Ummæli þingflokksformanna stjórnarflokkanna

Mánudaginn 29. apríl 2002, kl. 10:12:54 (8320)

2002-04-29 10:12:54# 127. lþ. 132.95 fundur 557#B ummæli þingflokksformanna stjórnarflokkanna# (aths. um störf þingsins), SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 127. lþ.

[10:12]

Sigríður A. Þórðardóttir:

Herra forseti. Stefna ríkisstjórnarinnar í Evrópumálum er mjög skýr. Við höfum EES-samninginn sem er óumdeilt að hefur dugað okkur mjög vel. Utanrrh. hefur talað fyrir því að ákveðin atriði samningsins verði endurskoðuð og það hefur ekki hlotið hljómgrunn hjá Evrópusambandinu. Því hefur alfarið verið neitað af þeirra hálfu að farið verði í að skoða þau atriði sem hæstv. utanrrh. hefur bent á. Þannig standa málin.

Hvað snertir það sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon fór með upp hér áðan og gerði athugasemdir við það að við sem erum þingflokksformenn stjórnarflokkanna gerum athugasemdir við að staðið sé í málþófi hér í þinginu, þá vil ég endurtaka og ítreka það sem ég sagði t.d. í DV í morgun. Mér hefur þótt bera á því að hér væri málþóf. Ég hef vitnað í það máli mínu til stuðnings að t.d. á föstudaginn var stóð þingfundur frá kl. 10 og fram að kvöldmat og þar skiptust þingmenn Vinstri grænna á að fara í ræðustólinn. Eins og allir vita telur þingflokkur Vinstri grænna sex þingmenn og mér þykir það í meira lagi undarlegt ef menn geta ekki komið skoðunum sínum á framfæri í málum með öðrum hætti en þeim að þurfa að vera að setja á 2--3 klukkutíma langar ræður.

Svo vil ég að sjálfsögðu líka benda á það að mér sýnist að ekki sé nokkur samstaða hjá stjórnarandstöðuþingflokkunum á þinginu um það sem þeir eru að gera athugasemdir við. Eru það einhver sérstök mál sem þeir leggja áherslu á að tefja? Það virðist allt vera út og suður hjá þeim.