Steinullarverksmiðja

Mánudaginn 29. apríl 2002, kl. 20:35:43 (8417)

2002-04-29 20:35:43# 127. lþ. 132.16 fundur 663. mál: #A steinullarverksmiðja# (sala á eignarhlut ríkisins) frv. 57/2002, JÁ
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 127. lþ.

[20:35]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Við ræðum hér um breytingu á lögum nr. 61/1981, um steinullarverksmiðju. Ýmislegt hefur borið á góma í þessari umræðu en mér hefur aðallega fundist hún snúast um hvort skynsamlegt og hollt sé fyrir þá sem stjórna bæjarmálum í Skagafirði að fá að ráða málum sínum sjálfir. Þar hafa menn komist að þeirri niðurstöðu, reyndar fyrir löngu síðan, að þeir vildu selja hlut sinn í Steinullarverksmiðjunni.

En það er margt skondið í pólitíkinni þessa dagana. Sjálfstæðismenn í Skagafirði, sem árum saman höfðu það á stefnuskrá sinni að selja verksmiðjuna, hafa allt í einu komist að þeirri niðurstöðu að það eigi ekki að selja hana. Þetta gerist á sama tíma og sjálfstæðismenn á Alþingi og ríkisstjórn komast að þeirri niðurstöðu að veita eigi ríkisábyrgð á stórfyrirtæki, 20 milljarða, þvert á þá stefnu sem þeir hafa haft um langt skeið. Náttúrlega veit enginn hvaðan á hann stendur veðrið þegar um er að ræða stefnu Sjálfstfl. í svona málum. En það bregður svo við að sjálfstæðismenn í Skagafirði hafa eignast bandamenn, vinstri græna. Þeir hafa af mikilli hörku komið til umræðu um þetta mál og komist að þeirri niðurstöðu að í fyrsta lagi eigi sveitarfélagið alls ekki að selja sinn hlut og í öðru lagi að ef sveitarfélagið þurfi endilega að selja sinn hlut eigi ríkið að kaupa hann og að ríkið eigi alls ekki að selja sinn hlut.

Ég skil þetta ekki nógu vel. Þess vegna langar mig að fara dálítið yfir það sem sagt var hér fyrr í dag og þau viðbrögð sem urðu eftir andsvör mín við hv. þm. Jón Bjarnason og Árna Steinar Jóhannsson. Ég var þá að reyna að komast að því hver væri stefna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs varðandi það hvaða atvinnurekstri ríkið ætti að taka þátt í og með hvaða hætti ríkið ætti að koma að atvinnumálum í landinu. Ég vil taka það fram að við hjá Samfylkingunni erum ekki á móti því að ríkið komi að atvinnumálum og taki þátt í þeim og ekki heldur sveitarfélögin, ef um það er að ræða að byggja upp atvinnufyrirtæki og koma til móts við atvinnulífið ef á þarf að halda.

Ég hef hins vegar haft á þá skoðun og heyri ekki betur en aðrir félagar mínir í Samfylkingunni hafi þá skoðun líka að þegar sveitarfélög eða ríki komi að slíkum málum sé best að lagt sé hlutafé í fyrirtækið en síðan sé reynt að selja þessa hluti strax og færi gefst. Eðlilegra væri að nota þá peninga síðan til að halda áfram að byggja upp atvinnulíf. Ég hefði frekar viljað sjá það en það sem er talað um í þessu frv., þ.e. að leggja þessa fjármuni til vegagerðar á svæðinu þó að ég hafi út af fyrir sig ekkert á móti því að vegirnir séu byggðir upp. Ég hefði heldur viljað sjá menn leggja fjármunina í atvinnuuppbyggingu á svæðinu, hafi menn á annað borð þá stefnu, sem ég vona satt að segja að ríkisstjórnin hafi, að styrkja og byggja upp atvinnulíf á landsbyggðinni.

Ég ætlaði að ræða dálítið um viðbrögð hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar og hv. þm. Jóns Bjarnasonar við orðum mínum í dag. Ég verð að segja að mér finnst afstaða Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs dálítið tækifæriskennd í þessum málum. Þeir fóru með miklu offorsi gegn því að ríkið keypti Orkubú Vestfjarða. Rökin í því máli voru þau að sveitarfélögin væru veik og þau væru neydd til að selja vegna þess að ríkið vildi ekki rétta þeim hjálparhönd með neinum öðrum hætti. Ég verð að segja að mér fannst nokkuð til í þeim málflutningi. Mér finnst hins vegar svolítið skrýtið að þeir sem ekki vilja að ríkið eigi slík fyrirtæki skuli vera á þeirri skoðun að ríkið eigi að eiga verksmiðju af þessu tagi, sem framleiðir steinull, byggingarefni. Ég get heldur ekki séð að vá sé fyrir dyrum þó ríkið selji þennan eignarhlut sinn.

