Nám í málm- og véltæknigreinum

Miðvikudaginn 24. apríl 2002, kl. 13:19:17 (8203)

2002-04-24 13:19:17# 127. lþ. 128.2 fundur 691. mál: #A nám í málm- og véltæknigreinum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 127. lþ.

[13:19]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Það er áríðandi að vel sé staðið að fræðslu í málm- og véltæknigreinum víða um land. Verulegur skortur hefur verið á málmiðnaðarmönnum á undanförnum árum sem hefur verið mætt með erlendu vinnuafli. Þessi skortur er að mínu áliti að stærstum hluta kominn til vegna þess að skipasmíðastöðvarnar sem voru miklar uppeldisstöðvar fyrir málmiðnaðarmenn lentu flestar eða allar í miklum erfiðleikum, greiðslustöðvunum og gjaldþrotum í lok níunda áratugarins og í byrjun þess tíunda. Þar með lagðist það nánast af að þessar miklu uppeldisstöðvar málmiðnaðarmanna tækju iðnnema. Ég nefni sem dæmi að bara á Akranesi, þessum 5.000 manna stað, urðu til yfirleitt um 30 málmiðnaðarmenn á ári, ár eftir ár og áratug eftir áratug, svipað og meira á Akureyri og fleiri stöðum þar sem þessi iðnaður var rekinn. Þess vegna hefur þessi breyting í þessari iðngrein leitt til þess að skort hefur málmiðnaðarmenn á síðustu árum og m.a. líka vegna þess að verkefni í stóriðju hafa aukist, Íslendingar hafa verið að færa sig upp á skaftið í smíði á fiskvinnslubúnaði sem fluttur er út um allan heim, en til þess þarf öfluga stétt málmiðnaðarmanna. Þess vegna finnst mér mikilvægt að efla og styrkja iðnnámið á landsbyggðinni og þá ekki síst málmiðnaðardeildirnar þannig að menn þurfi ekki að sækja þetta nám til Reykjavíkur og áfram verði til öflugur hópur málmiðnaðarmanna um allt land.