Steinullarverksmiðja

Mánudaginn 29. apríl 2002, kl. 10:37:09 (8333)

2002-04-29 10:37:09# 127. lþ. 132.16 fundur 663. mál: #A steinullarverksmiðja# (sala á eignarhlut ríkisins) frv. 57/2002, JB
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 127. lþ.

[10:37]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Ég hefði viljað að hæstv. fjmrh. væri viðstaddur og gæti svarað nokkrum spurningum. Er hæstv. fjmrh. í húsinu?

(Forseti (GÁS): Nei, hæstv. fjmrh. er ekki í húsinu en forseti mun gera ráðstafanir til þess að fá hann til fundarins.)

Þá get ég hafið mál mitt en ég óska eftir því að hann verði sem fyrst í húsi.

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir áliti minni hluta iðnn. sem hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson, þingmaður Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs og fulltrúi í iðnn., skipaði. Málið er þannig að hv. þm. sem á sitt heimili á Akureyri er þar veðurtepptur. Það hefur ekki verið flogið þaðan hvorki í gærkvöldi né í morgun og getur hann því ekki mælt fyrir nál. sínu hér, virðulegi forseti.

Þetta nál. er um frv. til laga um breytingu á lögum um steinullarverksmiðju sem er þá Steinullarveksmiðjan á Sauðárkróki.

Frv. felur í sér að veita iðnaðarráðherra heimild til að selja eignarhlut íslenska ríkisins í Steinullarverksmiðjunni og að helmingur söluandvirðisins skuli renna til samgöngubóta eða annarra verkefna í þeim sveitarfélögum sem eiga verulegra hagsmuna að gæta vegna starfsemi steinullarverksmiðjunnar, samkvæmt nánari ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Þannig hljóðar 1. gr. frv., virðulegi forseti. Með frv. fylgir svo ítarleg greinargerð.

Í greinargerð kemur fram að gert hafi verið samkomulag milli stærstu eigenda fyrirtækisins og Húsasmiðjunnar hf., BYKO hf. og Kaupfélags Skagfirðinga um kaup á eignarhlut ríkisins og Sveitarfélagsins Skagafjarðar í fyrirtækinu. Upplýst var á nefndarfundi að samkomulagið væri háð nokkrum skilyrðum, m.a. samþykki Alþingis og því að samkeppnisyfirvöld banni ekki kaupin eða setji um þau efnisleg skilyrði. Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt þótt ekki liggi fyrir hvort Samkeppnisstofnun leggi blessun sína yfir þessi viðskipti eða setji um þau efnisleg skilyrði. Minni hlutinn telur augljóst að Alþingi eigi ekki að afgreiða frumvarpið án þess að afstaða Samkeppnisstofnunar liggi fyrir.

Minni hlutinn er andvígur sölu ríkisins á eignarhlut sínum í Steinullarverksmiðjunni á Sauðárkróki við núverandi aðstæður og telur slíka ráðstöfun ekki líklega til að leysa fjárhagsvanda sveitarfélagsins til lengri tíma litið. Fjárhagsstaða þess hefur verið slæm og til þess að bæta hana hefur sveitarstjórnin brugðið á það ráð að selja eignir. Rafveita Sauðárkróks hefur verið seld ...

(Forseti (GÁS): Forseti biður hv. þm. afsökunar en vill svara fyrri beiðni hans um viðveru hæstv. fjmrh. í þá veru að hæstv. ráðherra er upptekinn næsta klukkutímann en getur þá komið til fundarins.)

Takk. Þá sé ég til hvernig ég haga máli mínu. En það eru brýnar spurningar sem heyra beint undir fjmrh. og embætti hans sem ég tel að farið hafi verið á svig við í vinnu iðnn. og liggja ekki svör fyrir og óska eftir að hann komi hér áður en ég lýk máli mínu. (Gripið fram í: Iðnrh. er hérna.) Hæstv. iðnrh. hefur ekki með þennan málaflokk að gera. (Gripið fram í: Nú, það var skrýtið.) Ekki hvað varðar fjárreiður ríkisins. Þó að hæstv. iðrnrh. sé vösk á marga lund þá veit ég ekki til þess að hún fari með fjmrn., a.m.k ekki eins og sakir standa.

Hæstv. forseti. Ég mun þá halda hér áfram með nál. eins og það liggur fyrir hjá hv. þm. Árna Steinari Jóhannssyni, þar sem verið er að rekja, einmitt eins og framsögumaður meiri hlutans kom inn á, að frumkvæðið að breytingum á eignaraðild að Steinullarverksmiðjunni er komið frá sveitarfélagi Skagafjarðar en vegna þess að fjárhagsstaða þess hefur verið slæm og til þess að bæta hana hefur sveitarstjórnin brugðið á það ráð að selja eignir. Rafveita Sauðárkróks hefur verið seld og nú stendur hugur sveitarstjórnarinnar til þess að losa um það fjármagn sem sveitarfélagið á í Steinullarverksmiðjunni. Eins og m.a. má sjá af ályktun sem birt er sem fylgiskjal með áliti þessu eru afar deildar meiningar um málið heima í héraði enda hefur Steinullarverksmiðjan um árabil verið mikilvæg stoð í atvinnulífi Sauðárkróks og Skagafjarðar. Á sínum tíma var tekist hart á um stofnsetningu verksmiðjunnar og ekki síst staðsetningu og það var pólitísk ákvörðun að henni var valinn staður á Sauðárkróki frekar en á ákveðnum stað hér á Suðurlandi. Það var mjög hörð umræða sem fór fram, m.a. hér í þingsölum, um hvar verksmiðjan skyldi vera staðsett og á endanum var það hin pólitíska ákvörðun að hún skyldi vera staðsett á Sauðrárkróki til eflingar atvinnulífi á því svæði í Skagafirði.