Mér finnst jafnframt algjörlega ástæðulaust, ef ekki vafasamt og ámælisvert, að menn skuli hræða fólk á þessu svæði með því að miklu meira óöryggi verði um rekstur fyrirtækisins inn í framtíðina þó að það verði selt eins og hér er gert ráð fyrir. Ég get ekki betur séð en að með þessari sölu sé í raun verið að tryggja framtíð fyrirtækisins betur hvað varðar samkeppni á þessum markaði en áður var. Hverjir eru kaupendur að þessu fyrirtæki, samkvæmt því sem hér liggur fyrir? Það eru þeir aðilar sem líklegastir eru til að vera skeinuhættir í samkeppni með sölu á einangrunarefnum í landinu. Er þá trúlegt að þeir aðilar séu líklegastir til að leggja niður þetta fyrirtæki og fara að flytja inn í staðinn? Mundu þeir aðilar, ef þeir hefðu þá trú á framtíð þessa fyrirtækis að það væri hagkvæmara að flytja inn einangrunarefni og selja, kaupa þetta fyrirtæki? Það er fráleitt. Það er gersamlega fráleitt. Auðvitað er framtíð þessa fyrirtækis betur tryggð eftir þessa sölu en fyrir hana af þessum samkeppnisástæðum. Það er að mínu viti ekkert vafamál.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon spurði mig í andsvari, sem ég gat ekki svarað, þ.e. í frammíkalli öllu heldur, hvort ég vildi þá selja Sementsverksmiðjuna líka. Ég hef ekki svo ósveigjanlegar hugmyndir um hvaða atvinnurekstri ríkið á að taka þátt í að ég geti ekki metið það út frá einstökum fyrirtækjum, eftir aðstæðum þeirra.

Um Sementsverksmiðjuna er það að segja að innflutningur á sementi er frjáls og hefur verið það lengi. Sementsverksmiðjan hefur aftur á móti fram að þessu búið við þær aðstæður að enginn annar aðili var hér á markaðnum sem veitti henni alvörusamkeppni. Nú hefur það aftur á móti gerst að erlent semtentsframleiðslufyrirtæki hefur sett upp aðstöðu til að selja sement. Komin er á alvörusamkeppni við framleiðslu og sölu á sementi hér í landinu. Það verður að segjast alveg eins og er, að framtíð Sementsverksmiðjunnar er þess vegna í óvissu. Ég er ekki sannfærður um að hægt væri að selja það fyrirtæki á góðu verði í dag. Mér finnst það reyndar ekki líklegt.

Þegar Spánverjar vildu kaupa þetta fyrirtæki fyrir nokkrum árum var ekki samkeppni á sementsmarkaðnum eins og er í dag. Það er ljóst að Spánverjarnir höfðu það fyrst og fremst í huga að nýta sér sölukerfi Sementsverksmiðjunnar. Að mínu viti hefðu þeir verið líklegir til að leggja þann rekstur niður vegna þess að þeir voru sjálfir að framleiða sement annars staðar í verksmiðjum sem afkasta margfalt meira en Sementsverksmiðjan á Íslandi.

[20:45]

Það er rétt að minna á að Sementsverksmiðjan á Íslandi er fyrirbrigði sem finnst ekki annars staðar í heiminum. Hún framleiðir 120--140 þús. tonn á ári en verksmiðjurnar sem eru hér næstar okkur, m.a. á Norðurlöndunum og þykja ekki stórar, framleiða 3--4 millj. tonna á ári. Sementsverksmiðjan hér er því ekki mjög líkleg til að standast samkeppni við slíkt. Það sem hefur varið hana í gegnum tíðina er að það er mjög dýrt að setja upp sölukerfi fyrir sement. Enginn lagði í það fjármuni fyrr en núna fyrir um þremur árum, að sett var upp sú aðstaða í Helguvík sem nú er. Þetta veldur því að stjórnvöld hér þurfa auðvitað að fara mjög vandlega yfir það mál og huga vandlega að því hvað gert verður varðandi Sementsverksmiðjuna. Ég held því miður að það geti orðið býsna erfiður róður fyrir það fyrirtæki í framtíðinni og skal ekki ræða meira um það að sinni.

