Fiskveiðar utan lögsögu Íslands

Laugardaginn 27. apríl 2002, kl. 10:43:29 (8287)

2002-04-27 10:43:29# 127. lþ. 131.1 fundur 670. mál: #A fiskveiðar utan lögsögu Íslands# (norsk-íslenski síldarstofninn) frv. 50/2002, JÁ
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur, 127. lþ.

[10:43]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Þetta er annar laugardagurinn í röð sem við ræðum það þingmál sem hér er á dagskrá, fiskveiðar utan lögsögu Íslands. Það snýst um það að breyta fyrst og fremst úthlutunarreglum hvað varðar síldina. Ef þetta frv. verður ekki að lögum mun sú úthlutunarregla sem verið hefur í gildi gilda áfram.

Nú getur vel verið að mönnum finnist með því að bera saman hina aðskiljanlegustu hluti að það sé meira réttlæti fólgið í þessari úthlutun en þeirri sem mundi verða í gildi ef þetta frv. yrði ekki að lögum. Ég ætla út af fyrir sig ekki að fara í deilur eða samanburð á þessum úthlutunarreglum, einfaldlega vegna þess að ég er alfarið andvígur því að einkaeignarréttur til þess að nýta fiskstofna við Ísland sé í höndum útgerðarmanna. Það hef ég svo sem áður sagt en mér finnst að umræðan hafi skilað okkur svolítið áfram á undanförnum árum og hún hefur skilað því að fleiri og fleiri átta sig á því að hún hefur hreinlega verið á villigötum hvað varðar aðalundirstöðuna sem er sú að menn eigi að fá að veiða fisk við Ísland af því að atvinnuréttur þeirra sé undirstaða þess að þeir fái að veiða.

[10:45]

Menn hafa stundað þá íþrótt að snúa út úr því á undanförnum árum hvað teljist atvinnuréttindi manna. Þegar umræðan um sjávarútvegsmál hefur staðið yfir hefur röksemdafærslan verið á þá leið að atvinnuréttindi manna væru einungis til í sjávarútvegi hafi menn t.d. verið að fiska tiltekin ár sem stjórnvöldum þóknaðist að kalla viðmiðunarár. Einungis þannig fá menn úthlutað veiðiréttindum til framtíðar.

Hér er eitt dæmi um það. Stjórnvöld hafa enn valið þá aðferðina. Ég ætla að rifja upp það sem ég sagði síðasta laugardag um það vegna dóms sem Hæstiréttur kvað upp í máli Valdimars Jóhannessonar. Þar var sagt fullum fetum að málefnalegar ástæður hefðu verið fyrir því hvernig farið hafi verið með veiðirétt á Íslandsmiðum og veiðirétti úthlutað á málefnalegum grundvelli. Ég fór yfir það þá og ætla að endurtaka hluta þess sem ég sagði um það.

Út af fyrir sig gat talist rétt að menn rökstyddu töluvert stóran hluta af úthlutununum með veiðirétti síðustu þriggja ára á undan. En síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar. Á þeim tíma var heldur ekki einu sinni tæknilega mögulegt að úthluta veiðiréttindum með þessum hætti nema til hluta flotans. Þess vegna var mönnum úthlutað rétti til þess að veiða fisk með sóknarmarki. Síðan fannst stjórnvöldum að réttlætið gæti líka verið fólgið í að úthluta mönnum veiðiréttindum vegna þess að þeir hefðu verið skipstjórar á skipum, ættu samning um skipasmíðar einhvers staðar, ættu einhvers staðar kjöl uppi á landi og m.a. hafa verið settar reglur um að ef menn kaupi veiðiréttindi frá einum stað til annars á landinu bætist við, eins og frægt var lengi, 25% viðbótin, ef menn keyptu veiðiréttindi í þorski frá Suðvesturlandi til Norður- eða Norðvesturlands.

