Steinullarverksmiðja

Mánudaginn 29. apríl 2002, kl. 10:31:13 (8330)

2002-04-29 10:31:13# 127. lþ. 132.16 fundur 663. mál: #A steinullarverksmiðja# (sala á eignarhlut ríkisins) frv. 57/2002, Frsm. meiri hluta HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 127. lþ.

[10:31]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Hjálmar Árnason):

Herra forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason gagnrýnir það að sveitarstjórn Skagafjarðar, að mér skilst, skuli ekki hafa verið kölluð á fund. Það er nú einu sinni svo að sveitarstjórnir velja sér talsmann og talsmaður meiri hluta sveitarstjórnar í Skagafirði, hinn opinberi talsmaður hennar, kom og flutti skilaboð sveitarstjórnar Skagafjarðar. Og það er lýðræðislegt að fara eftir þeim sjónarmiðum.

Hins vegar get ég bent hv. þm. Jóni Bjarnasyni á það að hefði hann talið eðlilegt að fulltrúi Vinstri grænna kæmi sérstaklega á fund nefndarinnar, eins og hann nefndi hér áðan, þá hefði kannski verið eðlilegt að fulltrúi Vinstri grænna í iðnn. hefði óskað eftir því. Þeir eiga þar sinn fulltrúa. Og ég minnist þess ekki að hann hafi nokkru sinni nefnt að það þyrfti að fá fulltrúa einstakra flokka heldur, eins og eðlilegt er, að talsmaður meiri hlutans komi, talsmaður sveitarstjórnar Skagafjarðar, og það var það sem gerðist.

Skilaboðin þaðan eru afskaplega skýr. Þeir vilja selja, þeir hvetja til þess og við fylgjum meiri hlutanum. Enda eru það eins og oft áður átta af níu nefndarmönnum í iðnn. sem hvetja til þess að þetta frv. verði samþykkt.