Ég var svolítið hissa á því hvað hv. formaður Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs var viðkvæmur fyrir þeim orðaskiptum sem urðu milli mín og hv. þm. Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs sem höfðu talað á undan. Hann talaði um að Samfylkingin, eins og hann orðaði það, væri að hýða sjálfa sig í þessu máli eins og ýmsum öðrum. Í ræðu sinni hélt hann því fram að við værum að skrifa upp á einhver muggótt vinnubrögð í þessu máli öllu saman. Svo er ekki. Við höfum tekið afstöðu til málsins eins og það liggur fyrir. Ég veit ekkert um hvort standa hefði mátt betur að undirbúningnum en hér liggur fyrir ákveðin tillaga. Við erum að taka afstöðu til hennar. Hún gengur út á þetta: Viljum við eða viljum við ekki standa að því að ríkið selji sinn hlut í þessari verksmiðju?

Ég tel að það hafi engin rök komið fram sem bendi til að þessi rekstur verði betur tryggður með aðild ríkisins en með þeim eignaraðilum sem um er talað. Ég sé ekki betur en að það sé nokkuð ljóst að að þessu hafi verið staðið með þeim hætti að við getum treyst því að verðið fyrir þessa hluti sé nokkuð eðlilegt, einfaldlega vegna þess að þeir sem stjórna Sveitarfélaginu Skagafirði, stærstu eigendurnir, hafa farið yfir þetta mál og legið yfir því og komist að þeirri niðurstöðu að þetta verð sé viðunandi og þeir hafa fallist á það.

Vildi ríkið ekki standa að þessum kaupum mundi það þar með koma í veg fyrir að sveitarfélagið geti selt hlut sinn. Ég tel að það hafi engin rök komið fram sem geri það að verkum að ég fari að taka þátt í þeim leik að reyna að koma í veg fyrir þessa sölu.

Ég ætla líka að leiðrétta það sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði um Landssímann og afstöðu Samfylkingarinnar til þess máls. Það hefur alltaf legið fyrir að Samfylkingin lagði til að grunnnetið væri skilið frá. Það var enginn afsláttur í því máli frá okkar hendi, svo það sé ljóst.

Ég ætla að gera eina tilraun enn vegna þess að ég geri ráð fyrir því að hv. þm. Steingrímur Sigfússon vilji svara einhverju af því sem ég er hér að segja. Ég vil að hann útskýri það sem hann gerði ekki: Hvaða rekstur er það sem menn hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði telja að ríkið eigi að standa í? Þá er ég ekkert að tala um einhverja stoðþjónustu eða eitthvað slíkt. Ég er að tala um atvinnurekstur þar sem einkaaðilar geta komið að. Hvaða nauðir reka ríkið til að eiga eignarhlut í því að framleiða einangrunarefni? Ég átta mig engan veginn á því. Mér finnst ástæða til að óska eftir því að verða uppýstur betur um það.

Eitt af því sem kom fram í umræðunni, sem hv. þm. Jón Bjarnason sagði ef ég man rétt --- ef ég er að fara með rangt mál þá verð ég leiðréttur með það --- en einhver af þeim sem töluðu hér fyrir hönd Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs báru þetta saman við það að verið væri að verja eignarhlut í sjávarútvegsfyrirtækjum. Þessu er nú aldeilis ekki saman að jafna. Það er æðimikill munur á öryggisleysinu sem upp kemur gagnvart sjávarútvegsfyrirtækjum og fyrirtæki eins og þessu sem ekki er hlaupið með í burtu. Það er enginn kvóti á ullinni eða hvað? Það hefur ekki verið settur á steinullarkvóti enn þann dag í dag og vonandi verður það ekki. En það vita allir að veiðiheimildir ganga kaupum og sölum. Sameiningar fyrirtækja á sjávarútvegssviðinu hafa valdið mönnum ótta víða um land en það er ekki hægt að bera þetta saman.

Eins og ég sagði áðan, og ég ætla að endurtaka það, er ég ekki á móti því að ríkið taki þátt í að byggja upp atvinnurekstur. Það hefur verið gert og mun vonandi gert áfram þegar á þarf að halda. En þegar tækifærin til að draga sig út úr þeim rekstri gefast á að losa þá peninga. Það á að nota þá peninga til áframhaldandi uppbyggingar í atvinnurekstri ef þarf og reyndar er alltaf þörf á því.

