Steinullarverksmiðja

Mánudaginn 29. apríl 2002, kl. 18:07:34 (8409)

2002-04-29 18:07:34# 127. lþ. 132.16 fundur 663. mál: #A steinullarverksmiðja# (sala á eignarhlut ríkisins) frv. 57/2002, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 127. lþ.

[18:07]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Athyglisvert er að hæstv. fjmrh. vék sér algjörlega hjá því að svara lykilspurningunni. Hvers vegna var ekki farið að reglum um ráðstöfun eigna ríkisins? (Fjmrh.: Vegna þess að sett eru sérstök lög.) Hvers vegna var þeim ýtt til hliðar?

Í öðru lagi gumar hæstv. fjmrh. mjög af miklum stuðningi við málið á þingi. Það kann vel að vera að allir sjálfstæðismenn ætli að láta hafa sig í þetta. En þeir gera það ekki með stuðningi og velvilja sjálfstæðismanna í Skagafirði. Það er algerlega á hreinu. Ég er með í höndunum harðorða ályktun sjálfstæðismanna í sveitarstjórn Skagafjarðar. Öllum er ljóst að þetta er gert í algerri óþökk þeirra. En það kann vel að vera að sjálfstæðismenn, meira að segja úr því kjördæmi, ætli að láta sig hafa það að styðja þetta mál, enda eru sumir þeirra þekktir fyrir það að vilja eitt en gera annað eins og kunnugt er þegar kemur að atkvæðagreiðslum hér á þingi og fara sjálfsagt létt með það í þessu tilviki eins og öðru.

Ég held, herra forseti, að ekki séu innstæður fyrir þessum digurbarkalegu ummælum hæstv. fjmrh. hér. Ég neita að trúa því að hæstv. ráðherra sé ánægður með hvernig haldið var á þessu máli. Það talar svo gjörsamlega fyrir sig sjálft að það er fullkomlega óeðlilega að þessu staðið á allan hátt, ef selja átti þennan hlut ríkisins á annað borð, að fara þá ekki að reglum í því efni, auglýsa hann til sölu, láta á það reyna hvaða verð var hægt að fá fyrir hann á markaði og þar fram eftir götunum, hvort almenningur t.d., íbúar byggðarlagsins, hefði áhuga á því að kaupa í fyrirtækinu. Öllu þessu er ýtt til hliðar. Það eru ámælisverð vinnubrögð, herra forseti, og það er algjörlega útilokað að hæstv. fjmrh. geti neitt leiðrétt það.