Steinullarverksmiðjan hefur reynst mikill happafengur fyrir Sauðárkrók og Skagafjörð. Þrátt fyrir nokkra byrjunarörðugleika hefur rekstur hennar gengið vel og hún hefur skilað eigendum sínum drjúgum arði. Hún veitir fjölda bæjarbúa atvinnu, bæði beint og óbeint, og sveitarfélagið hefur af henni umtalsverðar tekjur. Fjárhagur verksmiðjunnar er góður, mjög litlar skuldir hvíla á fyrirtækinu og ekkert bendir til annars en reksturinn geti áfram gengið vel. En skjótt skipast veður í lofti og engin trygging er fyrir því að nýir eigendur verksmiðjunnar hafi jafnmikinn áhuga og núverandi eigendur á því að efla hag hennar á þeim stað þar sem hún er rekin nú. Niðurstaðan gæti orðið brottflutningur starfa og tekjumissir og er þá verr af stað farið en heima setið. Minni hlutinn vill að allra leiða verði leitað til þess að leysa tímabundinn fjárhagsvanda Sveitarfélagsins Skagafjarðar, annarra en að selja drjúgan hluta bestu mjólkurkýrinnar á þeim bæ og setja þar með framtíð Steinullarverksmiðjunnar í algjöra óvissu. Reynist sveitarfélagið hins vegar nauðbeygt til þess að selja hlut sinn í verksmiðjunni telur minni hlutinn að ríkið eigi að leysa þann hlut til sín.

Með vísan til framangreinds leggur minni hluti nefndarinnar til að frumvarpinu verði vísað frá með svofelldri rökstuddri dagskrá, sem ég ætla að lesa, með leyfi forseta:

,,Í ljósi þess að áform um sölu Steinullarverksmiðjunnar eru fyrst og fremst til komin vegna bágrar fjárhagsstöðu Sveitarfélagsins Skagafjarðar og þess að um málið eru mjög deildar meiningar heima í héraði leggur minni hlutinn til að málinu verði vísað frá og tekið verði fyrir næsta mál á dagskrá.``

Í athugasemdum með frv. er rakinn nokkuð aðdragandi að stofnun Steinullarverksmiðjunnar á Sauðárkróki. Hann er að vísu nokkuð langur, en með lögum frá 1981 var ríkisstjórninni heimilt til að taka þátt í stofnun Steinullarverksmiðjunnar hf. á Sauðárkróki, eða reyndar í stofnun steinullarverksmiðju, henni hafði þá ekki verið ákveðinn staður. Það var þáv. iðnrh., Hjörleifur Guttormsson, sem hafði einmitt forgöngu um að koma málinu á þennan rekspöl ásamt mjög miklum dugnaði og áhuga heimamanna.

[10:45]

Stofnsamningur fyrir Steinullarverksmiðjuna var síðan undirritaður 2. desember 1982 og Steinullarverksmiðjan tók til starfa 1985 á Sauðárkróki. Þá höfðu staðið miklar deilur um hvar hún skyldi staðsett. En sveitarstjórn Skagafjarðar þá var mjög afdráttarlaus og einhuga í því að vinna þetta mál með þeim hætti að steinullarverksmiðjan yrði stofnsett á Sauðárkróki. Það ríkti mikill og sterkur einhugur þá hjá sveitarstjórninni um þetta mál og það ríkti líka mikill og sterkur einhugur meðal þingmanna kjördæmisins á þeim tíma um að vinna að þessu máli.

Þarna vann saman við stofnun verksmiðjunnar einhuga sveitarstjórn með öflugan sveitarstjóra, Þorstein Þorsteinsson, sem átti þar drjúgan þátt með víðtækri þekkingu sinni að koma þessu máli svo farsællega í höfn. Þingmenn kjördæmisins þá stóðu saman um að koma þessari verksmiðju á fót. Það var ekki sjálfgefið. Og Sveitarfélagið Skagafjörður lagði mikla fjármuni í undirbúningsvinnu við að koma þessari verksmiðju á, fjárútlát sem það lagði á sig til þess að þetta gæti orðið. Um þetta ríkti sterk samstaða þá. Þrátt fyrir nokkra byrjunarörðugleika hefur þetta fyrirtæki staðið sig afar vel. Rekstur þess er í mjög góðu standi. Meira að segja réðst fyrirtækið á síðasta ári í framkvæmdir til þess að bæta aðstöðu sína fyrir nærri 200 millj. kr., gat samt lækkað skuldir og greitt út arð. Það sjá allir sem vit hafa á eða einhver kynni af rekstri eða mikilvægi slíkra vinnustaða, hvers konar gullmoli þetta er í byggðarlagi úti á landi þar sem verður fyrst og fremst að verja þau störf og þau atvinnufyrirtæki sem blómgast og ganga vel til þess að skapa sóknarfæri fyrir ný og önnur fyrirtæki og verkefni. Þá byrjar maður ekki á því að höggva stoðirnar undan því sem fyrir er á staðnum eins og hér er verið að gera tillögu um.

