Málefni Þjóðminjasafnsins

Miðvikudaginn 24. apríl 2002, kl. 13:47:51 (8219)

2002-04-24 13:47:51# 127. lþ. 128.5 fundur 697. mál: #A málefni Þjóðminjasafnsins# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi KolH
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 127. lþ.

[13:47]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir):

Herra forseti. Ég lýsi yfir vonbrigðum mínum með að hæstv. menntmrh. skyldi ekki einu sinni nýta sér allan þann tíma sem hann hafði í ræðustóli til þess að gera okkur einhverja grein fyrir því hvar málið stendur. Hæstv. ráðherra veit að þingmenn bera málefni Þjóðminjasafnsins mjög fyrir brjósti. Hann veit líka að hæstv. fyrrv. menntmrh. dró lappirnar í þessu máli og honum var legið á hálsi fyrir það. Ég hefði því haldið að hæstv. menntmrh., Tómas Ingi Olrich, þyrfti á því að halda að gerast nú bandamaður málefna Þjóðminjasafnsins og segja okkur hér að hann legðist á sveif með málefnum þess og ætlaði sér að reka slyðruorðið af Sjálfstfl. og sjá til þess að myndarlega yrði tekið á í þessu máli. En ég lýsi vonbrigðum með að ekki skyldu koma fram neinar vangaveltur frá hæstv. ráðherranum og ekkert annað en að ekkert liggi fyrir um endanlega dagsetningu opnunar þess.

Hæstv. ráðherra er fullkunnugt um hvernig þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs börðust í umræðunni um fjárlög ársins 2002 þar sem hæstv. menntmrh. var gagnrýndur fyrir hvernig komið væri fram varðandi Endurbótasjóð menningarbygginga. Sömuleiðis var gagnrýnt mjög harðlega að ekki skyldu ætlaðir peningar til þess að setja upp grunnsýningu í endurbættu húsnæði Þjóðminjasafnsins. Hæstv. ráðherra veit að hér hefur verið grenjað á upplýsingar um hvernig menn hyggist standa að málum við að koma upp grunnsýningu í húsnæði safnsins. Hæstv. ráðherra átti þar af leiðandi að koma betur undirbúinn í ræðustól núna með betri upplýsingar og efnismeiri en hann leyfði sér í þeirri ræðu sem hann hélt hér.

Herra forseti. Ég neita að trúa því að hæstv. ráðherra hafi ekki áhyggjur af þessum málum. Ég neita að trúa því að hæstv. ráðherra láti sér nægja þá landkynningu sem Flugleiðir standa fyrir í London núna þar sem stór veggspjöld hanga uppi um alla veggi á lestarstöðum og jafnvel hjá breska þjóðminjasafninu, sem á stendur: ,,Fancy a dirty weekend in Iceland``.