Ummæli þingflokksformanna stjórnarflokkanna

Mánudaginn 29. apríl 2002, kl. 10:21:12 (8324)

2002-04-29 10:21:12# 127. lþ. 132.95 fundur 557#B ummæli þingflokksformanna stjórnarflokkanna# (aths. um störf þingsins), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 127. lþ.

[10:21]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég vil mótmæla því að menn séu að tala hér um málþóf. Ég veit ekki betur en að það hafi verið talað lengi í einhverjum tveimur málum eða svo í þinginu í vor. Yfir hverju eru menn eiginlega að kvarta? Þetta eru sömu mennirnir og hafa staðið tímunum saman í þingingu og talað um einstök mál fyrr á árum, maður þekkir vel til þess, sem eru að kvarta hér yfir því að einhverjir hafi talið ástæðu til þess að tala ítarlega um eitthvert mál í þinginu. Mér finnst algerlega ástæðulaust að kvarta yfir því.

Hitt er annað mál að það er auðséð að allar áætlanir sem hér hafa verið gerðar eru í uppnámi og þar er fyrst og fremst ríkisstjórninni um að kenna. Menn þurfa auðvitað að fara yfir það hvernig eigi að ljúka málum. Það gerist bara ekkert í þessari viku að mál klárist þó að eðlilega sé að þeim unnið. Það þarf að taka miklu lengri tíma ef menn ætla að klára öll mál. Það er alveg ljóst að þá þarf að kalla inn í þingið varamenn, og það þó nokkuð marga, til þess að hægt sé að klára þessi mál ef menn ætla sér að fara þessa götu þannig. Ég veit a.m.k. um það að menn hafa skipulagt sinn tíma þannig, og eðlilega, að það væri nóg að bæta fimm eða tíu dögum við þær áætlanir sem gerðar voru og hafa ráðstafað sér í framhaldi af því. Menn þurfa því að horfast í augu við þetta og ræða það þá hvernig halda eigi áfram með mál í þinginu í ljósi þess að ríkisstjórnin hefur sett öll þessi verkefni fyrir. Ef menn horfa yfir það sem búið er að gera í vor og vetur, þá er auðvitað fáránlegt að halda því fram að eitthvert málþóf setji allt í uppnám. Það er eitthvað allt annað sem er að gerast. Menn hafa bara verið óskaplega lengi að koma frá sér málum og þau liggja fyrir og hafa hrannast upp. Og þó að menn hafi talað í einn eða tvo daga um einhver mál sem þeim eru hjartfólgin þá er ekki hægt að halda því fram að það sé að setja allt hér í uppnám.