Formaður iðnn. gerði mikið úr því að frumkvæðið hefði komi fram í héraði og þar væri um þetta það mikil samstaða að iðnn. hefði ekki talið ástæðu til þess að fá aðrar upplýsingar en að ráðinn sveitarstjóri eða fulltrúi fyrirtækisins PriceWaterhouseCoopers, Jón Gauti Jónsson, yrði sendur á fund iðnn. til að gera grein fyrir því hvernig mál stæðu.

Það er alla vega ljóst að í nál. meiri hlutans kemur ekki fram eða hefur verið kynnt að í Sveitarfélaginu Skagafirði væri ágreiningur um þetta mál. Svo virðist ekki vera, alla vega kemur það ekki fram í nál. að sú skoðun hefði verið túlkuð í iðnn. Ég tel þess vegna að iðnn. hefði átt að vinna þetta mál miklu betur. Það er ekkert kappsmál fyrir ríkið að vera að selja sinn hlut í Steinullarverksmiðjunni þó svo að fjárhagur Sveitarfélagsins Skagafjarðar sé með þeim hætti að þeim finnist þeir vera nauðbeygðir til þess, nauðbeygðir til þess að kikna undan stefnu ríkisstjórnarinnar varðandi málefni sveitarfélaganna, stefnu hæstv. félmrh. í tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga, stefnu hæstv. félmrh. sem er að ganga að hverju sveitarfélaginu á fætur öðru vítt og breitt um landið, knýja þau til þess að selja eignir sínar til þess að standa undir rekstri sínum.

Við minnumst umræðunnar um Orkubú Vestfjarða, um stöðu sveitarfélaganna þar, þar sem ríkið knúði á til þess að ná af þeim orkubúum sínum, möguleikum þeirra til framtíðar, knúði á um að sveitarfélögin seldu orkubúin upp í skuldir. Við minnumst líka umræðunnar hér á Alþingi þar sem það sama var upp á teningnum varðandi Rafveitu Sauðárkróks og þar sem ríkið samþykkti að leggja fjármunina fram til Rariks til þess að kaupa Rafveitu Sauðárkróks. Þó að fyrirtækið starfaði bara á afmörkuðum stað var það afar mikilvægt og hafði þjónað sínu byggðarlagi vel. Það kom því ekki á óvart að nú í vetur væri flutt frv. um hlutafélagavæðingu á Rarik, ríkið nýbúið að gefa Rarik peninga til þess að kaupa Rafveitu Sauðárkróks. Hefði ekki verið nær að leyfa Sauðárkróki og Skagafirði að eiga Rafveitu Sauðárkróks og leggja peningana bara beint til þeirra frekar en að láta Rarik fá þá sem verði síðan hlutafélagavætt og selt, ef stefna ríkisstjórnarinnar nær fram að ganga?

Nei, það skal pína sveitarfélögin, það skal pína þau í þágu einkavæðingar og þeirra peningasjónarmiða sem reka þessa ríkisstjórn áfram og þau gjalda fyrir það hvert af öðru.

Það hefði verið nær að við fjölluðum um frv. af hálfu félmrh. sem kvæði á um hvernig styrkja mætti fjárhag sveitarfélaganna vítt og breitt um landið, úti um hinar dreifðu byggðir, þannig að þau gætu staðið undir þeim verkefnum sem ríkið er stöðugt að fela þeim, færa af sér og yfir á sveitarfélögin. Það hefði verið nær og við hefðum með glöðu geði fjallað frekar um slíkt frv. heldur en frv. um hvernig skapa eigi óöryggi í kringum eitt mikilvægasta atvinnufyrirtækið sem er í heilu byggðarlagi í Skagafirði, sem var umdeilt á sínum tíma og fjölmörg byggðarlög öfunda okkur af að hafa.