Mönnum var úthlutað veiðirétti sem fólginn var í sérveiðileyfum og síðan voru þessi sérveiðileyfi gerð að einkaeignarrétti. Þannig er þessi saga þó ég taki aðeins fyrir hluta hennar með því sem ég vitna hér til. En lögin sem við erum hér að ræða um, þ.e. lög um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, eru líka dæmi um nákvæmlega það sem ég er að tala um. Mig langar til að vitna í nokkrar greinar laganna með leyfi hæstv. forseta, til að rökstyðja það sem ég hef verið að segja. Í lögunum er alls ekkert gert ráð fyrir því að menn fái endilega veiðiréttindi vegna þess að þeir hafi stundað veiðar heldur er verið að úthluta skipum veiðiréttindum með tilliti til ýmissa annarra atriða en þess hvort þau hafi verið að stunda veiðar.

Í 4. mgr. 5. gr. laganna stendur:

,,Ráðherra getur bundið úthlutun skv. 2. og 6. mgr. því skilyrði að skip afsali sér aflaheimildum innan lögsögu Íslands er nemi, reiknað í þorskígildum, allt að 15% af þeim aflaheimildum sem ákveðnar eru á grundvelli þeirra málsgreina. Þær útgerðir, sem ekki geta uppfyllt skilyrði þessarar málsgreinar, skulu sæta skerðingu á úthlutuðum aflaheimildum samkvæmt þessari grein sem þessu nemur.``

Hvað þýðir þetta? Er hægt að setja þetta í samhengi við atvinnurétt manna? Ef útgerðir ættu að fá úthlutun í einhverri tiltekinni tegund vegna þess að þær byggju að veiðireynslu aftur í tímann og ef veiðireynslan ætti að kallast atvinnuréttindi, hvaða rök eru fyrir því að taka þau atvinnuréttindi af mönnum ætli þeir að taka þátt í að nýta einhvern annan stofn? Ég get ekki séð að fyrir því séu nein sérstök rök.

Á öðrum stað stendur, með leyfi hæstv. forseta:

,,Þeim aflaheimildum, sem afsalað hefur verið á grundvelli 1. málsl. 4. mgr. eða á grundvelli 6. mgr., skal úthlutað til annarra skipa í hlutfalli við samanlagða aflahlutdeild sem þau hafa, í þorskígildum talið ...``

Það má spyrja sig, þegar búið er að taka aflahlutdeild af einhverju skipi, hvort eðlilegt sé að henni sé þá úthlutað til hinna sem eftir eru, bara sisona út á aflahlutdeild þeirra í hinum aðskiljanlegustu tegundum? Hefur það eitthvað með atvinnuréttindi þeirra að gera að búið er að taka aflahlutdeildina af hinum? Mér finnst rökstuðningur fyrir því ekki sérstaklega merkilegur, ég verð að segja það alveg eins og er.

Hér stendur á einum stað, með leyfi hæstv. forseta:

,,Ráðherra getur bundið úthlutun skv. 2. og 7. mgr. því skilyrði að skip afsali sér aflaheimildum innan lögsögu Íslands er nemi, reiknað í þorskígildum, allt að 7% af þeim aflaheimildum sem ákveðnar eru á grundvelli þeirra málsgreina. Þær útgerðir, sem ekki geta uppfyllt skilyrði þessarar málsgreinar, skulu sæta skerðingu á úthlutuðum aflaheimildum samkvæmt þessari grein sem þessu nemur.``

Þetta er sambærilegt við það sem ég var að nefna áðan þannig að ég ætla ekki að fara nánar yfir það. Svo segir hér áfram:

,,Ráðherra getur ákveðið einstökum skipum fasta hlutdeild í afla til lengri tíma en eins veiðitímabils þegar veiðiheimildum er úthlutað skv. 2. mgr. og getur hann þá ákveðið að ákvæði laga um stjórn fiskveiða varðandi framsal veiðiheimilda gildi eftir því sem við getur átt.``

Þetta er nú skrýtin lagagrein. Í raun segir hún bara að ráðherra geti gert það sem honum sýnist. En svona hafa lög um stjórn fiskveiða verið. Það hófst árið 1983 þegar þau voru sett fyrst, að það var nánast verið að gefa ráðherra sjávarútvegsmála sjálfdæmi um hvernig veiðirétti skyldi úthlutað, sem menn rökstuddu síðar með því að þar væri um atvinnuréttindi að ræða. Menn hafa síðan reynt að útskýra það svo fram á þennan dag, að um atvinnuréttindi væri að ræða.

