Barnaverndarlög

Laugardaginn 27. apríl 2002, kl. 11:30:51 (8290)

2002-04-27 11:30:51# 127. lþ. 131.2 fundur 318. mál: #A barnaverndarlög# (heildarlög) frv. 80/2002, Frsm. ArnbS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur, 127. lþ.

[11:30]

Frsm. félmn. (Arnbjörg Sveinsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nál. um frv. til barnaverndarlaga frá félmn. Nefndin fjallaði mjög vandlega um málið og fékk á annan tug manna til viðræðu um það. Auk þess fékk nefndin mjög margar umsagnir, bæði við umfjöllun málsins á þessu þingi og eins umsagnir sem bárust á 126. löggjafarþingi sem nýttust mjög vel við vinnslu málsins.

Hæstv. forseti. Frumvarpið er samið af nefnd sem félagsmálaráðherra skipaði í desember 1997 og var henni ætlað að endurskoða í heild lög um vernd barna og ungmenna, nr. 58/1992. Í frumvarpinu er að finna fjölda nýmæla og breytinga frá gildandi lögum. Nefndin taldi m.a. að stefna bæri að því að breyta ferlinu sem barnaverndarmál getur farið í gegnum áður en því er ráðið til lykta, þ.e. barnaverndarnefnd, barnaverndarráð, héraðsdóm og Hæstarétt. Það þyrfti að einfalda fyrirkomulagið, stytta málsmeðferðarferlið, auka réttaröryggi og stuðla að vandaðri meðferð barnaverndarmála. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að heppilegast væri að úrskurðarvald í stærri málum, svo sem forsjársviptingarmálum og öðrum málum sem fela í sér hliðstæða skerðingu réttinda, færi beint til dómstóla en barnaverndarnefndir færu áfram með úrskurðarvald í vissum málum sem varða þvingunarráðstafanir og telja má að varði minni hagsmuni. Unnt yrði að skjóta úrskurðum barnaverndarnefnda í málum sem undir þær heyra til sérstakrar nefndar, kærunefndar barnaverndarmála, og jafnframt yrði barnaverndarráð í núverandi mynd lagt niður.

Í nefndarálitinu eru tíunduð helstu nýmæli og breytingar sem eru á frumvarpinu í einum 15 liðum eins og sjá má í þingskjalinu. En við umfjöllun hv. félmn. komu ýmis álitaefni til skoðunar. Í fyrsta lagi ræddi nefndin hlutverk Barnaverndarstofu. Telur nefndin nauðsynlegt að eftirlitshlutverki stofunnar verði haldið aðskildu frá leiðbeiningar-, fræðslu- og ráðgjafarhlutverki hennar. Nefndin áréttar að eftirlitinu er fyrst og fremst ætlað að samhæfa barnaverndarstarf í landinu og fylgjast með því að barnaverndarnefndir ræki skyldur sínar lögum samkvæmt. Leiðbeiningar og ráðgjöf Barnaverndarstofu til barnaverndarnefnda eru hins vegar almenns eðlis og hún á því hvorki beinan þátt í vinnslu tiltekins barnaverndarmáls né tekur hún formlega þátt í einstökum ákvörðunum þeirra. Þá felst þjónustuhlutverk stofunnar í því að bjóða sértæka þjónustu, fyrst og fremst sérhæfð úrræði, sem barnaverndarnefndum ber að öðru jöfnu að hafa tiltæk.

Í öðru lagi ræddi nefndin um markmið frumvarpsins. Í því sambandi bendir nefndin á að aðrir en foreldrar, svo sem ömmur og afar eða aðrir nátengdir ættingjar, geta farið með uppeldi barns og þegar svo háttar til eiga ákvæði frumvarpsins að sjálfsögðu við. Þá telur nefndin rétt að taka fram að barn sem er í vanda statt getur að sjálfsögðu leitað til barnaverndarnefndar þótt þess sé hvergi getið í frumvarpinu enda er það í samræmi við meginreglur og anda laganna.