Það kom heldur ekki fram í nál. eða framsögu meiri hlutans hvort haft hefði verið samband við starfsmenn fyrirtækisins. Mér þætti fróðlegt hvort svo hafi verið. Mér er ekki kunnugt um að þessi væntanlega sala og eignabreyting á fyrirtækinu hafi verið rædd við starfsmenn. Þó er kveðið á um það í frv. að starfsmenn skuli hugsanlega eiga 15% eða eitthvað svoleiðis, án þess að nokkuð hafi verið um það rætt. Eigum við bara að samþykkja hér á Alþingi að svo skuli vera? Hefði ekki verið siðlegt að hv. iðnn. hefði látið svo lítið að bjóða fulltrúum starfsmanna að koma á fund nefndarinnar og gera grein fyrir sjónarmiðum sínum varðandi sölu á þessu fyrirtæki? Nei, það var ekki, það þótti nóg að fá þennan sveitarstjóra eða þetta fyrirtæki sem rekur sveitarstjóra í Skagafirði, því að eftir því sem mér skilst er Sveitarfélagið Skagafjörður með samning við fyrirtækið PriceWaterhouseCoopers sem útvegar því sveitarstjóra og hann starfar á þeirra vegum sem sveitarstjóri Skagafjarðar. Það er sá sem kemur sem fulltrúi Skagafjarðar til þess að greina frá þeirri samstöðu sem hv. þm. var hér að vísa til.

Ég vil, með leyfi forseta, lesa bókun sjálfstæðismanna í sveitarstjórn Skagafjarðar frá 17. apríl sl. þar sem til umræðu voru vinnubrögð í kringum sölu á Steinullinni, með leyfi forseta:

,,Sjálfstæðismenn í sveitarstjórn Skagafjarðar átelja harðlega vinnubrögð meiri hlutans og sveitarstjóra varðandi fund iðnaðarnefndar Alþingis sem haldinn var mánudaginn 15. apríl. Sveitarfélaginu var boðið að senda fulltrúa sína á þennan fund en fundarboðið var ekki kynnt sjálfstæðismönnum fyrr en tveim dögum eftir að fundurinn var haldinn. Í ljósi þess að sala hlutabréfa í Steinullinni var samþykkt í sveitarstjórn með naumum meiri hluta hljóta þessi vinnubrögð að teljast ámælisverð. Þannig var sjálfstæðismönnum ekki gefinn kostur á að færa rök fyrir máli sínu gagnvart iðnaðarnefnd.``

Meiri hlutinn sem hv. þm. Hjálmar Árnason var að vitna til, er nú ekki nema sex á móti fimm. Hefði ekki verið ástæða til í svo stóru máli sem svo hafði verið barist fyrir á sínum tíma að ræða þetta ítarlega við heimamenn? Hefði það ekki verið siðlegra en að keyra þetta mál meira og minna bakdyramegin í gegnum þingsali?

Það er líka táknrænt fyrir vinnubrögðin, virðulegi forseti, hin breyttu vinnubrögð, að þegar verið var að vinna að stofnsetningu Steinullarverksmiðjunnar þá var mjög náið samráð og haldnir reglulegir fundir, að því er mér hefur verið tjáð, með þingmönnum kjördæmisins um það hvernig vinna mætti þennan sigur eða hvernig mætti sem best vinna til sigurs í að fá Steinullarverksmiðjuna staðsetta og stofnsetta á Sauðárkróki. Mér er ekki kunnugt um, ekki hef ég alla vega verið boðaður á fund þingmanna Norðurl. v. til þess að ræða þetta mál og mér er til efs að nokkur þingmannafundur hafi verið haldinn og tel reyndar ekki svo vera. Þetta sýnir alveg gjörbreytta stöðu þannig að manni stendur bara ógn af því vinnulagi sem hér er boðið upp á. Það væri lágmark að málin yrðu rædd á breiðum grundvelli, fengin fram sjónarmiðin áður en þessi ákvörðun er tekin af hálfu Alþingis og ríkisstjórnarinnar að selja þennan hlut, það væri þá algjört lágmark að það væri rætt því að meiri hlutinn, eins og hv. þm. Hjálmar Árnason fullyrti, er tryggður. En lágmark er að halda þeim vinnubrögðum sem eru sæmandi í stórmálum sem þessum, málum sem skipta heilt byggðarlag gríðarlega miklu eins og framtíð og staða Steinullarverksmiðjunnar á Sauðárkróki.

Þannig er allur ferill þessa máls, virðulegi forseti, með þeim hætti að hann að mínu mati er ekki þingtækur og þess vegna hefur fulltrúi okkar í hv. iðnn., hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson, lagt fram frávísunartillögu um málið og talið að það eigi ekki að koma fyrir Alþingi í þeim búningi sem það er nú og svo illa unnið sem það er.

Það eru gerðir fyrirvarar, virðulegi forseti, um söluna, m.a. að samkeppnisyfirvöld banni ekki kaupin eða setji um þau efnisleg skilyrði. Hæstv. iðnrh. er yfirmaður samkeppnismála þó að hann sé ekki yfirmaður fjmrn. Það væri fróðlegt að vita hvað líður þessari umsögn eða vinnu Samkeppnisstofnunar. Eigum við að fara að samþykkja lög á Alþingi um sölu á hlut í Steinullinni með fyrirvara um að embættisstofnun eða starfsstofnun eins og Samkeppnisstofnun leggi blessun sína yfir það? Á það ekki heldur að vera öfugt? Er ekki eðlilegra að Samkeppnisstofnun komi fyrst með sínar ábendingar, sína umsögn þannig að Alþingi viti þá hvað verið er að samþykkja en sé ekki að samþykkja hér lög með fyrirvara um að Samkeppnisstofnun leggi blessun sína yfir þau. Ég hef aldrei vitað fáránlegri nálgun í nokkru máli, virðulegi forseti.

