um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, með síðari breytingum.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hermann Sæmundsson frá félagsmálaráðuneyti og Þórð Skúlason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Með frumvarpinu er lagt til að hluta af árlegu framlagi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til Lánasjóðs sveitarfélaga á árunum 2002--2005 verði varið til að styrkja stofnframkvæmdir við grunnskólabyggingar þannig að unnt verði að ljúka átaki til einsetningar grunnskólans. Frumvarpið felur í sér aukin fjárframlög til verkefnisins frá því sem áður var ákveðið en jafnframt er tekið tillit til heimildar menntamálaráðherra til að fresta lokum átaksins um tvö ár í einstökum sveitarfélögum.

Nefndin fjallaði sérstaklega um stofnframkvæmdir við grunnskóla sem fjármagnaðar eru samkvæmt samningum um einkaframkvæmd. Telur meiri hlutinn ekki ástæðu til að lögbinda ákveðna fjárhæð til slíkra framkvæmda og leggur því til breytingu þess efnis. Meiri hlutinn telur þó rétt að heimilt verði í reglugerð að ákveða hámarksframlag til slíkra verkefna á ári hverju.

Síðan er hér tilgreind brtt. Undir þetta nál. rita hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir, Magnús Stefánsson, Drífa Hjartardóttir, Pétur H. Blöndal, Jónína Bjartmarz og Kristján Pálsson og Ásta R. Jóhannesdóttir, með fyrirvara. Þetta er nefndarálit meiri hlutans.