2002-04-30 01:29:33# 127. lþ. 132.26 fundur 668. mál: #A alþjóðleg viðskiptafélög# (bókhald í erlendum gjaldeyri) frv. 79/2002, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 127. lþ.

[25:29]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hef alltaf vitað að hv. þm. Ögmundur Jónasson er fylgjandi alþjóðlegu viðskiptafrelsi. Maður lifandi, við höfum fengið að heyra það í þessum sölum.

Ég hef lengi fylgst með baráttu hv. þm. og virt hann fyrir þá festu sem hann hefur sýnt í henni gegn alþjóðlegum viðskiptafélögum. Ég hef skilið það svo af samskiptum okkar í efh.- og viðskn. að hv. þm. væri í fyrsta lagi á móti alþjóðlegum viðskiptafélögum og þar af leiðandi í eðli sínu líka á móti þessu litla frv. sem hér er til umræðu. Ég gat hins vegar ekki betur heyrt á máli hv. þm. áðan en að hann benti á að þarna væri ein leið til að ýta undir alþjóðleg viðskipti án þess að vera í tilteknu alþjóðlegu sambandi sem ég vil ekki nefna hérna til að æsa ekki upp hv. þm. og ókyrra hans annars friðsama geð. Það var það sem ég kom hingað til að benda á. Ég hélt að hv. þm. væri á móti þessu að öllu leyti og ef svo er finnst mér að hann megi ekki falla í þá gryfju að reyna að notfæra sér ýmsar röksemdir sem tengjast þessu frv. og alþjóðlegum viðskiptafélögum til að styrkja afstöðu sína gegn Evrópusambandinu sem, eins og þingheimur veit, mér finnst að öðru leyti illa grunduð.