Það er líka hægt að rifja það upp einmitt í þessu sambandi að Samkeppnisstofnun hefur áður fengið mál Steinullarinnar til umræðu. Það var þegar samkeppnisráð þurfti fyrir nokkrum árum að fjalla um sölusamning á steinull til þessara sömu aðila. Þessi samningur fjallaði um það að Steinullarverksmiðjan gerði einkaleyfissamning við einmitt BYKO og Húsasmiðjuna um dreifingu á steinull þannig að þeir sæju alfarið um dreifingu á steinull fyrir fyrirtækið. Ég mun koma að því síðar í ræðu minni en úrskurður samkeppnisráðs var þessi, með leyfi forseta:

[11:00]

,,Loks segir í ákvörðun ráðsins að með því að setja það skilyrði að einungis byggingarvöruverslanir sem selja almenna byggingarvöru, svo sem timbur, stál, grindarefni o.fl., fái að selja steinull séu Steinullarverksmiðjan og Krókháls að styrkja stöðu BYKO og Húsasmiðjunnar á smásölumarkaðnum fyrir steinull. Skilyrðið sé til þess fallið að hindra aðgang nýrra fyrirtækja að markaðnum þar sem það hljóti að krefjast umtalsverðrar fjárfestingar að koma upp smásöluverslun með alhliða byggingarvörur. Þannig sé t.d. girt fyrir það að nýr aðili komi inn á markaðinn sem hugsanlega vilji keppa með þeim hætti að halda kostnaði og þjónustu í lágmarki en bjóði þess í stað lægra verð.

Í ljósi framangreinds telur samkeppnisráð að einkadreifingarsamningur Steinullarverksmiðjunnar við fyrirtæki sem eru í meirihlutaeigu stærstu fyrirtækjanna á smásölumarkaði fyrir steinull hafi skaðleg áhrif á samkeppni.``

Þessum samningi var hafnað en nákvæmlega sömu aðilar eru nú að sækjast eftir því að fá keypta verksmiðjuna. Ég leyfi mér að spyrja hæstv. iðnrh. og ráðherra samkeppnismála hvort hún hafi hugað að þessum þáttum sem áður höfðu farið fram, einmitt um málefni Steinullarverksmiðjunnar, hvað þetta varðar.

Það er furðulegt ráðslag ef við hér eigum að samþykkja lög með hugsanlegum fyrirvara um samþykki Byggðastofnunar. (Iðnrh.: Heimild til ráðherra.) Heimild til ráðherra, segir hæstv. iðnrh. Já, eigum við að fara að stjórna landinu bara á fullkomnum heimildum? Það er svo sem allt að verða í þeim dúr að stjórna bara með heimildum. Hann verður bráðum orðinn þungur sekkurinn hjá hæstv. iðnrh. af heimildum, heimildum sem hæstv. ráðherra kippir svo bara upp úr skjóðu sinni þegar þannig stendur á. Er þetta það form sem við viljum hafa á stjórnun Íslands, að ráðherra gangi bara um með skjóðu fulla af heimildum?

Nei, ég held einmitt af og frá að við viljum að hér séu samþykktar opnar heimildir til hins og þessa ráðslags sem ekki styðst við bæði lagastoð og raunveruleika.

Herra forseti. Nú hef ég spurningar mínar til hæstv. fjmrh., er hæstv. fjmrh. einhvers staðar í grenndinni?

(Forseti (GÁS): Nei, eins og forseti gat um áðan er ráðherrann upptekinn á fundum en hafði góðar vonir um að mæta til fundarins klukkutíma síðar. Það er hálftími frá því að það var þannig að hans er tæpast að vænta fyrr en um hálftólfleytið.)

Ég legg áherslu á að hæstv. fjmrh. komi, þetta mál heyrir undir hann hvað fjársýslu varðar, og ég tel að þarna sé spurningum ósvarað í atriðum sem hæstv. ráðherra ber ábyrgð á.

Ég mun þá halda aðeins lengra áfram, virðulegi forseti, en geri ráð fyrir að hæstv. ráðherra hafi eðlilegar þingskyldur og mun þá óska eftir að fresta máli mínu þegar ég kem að þeim fyrirspurnum sem ég ætla að leggja fyrir hann.