Í þriðja lagi fjallaði nefndin sérstaklega um fóstur, einkum rétt til umgengni. Í því sambandi bendir nefndin á að meta þurfi hagsmuni barnsins í hverju tilviki og að þeir geti leitt til verulegrar takmörkunar á slíkum rétti, jafnvel útilokað hann alfarið. Þá bendir nefndin á mikilvægi þess að Barnaverndarstofa hanni sérstök eyðublöð fyrir fóstursamninga þar sem óæskilegt sé að mikið ósamræmi sé á milli slíkra samninga.

Í fjórða lagi fjallaði nefndin um þvingunarráðstafanir og agaviðurlög á heimilum og stofnunum sem rekin eru á grundvelli barnaverndarlaga. Nefndin skoðaði í því sambandi greinargerð um þvingunarráðstafanir á meðferðarheimilum ríkisins fyrir unglinga og eftirlitsskyldur barnaverndaryfirvalda sem unnin var fyrir félagsmálaráðuneytið í maí 1998 og grein Ragnheiðar Thorlacius um neyðarráðstafanir barnaverndarlaga sem birtist í ársskýrslu barnaverndarráðs árið 2000. Það er álit nefndarinnar að frumvarpið geri þeim þvingunarráðstöfunum og agaviðurlögum sem hugsanlega þurfi að grípa til nægileg skil. Reynt er að byggja heimili og stofnanir upp á fjölskyldugrunni og því beri að líta á ráðstafanir og viðurlög sem eins konar framlengingu á foreldravaldi. Slíku valdi er erfitt að setja fyrir fram ákveðnar skorður í lögum með öðrum hætti en gert er hér í frumvarpinu. Auk þess þarf að taka mið af mismunandi þörfum heimila og stofnana og um leið mismunandi aðstæðum sem upp kunna að koma og réttlætt geta þvingunarráðstafanir og agaviðurlög, en það getur verið vandkvæðum bundið í lagatexta og því verður ekki komist hjá því að ráðherra útfæri þær frekar í reglum.

Í fimmta lagi ræddi nefndin heimild annarra aðila en Barnaverndarstofu til að fá tilteknar upplýsingar úr sakaskrá, þar á meðal rétt þess sem upplýsingarnar varða. Nefndin lítur svo á að slíka heimild eigi aðeins að veita með samþykki viðkomandi og jafnframt áréttar nefndin þann skilning sinn að sá hinn sami hljóti að geta aflað upplýsinga sjálfur sem hann getur veitt öðrum umboð til að fá.

Loks fjallaði nefndin um talsmann barna. Samkvæmt frumvarpinu skal jafnan skipa barni talsmann áður en gripið er til ráðstafana skv. 25., 27. eða 28. gr. og áður en sett er fram krafa um sviptingu forsjár skv. 29. gr. Þá skal barnaverndarnefnd sem tekið hefur ákvörðun um að hefja könnun máls þegar taka afstöðu til þess hvort þörf sé á að skipa barni talsmann. Nefndin beinir þeim tilmælum til barnaverndarnefnda að barni verði ávallt skipaður talsmaður þegar líkur eru á að ágreiningur verði í máli eða hagsmunir barnsins að öðru leyti mæla með því.

Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali, en þær breytingar lúta einkum að eftirfarandi:

1. Nefndin telur að þeir sem sinna uppeldi barna, aðrir en foreldrar, skuli einnig bera ákveðnar skyldur samkvæmt barnaverndarlögum.

2. Til að taka af allan vafa leggur nefndin til að um inntak forsjár fari samkvæmt ákvæðum barnalaga.

3. Lagt er til að ráðherra leggi framkvæmdaáætlun til fjögurra ára í senn fyrir Alþingi þar sem m.a. skulu koma fram sundurliðuð framkvæmdaáform og áætlaðar fjárveitingar til einstakra verkefna sem tengjast barnavernd.

