Aðflutningsgjöld af hljóðmagnarasettum til kennslu

Miðvikudaginn 24. apríl 2002, kl. 13:29:32 (8208)

2002-04-24 13:29:32# 127. lþ. 128.3 fundur 692. mál: #A aðflutningsgjöld af hljóðmagnarasettum til kennslu# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 127. lþ.

[13:29]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Hér er um athyglisverða fyrirspurn að ræða. Reyndar eru málefni aðflutningsgjalda ekki á málasviði menntmrh. þannig að ég kýs að skilja fyrirspurnina þannig að spurt sé um það hvort menntmrh. vilji taka upp viðræður við fjmrn. um það að breyting verði gerð á þessum málum.

Tollskrárbreyting er væntanlega ekki tæk nema þá til lækkunar gjalda af tollskrárnúmerinu í heild. Það er vafalaust erfitt ef ekki ómögulegt að greina á milli rafmagnaðra setta til kennslu og til annarra nota, reikna ég með. Sú tæknilega breyting sem mundi felast í því að skipta tollskrárnúmerinu upp er því ekki fær leið í þessu máli. Ekki eru heldur heimildir í lögum til þess að breyta eða fella niður þessi gjöld, lækka þau eða reyna endurgreiðslu á tækjabúnaði til skólastarfsins. Því er ljóst að lagabreytingu þarf til að vinna að þessu máli.

Samkvæmt fyrstu upplýsingum sem ég hef úr fjmrn. er hins vegar ekki um mikla fjármuni þarna að ræða. Það má túlka á tvennan hátt. Í fyrsta lagi er ekki um að ræða mikinn kostnað fyrir ríkið þó það verði við svona óskum. En jafnframt virðast vísbendingar benda í þá átt að þetta geti heldur ekki verið mjög mikill fjárhagslegur baggi á skólunum.

Sem svar við þessari spurningu vil ég mjög gjarnan, vegna þess að ég fellst á röksemdir fyrirspyrjanda fyrir því hversu mikilvægt þetta getur verið fyrir kennara, skoða þetta mál og leita svara í fjmrn. um það hvort hægt væri að fara leið sem gæti þá ýtt undir það að svona tækjabúnaður væri notaður.