Herra forseti. Ég gerði að umtalsefni einmitt fjárhagsstöðu þessa fyrirtækis. Það er, ef við lítum á ársreikninga þess fyrir árið 2001, með í rekstrartekjur um 720 millj. kr. Það er hliðstæð upphæð, aðeins lægri, og gert er ráð fyrir að heildarsöluvirði fyrirtækisins sé. Ég veit ekki hver hefur metið söluandvirði og verðgildi hlutabréfanna, mig minnir að það komi hvorki fram í nál. né að hv. iðnn. hafi talið að hún þyrfti að afla upplýsinga um það hvernig söluverðið hefði verið metið. En rekstrartekjur fyrirtækisisins voru á sl. ári tæpar 720 millj. kr. og arðsemi eigin fjár, þó að það hafi lækkað frá fyrra ári, er samt liðlega 15%. Það hefur að vísu lækkað á undanförnum árum, og hvers vegna ætli það sé? Fyrir einmitt stefnu hæstv. byggðamálaráðherra í byggðamálum því að fyrirtækið er háð því að fá að flytja framleiðsluvörur sínar á markað. Markaðurinn er að stórum hluta hér suðvestan lands þannig að það er mjög háð flutningum og sömuleiðis er stór hluti aðfanganna sem þarf að hafa til að framleiða vöruna líka fluttur að sunnan. Fyrst og fremst þess vegna hefur einmitt rekstrarstaða fyrirtækisins, þó að hún sé áfram mjög góð, heldur versnað á sl. árum, einmitt vegna þess aðbúnaðar og aðstöðu sem stjórnvöld búa fyrirtækjum úti á landi. Arðsemi eigin fjár var samkvæmt ársskýrslunni árið 1999 24%, árið 2000 20% og á síðasta ári, 2001, 15%.

Það er því ljóst að framtíð þessarar verksmiðju er í sjálfu sér ekki sjálfgefin nú frekar en var þegar ákvörðun var tekin um að hún yrði staðsett á Sauðárkróki. Þá var tekist á um sömu þættina, hvort hún skyldi vera staðsett í Þorlákshöfn eða á Sauðárkróki. Fyrir atbeina og dugnað heimamanna og það að Alþingi tók þá lokaákvörðun varð niðurstaðan sú að hún yrði staðsett á Sauðárkróki.

Við breytinguna á eignaraðild eins og hér er lagt upp með, þar sem hinir nýju eigendur eru BYKO, Húsasmiðjan og fyrirtæki sem þeir eiga auk þess sem Kaupfélag Skagfirðinga kemur þarna inn sem stærri eigandi, er ljóst að verið er að rugga því eignarhaldi sem hefur verið á verksmiðjunni og veitt henni öryggi, 24% hlutur sveitarsjóðs og 30% hlutur ríkissjóðs. Sem sagt, ríkissjóður og sveitarsjóður Skagafjarðar hafa átt liðlega helming, þ.e. 54%, í verksmiðjunni sem hefur gert henni kleift að búa við ákveðið öryggi.

Það er dapurlegt til þess að vita, herra forseti, að Kaupfélag Skagfirðinga skuli verða að beita bolmagni sínu til að kaupa út hluti ríkisins í þessari verksmiðju til að freista þess að tryggja stöðu þess að nokkru á heimaslóð. Það er hryggilegt til þess að vita að meðan við horfum upp á það að ríkið fjallar kinnroðalaust um að láta 20 milljarða kr. í eitt fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu, 20 milljarða kr. sem við höfum fjallað um á undanförnum dögum að ríkið ætli að ábyrgjast og vera reiðubúið að inna af hendi, finnist því ástæða til að rugga stöðu fyrirtækis sem hefur gengið mjög vel, mikilvægu fyrirtæki á Sauðárkróki, og fá út úr því kannski 200 millj. kr. Þetta er aldeilis stórmannalega að staðið eða hitt þó heldur. Hér ræðum við í milljörðum og tugmilljörðum kr. um hvað við getum sett aukið fjármagn hér í uppbyggingu á atvinnulífi á þessum svæðum en þegar við komum út í hinar dreifðu byggðir, á litla staði sem verða að halda vel utan um hvert það fyrirtæki sem þeir hafa, þykir ríkinu muna um að rugga því með því að selja það. (PHB: Næst eru Hólar.)

Já, hv. þm. Pétur Blöndal nefnir Hóla. Það er alveg rétt að Hólar hafa risið og vaxið og dafnað og gera enn með myndarlegum hætti, og eru afar mikilvægir líka fyrir landið í heild, þjóðina alla. Sá nánasarháttur sem verið er að kynna hér --- að Skagfirðingar þurfi að láta selja fyrirtæki sín innan Skagafjarðar til að standa undir lögboðnum fjárframlögum ríkisins, hvort heldur til vegagerðar, uppbyggingar menntastofnana eða annarra atvinnufyrirtækja, verkefna sem við almennt veitum fé til á fjárlögum samkvæmt ákvörðun Alþingis --- er fyrir neðan allar hellur. En menn gorta sig af því að hægt sé að selja eignir innan sveitarfélagsins til að standa undir lögboðnum verkefnum ríkisins. (Gripið fram í.) Mér finnst þetta vera aumingjalegur málflutningur.

