Ummæli þingflokksformanna stjórnarflokkanna

Mánudaginn 29. apríl 2002, kl. 10:24:48 (8326)

2002-04-29 10:24:48# 127. lþ. 132.95 fundur 557#B ummæli þingflokksformanna stjórnarflokkanna# (aths. um störf þingsins), ÖJ (ber af sér sakir)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 127. lþ.

[10:24]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég vil mótmæla harðlega málflutningi formanns þingflokks Framsfl. sem segir að ég og aðrir þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs höfum komið hér í ræðustól með það eitt í huga að tefja fyrir þingstörfum. Þar vísar hv. þm. væntanlega til þriggja mála, umræðu um Þjóðhagsstofnun sem ákveðið er að leggja niður í einu vetfangi. Í öðru lagi 20 þús. millj. kr. ríkisábyrgð sem er órædd og vanrædd og illa undirbúin. Og í þriðja lagi óútfylltan víxil um stóriðju á Austurlandi. Og þótt menn hafi af því áhyggjur að það mál, þessi óútfyllti víxill sé nú kominn í flokkspólitískan faðm Framsfl. og menn vilji ræða þetta fyrir hönd þjóðarinnar, (Gripið fram í.) --- fyrir hönd þjóðarinnar, já, við erum hagsmunagæslumenn fyrir skattborgara og fyrir þjóðina. En hér fyrtist hæstv. utanrrh. og formaður Framsfl. við. Hvað vilja menn eiginlega hér upp á dekk fyrir hönd þjóðarinnar? spyr hann. Ég auglýsi eftir meiri umræðu og vandaðri vinnubrögðum á þingi. (KHG: Var þetta umræða um störf þingsins, eða ...?)