Steinullarverksmiðja

Mánudaginn 29. apríl 2002, kl. 21:02:06 (8420)

2002-04-29 21:02:06# 127. lþ. 132.16 fundur 663. mál: #A steinullarverksmiðja# (sala á eignarhlut ríkisins) frv. 57/2002, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 127. lþ.

[21:02]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Þá erum við einfaldlega ósammála um þennan þátt málsins og metum hann algjörlega hvor með sínum hætti. Ég hef áhyggjur af hinu gagnstæða. Ég hef áhyggjur af því að ef sá öflugi bakhjarl sem ríkið með eignaraðild sinni hefur verið þessu fyrirtæki fari út --- ríkið skipti nú t.d. heldur betur máli þegar fyrirtækið var endurfjármagnað á sínum tíma --- skapist meiri óvissa um framtíð þess í Skagafirði en ella væri ef ríkið með áframhaldandi eignarhaldi sínu, a.m.k. fyrst um sinn og meðan fyrirtækið er að fóta sig á nýjan leik eftir þær breytingar sem mundu fylgja því að sveitarfélagið færi út, bæti þá ekki þar um betur með því að selja sinn hlut í leiðinni. Menn sæju þá til alla vegana einhver ár og stæðu a.m.k. öðruvísi að þessu. Við getum ekki rætt þetta út frá öðru en því sem eru staðreyndir málsins. Þegar ríkið er eignaraðili af einhverjum ástæðum í svona fyrirætkjum þá er það ein af staðreyndum lífsins og við strikum hana ekki út.

Ég fullyrði að t.d. í nágrannalöndunum mundi ekki hvarfla að mönnum að standa svona að verki. Ég hvet hv. þm. Jóhann Ársælsson t.d. til að kynna sér hvernig staðið er að málum í Noregi þegar ríkið er þar að gera breytingar á eignarhlut í fyrirtækjum sínum sem er býsna mikil. Það er býsna mikið um blandaða eign ríkisins á móti öðrum aðilum í ýmsum meðalstórum og stórum norskum fyrirtækjum. Ef til stendur, eins og núna hjá hægri stjórninni í Noregi, að gera breytingar í þá átt að minnka eignarhlut ríkisins í vissum fyrirtækjum þá er það undantekningarlaust gert á grundvelli langtíma\-áætlunar sem liggur fyrir. Það er gert rólega og reynt er að draga úr eignarhlut ríkisins með almennri sölu. Hvers vegna er þetta gert? Jú, það er gert vegna þess að menn vilja ekki trufla markaðinn. Menn vilja standa yfirvegað og skynsamlega og rólega að þessum hlutum, og það hefur gefist vel, en ekki henda hlut ríkisins í heilu lagi út með þessum hætti. Það eru ekki traustvekjandi eða fagleg eða traust vinnubrögð.