Húsnæðismál Kvikmyndasafns Íslands

Miðvikudaginn 24. apríl 2002, kl. 13:09:28 (8200)

2002-04-24 13:09:28# 127. lþ. 128.1 fundur 655. mál: #A húsnæðismál Kvikmyndasafns Íslands# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 127. lþ.

[13:09]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Það er rétt að vera ekki að blanda inn í þetta öðrum málum eins og uppsagnarmálum og úrskurði ráðuneytisins í þeim.

Ég vil taka undir það með hv. þm. Sigríði Jóhannesdóttur að mér finnst ástæða til að harma þessa stöðu, full ástæða til þess. En það er nú einu sinni svo að í gildi er samningur um flutning á starfsemi Kvikmyndasafns Íslands til Hafnarfjarðar. Samkvæmt þeim samningi leggur Hafnarfjarðarbær safninu til endurgjaldslaust húsnæði í Bæjarbíói, við Strandgötu, í allt að 15 ár en ekki skemur en 10 ár.

Þegar litið er á þennan samning í heild er ljóst að hann lýsir sameiginlegum vilja og lítur á það sem sameiginlegt verkefni að hlúa að safninu í Hafnarfirði. Það er því fullkomlega eðlilegt að rætt sé við Hafnarfjarðarbæ hvernig þeim anda samningsins verði framfylgt. Það eru viðræður sem eiga að fara fram milli ríkisins og Hafnarfjarðarbæjar. Í þessu skyni hefur verið skipaður vinnuhópur í ráðuneytinu sem hefur verið falið að ræða við forsvarsmenn Hafnarfjarðarbæjar. Á þessu stigi málsins og í anda þessa samkomulags eru engin efni til þess að ætla annað en að niðurstaða fáist í því máli.

Ráðuneytið mun ekki geta fallist á annað en Hafnarfjarðarbær sjái safninu fyrir húsnæði undir starfsemina og greiði fyrir þær endurbætur þannig að húsakynni kvikmyndasafnsins verði sambærileg við það sem safnið hefur nú.