Tökum Þverárfjallið. Hér er talað um að í það eigi að leggja einhverja peninga sem eru þó bara brot af því sem þarf í þann veg. Hefði ekki verið myndarlegra að Alþingi hefði bara ákveðið að Þverárfjall félli undir stórverkefni og fengi fjármagn á fjárlögum óháð því hvort verið væri að selja þetta fyrirtæki eða hitt? Það er alveg óþolandi ef byggðastefna ríkisins á að vera fólgin í því að pína sveitarfélög og ríkissjóð til að selja hluti sína úti um hinar dreifðu byggðir til þess að leggja þar í mannvirki, verkefni sem ríkið ber annars ábyrgð á. Ég veit ekki, herra forseti, aumari byggðastefnu en þessa nálgun. Endemis aumingjaskapur. Hvers vegna getum við ekki látið fé af fjárlögum í Þverárfjallsveg eins og í aðrar vegaframkvæmdir á landinu? Hvers vegna þarf að fá Skagfirðinga til að selja eigur sínar til þess að koma upp Þverárfjallsvegi? Eru samgrh. og ríkisstjórnin svona slöpp? Er þetta þrautaleiðin? Fyrir utan það, herra forseti, ætla ég síðan að spyrja fjmrh. á eftir þegar hann kemur hvernig hann líti á þá meðferð á fjárlögum og fjármálum ríkisins að einstakir fagráðherrar geti verið úti um borg og bý og lofað þessum og hinum greiðslum til þessara og hinna verkefna án þess að um það hafi nokkuð verið fjallað við fjárlagagerð. Ég minnist tilvika þar sem ýmsir aðrir hv. embættismenn ríkisins hafa verið snupraðir fyrir slíka háttsemi.

Herra forseti. Nú er ég kominn að því máli þar sem ég vildi ræða um reglugerð fjmrn. um ráðstöfun eigna ríkisins. Mér finnst óvirðing að því ef hæstv. fjmrh. telur ekki ástæðu til að vera hér. Hann vissi að þetta mál var fyrst á dagskrá og yrði rætt um. Þetta er ráðstöfun og meðferð á fjármunum og eigum ríkisins og mér finnst að hæstv. fjmrh. eigi að vera viðstaddur. Ég gerði kröfu til þess strax í upphafi máls míns. Sú krafa hefur legið fyrir og ég óska eftir því að gera þá hlé.

Er annars hv. 1. þm. Norðurl. v. í húsinu?

(Forseti (GÁS): Hann er í húsinu, já.)

Ég óska þá eftir að hann komi hingað þannig að ég geti beint til hans nokkrum spurningum ef það væri hægt.

[11:15]

(Forseti (GÁS): Forseti mun freista þess að fá hv. þm. Vilhjálm Egilsson til fundarins. En forseti vill árétta það sem hann sagði áðan að hæstv. fjmrh. hafa þegar verið gerð þau boð að hann komi til fundarins. Heppilegra hefði þó verið ef hv. þm. hefði óskað þess fyrir þennan fund þannig að hægt hefði verið að hafa fyrirvara á því. En eins og forseti hefur áður sagt þá væntir hann ráðherra hingað til fundarins um hálftólfleytið. Forseti vekur athygli á því að hv. þm. á þess kost að halda fleiri ræður við þessa umræðu máls.)

Virðulegur forseti. Mér bara datt ekki annað í hug en að hæstv. fjmrh. yrði viðstaddur. Þetta mál var klárlega á dagskrá og hér er um sölu á einni af stórum ríkiseigum að ræða og meira að segja líka verið að lofa ráðstöfun á fjármagni til ákveðinna verkefna sem heyra undir fjárln. og hæstv. fjmrh.

(HjÁ: Er málstopp?) (GAK: Mér finnst nauðsynlegt að eiga ... þagnarbindindi.) (HjÁ: Urðu Vinstri grænir kjaftstopp?) Er hv. 1. þm. Norðurl. v. ...? (HjÁ: Þingmanninum ber engin skylda til að koma.)

(Forseti (GÁS): Eins og forseti gat um er verið að hafa uppi á honum. Hann er í húsinu samkvæmt ...)

Herra forseti. Ég get í sjálfu sér ekki krafið 1. þm. Norðurl. v. að vera viðstaddan umræðuna. En ég ætlaði aðeins að beina til hans spurningum sem 1. þm. Norðurl. v. því að ég tel að hv. þm. hafi skyldur sem slíkur.

Hv. þm. Vilhjálmur Egilsson er kominn og ég þakka fyrir það. (VE: Kannski ... meiri skyldur heldur en hann.)

Ég vil leyfa mér að spyrja hv. 1. þm. Norðurl. v., Vilhjálm Egilsson, hvort nokkurn tíma hafi komið til tals í þessu ferli sölu Steinullarverksmiðjunnar á Sauðárkróki, að kallaður yrði saman fundur þingmanna kjördæmisins til þess að fjalla um málið. Ég hef rifjað það upp í ræðu minni að í aðdraganda stofnunar verksmiðjunnar --- ég hef öruggar heimildir fyrir þessu --- var mjög náið samstarf á milli allra þingmanna kjördæmisins og milli sveitarstjórnarmanna var einhugur um að vinna að málinu. Nú hefur hv. formaður iðnn. upplýst hér að talið hafi verið nóg að sveitarstjórinn kæmi og kynnti stöðu og vilja heimamanna í þessu máli og hvergi er getið í nál. að um þetta ríki neinn ágreiningur. Ég vil leyfa mér að spyrja hv. 1. þm. Norðurl. v., Vilhjálm Egilsson: Var málið kynnt fyrir þingmönnum kjördæmisins á fyrstu stigum málsins þannig að þeir hefðu getað haft áhrif á gang mála á frumstigi og síðar?

