Steinullarverksmiðja

Mánudaginn 29. apríl 2002, kl. 21:04:23 (8421)

2002-04-29 21:04:23# 127. lþ. 132.16 fundur 663. mál: #A steinullarverksmiðja# (sala á eignarhlut ríkisins) frv. 57/2002, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 127. lþ.

[21:04]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þekki ekki til þess sem hv. þm. var að tala um annars staðar. En við erum að tala hér um 30% eignarhlut ríkisins í þessu fyrirtæki og ég held ekki að himinn og jörð farist þó þessi hlutur verði seldur. Ég er hins vegar viss um að sala ríkisins á sínum hlut er forsenda þess að þær breytingar verði sem menn eru að stefna hér að. Ég tel að þær muni verða til heilla. Ég get ekki séð að framtíð þessa fyrirtækis verði með neinum hætti í meiri óvissu en áður og er sannfærður um að verið sé að tryggja framtíð fyrirtækisins betur með þeim aðgerðum sem þarna eru á ferðinni. En menn geta auðvitað spurt: Erum við þá að afhenda einhverjum einokunaraðilum á markaðnum þetta fyrirtæki? Það eru spurningar sem mætti líka fara dálítið yfir.

Við því er það að segja að innflutningur á einangrunarefnum af þessu tagi er frjáls. Hin raunverulega samkeppni við þetta fyrirtæki sem nú er til staðar verður áfram. Menn verða að horfast í augu við þetta. Hins vegar eru aðalkeppinautarnir um innflutninginn orðnir aðaleignaraðilar að þessu fyrirtæki. Það tel ég vera þá tryggingu sem ég var að tala hér um áðan. Aðrir aðilar á markaðnum eru sem betur fer til staðar í samkeppni um innflutning á einangrunarefnunm og við þá verða þeir að keppa sem þarna hafa ákveðið að koma að sem eignaraðilar.

Ég ætla að láta það vera mín lokaorð að það er mín sannfæring að hér sé verið að stíga rétt skref og þess vegna hef ég brugðist við og tekið þátt í þessari umræðu. Mér finnst þetta skynsamlegt. Ég tel að það eigi ekki að bregða fæti fyrir þá sem ráða þessu sveitarfélagi þegar þeir vilja taka þá fjármuni sem þeir eiga í þessu fyrirtæki til annarra nota.