Í næstu málsgrein þar á eftir stendur, með leyfi hæstv. forseta:

,,Sé ekki fyrir hendi samfelld veiðireynsla úr viðkomandi stofni skal ráðherra ákveða veiðiheimildir einstakra skipa. Skal hann við þá ákvörðun m.a. taka mið af fyrri veiðum skips. Einnig getur hann tekið mið af stærð skips, gerð þess eða búnaði og öðrum atriðum er máli skipta.``

Hvað hefur það með atvinnuréttindi manna að gera út frá veiðireynslu eða einhverju slíku hve skipið er stórt eða hvernig búnaður skipsins er? Hvar er aðalröksemdin, að úthluta veiðirétti á Íslandsmiðum með tilvísun til atvinnuréttinda, þegar skoðaðar eru lagagreinar af þessu tagi? Ég verð að segja að mér finnst ömurlegt að þegar aðalröksemdin fyrir einkaeignarréttinum á því að stunda sjó við Ísland er skoðuð ofan í kjölinn þá stendur ekki steinn yfir steini. Hið dapurlegasta við þetta allt er auðvitað að Hæstiréttur á Íslandi hefur skrifað upp á að þetta séu réttindi sem til hafi verið stofnað með málefnalegum hætti.

Á einum stað stendur:

,,Ráðherra getur, þrátt fyrir ákvæði þessarar greinar, ákveðið að allt að 5% heildaraflans verði sérstaklega úthlutað til þeirra skipa sem hófu veiðar úr viðkomandi stofni.``

Ekki hefur þetta neitt að gera við viðmiðunina sem slíka. Þetta er hins vegar ákvæði sem mörgum hefur verið hjartfólgið hér í sölum Alþingis. Mönnum hefur fundist eðlilegt að frumkvöðlar fengju að njóta þess og vissulega fá þeir það. Þegar úthlutað er með tilliti til veiðireynslu þá gerist það auðvitað stundum. Vissulega er ekkert sem mælir á móti því út af fyrir sig, að menn noti slíkar viðmiðanir, ef notast er við aðferð eins og hér er verið að lýsa.

En mig langar, hæstv. forseti, að fara fáeinum orðum um hvernig hinir ágætustu menn, sem hafa lýst yfir mikilli andstöðu við þetta fyrirkomulag sem gildir um einkaeignarrétt á því að stunda sjó við Ísland, hafa orðið viðskila við hugsjónir sínar. Í tengslum við þau lög sem hér er um að ræða er ástæða til að minna á það aftur að þeir sem sátu í sjútvn. þegar lögin voru sett gerðu bókun. Þegar lagafrv. var afgreitt út úr sjútvn. á sínum tíma sagði í áliti meiri hlutans, sem undirritað var af hv. þm. Árna R. Árnasyni, Stefáni Guðmundssyni, Vilhjálmi Egilssyni, Einari Oddi Kristjánssyni, Hjálmari Árnasyni og Guðmundi Hallvarðssyni, með leyfi forseta, í bókun þeirra:

,,Veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum verði á grundvelli leyfa til veiðanna á sambærilegum forsendum og verið hafa. Veiðireynsla úr þessum stofni myndi ekki grunn að fastri aflahlutdeild.``