Í öðru lagi vil ég spyrja hv. þm. hvort hann taki undir þau orð hv. formanns iðnn. að svo full sátt sé um þetta mál að ekki hafi þótt ástæða til að kalla fleiri fyrir iðnn. til þess að gera grein fyrir stöðunni og vilja heimamanna og annarra í þessu máli. Ég vil að hv. þm. svari mér því. Mér er ekki kunnugt um að þess hafi verið óskað.

Virðulegi forseti. Ég ætlaði að spyrja meira en mun gera það seinna ef hæstv. fjmrh. er ekki á næstu grösum. Ég óska eftir því að fá upplýsingar um hvort svo sé. En úr því að hv. formaður iðnn. er hér langar mig til að spyrja hann, hv. þm. Hjálmar Árnason: Hvað gerði iðnn. til þess að kanna verðmætamat? Hverjir mátu verð á viðkomandi hlutbréfum og hverjir gerðu það í þessu máli? Hversu ítarleg og góð var vinna iðnn. á því sviði? Ég geri ráð fyrir að hann geri sér grein fyrir því að samkvæmt lögum liggur fyrir hvernig eigi að vinna verðmætamat á ríkiseigum og vil því athuga hvaða aðili eða hvaða fyrirtæki hefði unnið það verðmætamat. Ég óska eftir því að hv. þm. komi með aðra skýringu ef mín er ekki rétt, en ég hef þær upplýsingar að fyrirtækið PriceWaterhouseCoopers hafi unnið þessa úttekt og verðmætamat sem aðilar studdust við. En hv. formaður iðnn. hefur vafalaust farið svo nákvæmlega ofan í málin að hann getur upplýst okkur um það.

Ég ætla líka að spyrja hv. formann iðnn., þ.e. sé það rétt hjá mér að PriceWaterhouseCoopers hafi unnið þetta álit og verðmætamat, hvort hann geri sér grein fyrir því að sveitarstjóri Skagafjarðar sem kom fyrir iðnn., er líka starfsmaður og seldur út af sama fyrirtæki. Hversu ítarlega fór hv. iðnn. í gegnum þessi mál?

Hann svaraði heldur ekki þegar ég spurði (Gripið fram í.) hann áðan í andsvari hvort samráð hefði verið haft við starfsfólk Steinullarverksmiðjunnar um þær breytingar sem þarna er lagt til að verði og enn fremur ekki um hver væri staða mála varðandi Samkeppnisstofnun sem er með þetta mál í skoðun. Ég geri ráð fyrir því að hv. formaður iðnn. viti hvernig standa beri að sölu á eignarhlut ríkisins í fyrirtækjum. Ég spyr því hvort þær reglur hafi að hans mati verið hafðar í heiðri, hvort honum sé kunnugt um þær reglur, hvort hann viti hverjar þær eru og hvernig fara beri eftir þeim, því að að mínu mati hafa þær allar verið þverbrotnar hér, allar reglur um það hvernig með eignarhlut í eigum ríkisins skuli fara.

Virðulegi forseti. Ég á eftir seinni ræðu mína. Ég harma ítrekað að hæstv. fjmrh. telur þetta mál ekki vera þess eðlis að hann þurfi að vera viðstaddur og að hann hafi ekki gert sér grein fyrir mikilvægi þess. Þarna er þó um ríkiseignir að ræða og ákvörðun um sölu á ríkiseignum. Ég tel að miklu mun nær væri að ríkið leysti til sín hlut sveitarfélagsins. Ef það telur sig nauðbeygt til þess að selja hlut sinn í Steinullarverksmiðjunni hefði ríkið átt að leysa það til sín til þess að tryggja stöðu þessa fyrirtækis í héraðinu. Það hefði verið miklu nær að skoða þetta á þeim grunni. Ætli það hafi verið kannað hvort mætti selja einhverjum öðrum þetta? Var öðrum heimaaðilum gefinn kostur á að kaupa t.d. hlut ríkisins? Hverjum var eiginlega gefinn kostur á að kaupa hlut ríkisins? Var þetta allt saman afgreitt undir borðið? Þetta hefur ekkert komið fram hér.

Virðulegi forseti. Ég kem að þeim málum sem lúta beint að fjmrh. í seinni ræðu minni. Ég ítreka og rifja upp tillögu hv. þm. Árna Steinars Jóhannssonar þar sem hann leggur til að þessu máli verði vísað frá því það sé ekki unnið með þeim hætti að það sé þingtækt og forsendurnar sem lagðar eru upp fyrir því séu líka rangar. Því beri að vísa þessu máli frá.