4. Þá er áréttað að félagsmálaráðuneyti skuli hafa eftirlit með starfi Barnaverndarstofu og þar af leiðandi skal Barnaverndarstofa gera ráðuneytinu viðvart ef hún áminnir barnaverndarnefnd um að rækja skyldur sínar.

5. Nefndin telur eðlilegt að þau sveitarfélög sem hafa með sér samstarf um barnavernd geti sameinast um gerð framkvæmdaáætlunar.

6. Lagt er til að þegar úrskurðað er um vistun barns utan heimilis skuli barnaverndarnefnd kalla til lögfræðing ef hann á ekki sæti í nefndinni.

7. Lagt er til að lögregla tilkynni barnaverndarnefnd þegar hún fær mál til meðferðar þar sem grunur leikur á að refsiverður verknaður hafi verið framinn annaðhvort af barni eða gegn því og að barnaverndarnefnd fái að fylgjast með rannsókn málsins.

8. Þá leggur nefndin til að fellt verði brott ákvæði sem heimilar fulltrúa barnaverndarnefndar að vera viðstaddur skýrslutökur af börnum þar sem nefndin telur eðlilegra, ef ætlunin er að heimila slíkt, að kveðið sé á um það í lögum um meðferð opinberra mála.

9. Nefndin telur rétt að í lögum sé kveðið nákvæmar á um hvenær möguleg afskipti barnaverndarnefnda af þunguðum konum komi til greina.

10. Lagt er til að þunguð kona geti eins og foreldrar fengið aðstoð barnaverndarnefndar til að leita sér meðferðar.

11. Þá er lagt til að ekki verði heimilað að veita upplýsingar úr sakaskrá um atvinnuumsækjendur án samþykkis þeirra.

12. Nefndin lítur svo á að gera verði greinarmun á varanlegu og tímabundnu fóstri og ekki beri að draga úr þeim mun eins og gert er í frumvarpinu.

13. Enn fremur er lagt til að umsóknum um að taka barn í fóstur verði beint til Barnaverndarstofu í stað barnaverndarnefndar.

14. Þá er lagt til að sveitarfélagi sem ráðstafar barni í fóstur verði ekki gert að endurgreiða öðru sveitarfélagi almennan kostnað, eins og kostnað vegna skóla og aksturs, heldur eingöngu kostnað umfram þann sem venjulegur getur talist, svo sem kostnað við sérfræðiþjónustu eða vegna annarra sérþarfa.

15. Í frumvarpinu er á nokkrum stöðum ósamræmi í notkun orðsins barn, það ýmist notað í eintölu eða fleirtölu, og er lagt til að það verði lagfært.

16. Loks er lagt til að við XVII. kafla um almenn verndarákvæði bætist tvær nýjar greinar. Annars vegar er um að ræða ákvæði sem fjallar um skyldur foreldra og forráðamanna gagnvart börnum sínum og hins vegar ákvæði um almennt eftirlit barnaverndarnefnda á starfssvæði sínu.

Undir þetta nál. rita hv. þingmenn Arnbjörg Sveinsdóttir, Magnús Stefánsson, Guðrún Ögmundsdóttir, Pétur H. Blöndal, Ásta R. Jóhannesdóttir, Kristján Pálsson, Steingímur J. Sigfússon, Drífa Hjartardóttir og Jónína Bjartmarz.

Hæstv. forseti. Að lokum vil ég þakka nefndarmönnum og okkar ágæta nefndarritara fyrir gott samstarf við vinnslu málsins. Við höfum setið löngum stundum yfir frumvarpinu og því náðist um það mjög góð samstaða. Félmn. kom t.d. saman í fyrrasumar til að vinna að frv. sem birtist m.a. í því að allir nefndarmenn skrifa undir nál. án fyrirvara.