Þetta var skýr yfirlýsing. En þessir ágætu menn eru, síðan þessi yfirlýsing var gefin, a.m.k. þeir sem nú sitja á Alþingi af þessum hópi sem ég las hér upp, búnir að rétta upp höndina með því að festa þessa veiðireynslu sem séreign þeirra útgerðarmanna sem í hlut eiga. Það er því miður í samræmi við ýmislegt af því sem gerst hefur í tímans rás í umfjöllun og afstöðu manna til úthlutana veiðiréttar í fiskstofnum við Ísland. Við sem höfum fylgst með þessari umræðu frá upphafi vitum að langstærsti hluti útgerðarmanna var mjög andvígur fyrirkomulaginu og einkaeignarréttinum, vildi ekki einu sinni líta við því að leigja frá sér veiðiheimildir þó þeir þyrftu á því að halda. Þeir vildu alls ekki kaupa eða selja veiðiheimildir.

Smám saman hefur afstaða þessara manna breyst, einfaldlega af eiginhagsmunaástæðum. Ekki bara það, fjöldi útgerðarmanna sem ekki hafði sambærilegra hagsmuna að gæta hefur bæst við vegna þess að markvisst hefur verið unnið að því, af hálfu stjórnarmeirihlutans á Alþingi, að gera alla sjósókn á Íslandi háða þessum einkaeignarrétti á veiðiheimildum. Þar af leiðandi hefur þeim útgerðarmönnum, vegna þess að þeir hafa þeirra hagsmuna að gæta, verðmætanna í því að mega selja þessi réttindi, fjölgað sem hafa skipt um skoðun og farið að styðja kerfið. Þeirra eigin fjárhagur er þar stór hluti og það er farið að hafa mikil áhrif á skoðanir manna.

Það er svo sem ekkert við þessu að segja. Yfir þessi atriði hefur margoft verið farið og ég ætla ekki að gera það nánar. Ég talaði í nokkuð löngu máli um þetta á laugardaginn var og ætla ekki að endurtaka það. Ég vil bara, í lok þessarar umræðu, lýsa því enn einu sinni yfir að það að Alþingi Íslendinga skuli hafa ákveðið að setja einkaeignarhald á alla nýtingu norsk-íslensku síldarinnar er í hnotskurn sú afstaða að gera skuli alla sjósókn á Íslandi að einkaeignarrétti hvað sem það kostar. Bæði er sú veiðireynsla sem viðmiðanirnar eru sóttar í á mjög hæpnum forsendum fengin og síðan vita menn alls ekki hvaða verðmæti um er að ræða. Veiðar á norsk-íslensku síldinni gætu þess vegna þrefaldast á Íslandsmiðum á tiltölulega stuttum tíma en þá ættu þær útgerðir sem hafa stundað þessar veiðar allan réttinn til að nýta hana.

Auðvitað er það fáránlegt og fráleitt. En það er meiningin samkvæmt tillögu ríkisstjórnarinnar sem meiri hlutinn ævinlega réttir upp hendurnar með hér á hv. Alþingi, ekki bara hv. þm. Vilhjálmur Egilsson sem hefur lýst því yfir að ef ríkisstjórnin vilji eitthvað þá verði hann að samþykkja það þótt hann langi til að hafa einhverja aðra afstöðu. Hann virðist ekki einn um það. Það nægir að minna á þenna hóp sem gaf yfirlýsinguna forðum, um að veiðiréttur norsk-íslensku síldarinnar ætti alls ekki að mynda grunn að einhverri framtíðarúthlutun. Það er búið að snúa ofan af því. Þessi hópur er tilbúinn að styðja málið og hefur gert það á undanförnum árum. Ég geri ekki ráð fyrir því að sú afstaða breytist núna við afgreiðslu málsins en það er ömurlegt.

Það skulu vera mín lokaorð við þessa umræðu, að það er ömurlegt að sjá hvernig hinir bestu drengir láta af einhverjum ástæðum véla sig til að styðja mál sem þeir tóku áður afstöðu gegn af hugsjónaástæðum. Auðvitað er fáránlegt að hér á Alþingi skuli menn vinna markvisst að því að gera þjóðarauðlindina að einkaauðlind þeirra sem stunda útgerð á Íslandi.