Hér var nefndur Grundartangi og uppbyggingin þar. Já, ætli ríkið sé ekki búið að leggja fram og tapa í kringum 4 milljörðum á að leggja fram hlutafé í Járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga. 4 milljarðar bara í hlutafé. Því fyrirtæki hefur síðan verið selt rafmagn á lægsta verði sem nokkurt fyrirtæki á Íslandi hefur fyrr eða síðar fengið í gegnum tíðina. Það var upphaflega 6,5 mill, þegar um það var samið. Ég veit ekki hve hátt það er núna, það er eitthvað hærra. Ríkið lagði þar í mjög mikinn stuðning við atvinnulífið. Það hefur skilað sér með vissum hætti þótt það hafi gerst mörgum árum seinna. Ég verð að segja að ég tel að vegna þess að ríkið lagði í þennan atvinnurekstur opnaðist möguleiki á því að byggja upp álverið sem þarna er, það hefði aldrei komið annars. Ég hef líka þá trú að við værum þá ekki enn búin að fá göng undir Hvalfjörð, hefði þessi iðnaður ekki orðið til í Hvalfirði. Ég er reyndar sannfærður um það. Það hefði ekki tekist á þeim árum og þau væru ekki komin í dag. Arður af framtaki ríkisins skilar sér því oft ekki fyrr en síðar. Ég vil því ekki útiloka neitt hvað varðar þátttöku ríkisins.

Mér finnst menn vera á hlaupum í þessu máli út og suður, eltandi jafnvel Sjálfstfl., sem hefur skipt um skoðun þessa dagana í hverju málinu á fætur öðru. Hann stendur fyrir 20 milljarða ríkisábyrgð á geysilegu áhættufyrirtæki sem er verið að samþykkja hér í þinginu þessa dagana. Á sama tíma hlaupa sjálfstæðismenn í Skagafirði frá samþykktum sínum varðandi sölu á eignarhlut í verksmiðjunni sem hér er til umræðu. Það virðist vera að prinsippin dugi ekki daglangt, menn eru sífellt að skipta um skoðun.

Ég held að hollt sé fyrir menn að taka umræðu um þessa hluti. En ég hef þá bjargföstu skoðun að það sé skynsamlegt, bæði frá hendi sveitarfélagsins og ríkisins, að selja sinn hlut í þessari verksmiðju. Ég hef að vísu ekki aðstöðu til að meta verðið. Það verð ég að láta eignaraðilana sjálfa um að gera. Annars vegar ber fjmrn. ábyrgð á hlut ríkisins og hefur lagt hér fram sínar skoðanir á því en ég legg meira upp úr því að þeir sem um véla fyrir hönd sveitarfélagsins hafa komist að þeirri niðurstöðu að þetta sé eðlilegt verð. Það tel ég tryggingu fyrir því að hér sé ekki verið að offra hlut ríkisins fyrir undirverð. Í gegnum tíðina höfum við séð það vilja brenna við.

Ég vil svo bara segja til viðbótar að mér varð á að ræða dálítið um þessi máli í þeim dúr sem ég skildi ræðumenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, er þeir settu samasemmerki á milli þess að ríkið samþykkti að selja sinn hlut og hvort sveitarfélagið gæti selt sinn. Ég held að það sé reyndar þannig. Ég held að þetta tilboð sem liggur fyrir standi ekki ef ríkið er ekki tilbúið að selja sinn hlut.

Hér hefur hver ræðan eftir aðra verið haldin, þar sem talað hefur verið um að bjarga þurfi fjárhag sveitarfélaganna í landinu til að Sveitarfélagið Skagafjörður geti haldið áfram að eiga hlut í þessari verksmiðju. Þannig hafa ræðurnar verið. Ég verð að segja eins og er að ég á ekki von á að hér labbi menn inn með fjármuni handa sveitarfélögunum sem dugi til að rétta þeirra hlut, þannig að sveitarfélag eins og það sem hér um ræðir getið haft fjármuni af þessu tagi áfram eins og sparisjóð. Því miður. Ég tel það ekki vera þannig.

Ég tel að framtíð þessa fyrirtækis verði ekki síður og að mínu viti betur tryggð eftir þessa sölu en fyrir hana. Fyrir vikið mun ég greiða þessu frv. atkvæði. Ég býst reyndar við því að Samfylkingin muni gera það öll í heilu lagi. Ég veit ekki betur. Það skulu vera mín lokaorð hæstv. forseti.