Vegáætlun fyrir árin 2000--2004

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 15:29:33 (8652)

2002-05-02 15:29:33# 127. lþ. 135.11 fundur 680. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000--2004# þál. 28/127, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[15:29]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Fulltrúi okkar í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði, hv. þm. Jón Bjarnason, hefur gert grein fyrir nál. 1. minni hluta samgn. og farið þar yfir áherslur okkar en ég vil nefna nokkur atriði til viðbótar. Eins hef ég á fyrri þingum kallað eftir samræmdri samgönguáætlun með það í huga að mikilvægt sé að stilla af áætlun, bæði til lands, sjávar og í lofti, þannig að við lítum á málið heildstætt. Það er mikilvægt þegar farið hefur verið í niðurskurð, og af ýmsum ástæðum að leggja niður t.d. flugvelli, að á sama tíma verði horft á vegarbætur og vegagerð, og til þeirra staða þar sem flugvellir eru lagðir af eða þjónusta er skert.

[15:30]

Það er líka mikilvægt að horfa til þess að miklar breytingar hafa orðið hvað varðar strandsiglingarnar. Það hefur orðið hægfara þróun og þannig er það nú að strandsiglingar hafa nær alfarið lagst af. Allir flutningar eru komnir upp á land og við höfum alls ekki verið undir það búin að taka á móti öllum þessum þungaflutningum yfir á vegakerfið. Ef við hefðum haft þessa hugsun í samræmdri samgönguáætlun eins og á að taka hér upp eða innan þess ráðuneytis sem fer með vegáætlun, hafnaáætlun og flugmálaáætlun --- þetta er allt á einni hendi og í einni nefnd Alþingis --- ef horft hefði verið á þetta meira samræmt í gegnum árin væri hugsganlegt að ekki væri eins fyrir okkur komið og er í dag. Þessi þróun hefur leitt til mikils kostnaðar og mikillar slysahættu sem við höfum öll orðið vitni að.

Herra forseti. Það er eins með þessa vegáætlun og flugmálaáætlun að hún gildir eingöngu til nokkurra mánaða. Það orsakast af tæknilegum ástæðum því verið er að vinna samræmda samgönguáætlun. Hv. þm. Jón Bjarnason fór yfir þau atriði sem lúta að Vegagerðinni. Hún hefur fengið í raun staðfestingu á því að geta haldið úti verkáætlunum sem ná til lengri tíma og er eðlilegt að það sé staðfest hér að hægt sé að bjóða út verk sem ná til lengri tíma en þessi áætlun segir til um, þar til langtímaáætlun kemur.

Ég vil taka undir það sem sagt hefur verið um afgreiðslu á fjárlögum fyrir þetta ár, þ.e. niðurskurð á vegáætlun. Nokkur bjartsýni ríkti hjá hæstv. ríkisstjórn í upphafi þessa kjörtímabils. Það var mikill metnaður í gangi, sem ég hygg að við þingmenn langflestir höfum tekið undir, til að taka virkilega á í vegagerð. En því miður hafa þær vonir margar hverjar brostið. Mikill niðurskurður var á þessu ári og verður á næsta ári þannig að ljóst er að ekki verður hægt að fara í mikilvæga uppbyggingu á vegakerfinu þar sem það er hvað verst, á Vesturlandi, Vestfjörðum og norðausturhorninu, en virkilega þarf að fara í stórátak til þess að koma þeim landshluta í heilsársvegasamband. Ekki verður hægt að uppfylla væntingar fólks á þessum svæðum. Eins er alveg ljóst að búið er að slá jarðgangaáætlunina af og frestur verður á þeim stórframkvæmdum.

Ég vil enn og aftur fordæma þau vinnubrögð að binda jarðgangaáætlun við sölu ríkisfyrirtækja. Það gengur ekki þegar til lengri tíma er litið. Jarðgangaáætlun þarf að standa ein og sér alveg óháð því hvort hægt er að selja ríkisfyrirtæki eða ekki. Ég vil sérstaklega nefna þetta hvað varðar jarðgangagerðina á Austurlandi, þ.e. jarðgöng á milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar. Þau jarðgöng eru nú fullhönnuð. Miðað við það ástand sem nú ríkir á Austurlandi, sem er bæði huglægt og ekki síður hvað varðar verkefni, er mjög mikilvægt að fá jákvæðar framkvæmdir sem fólk veit að munu efla byggð og eru, eins og í þessu tilfelli, mikil samgöngubót. Því tel ég, og hef nefnt það hér áður, hvað varðar útboð á þessum jarðgöngum sem eru núna í einum pakka, þ.e. Siglufjarðargöngin svokölluðu og göng á milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar, að einnig eigi að leita eftir frávikum frá útboðinu, gefa sem sagt verktökum möguleika á því að bjóða í allan pakkann eða í hvor göngin í sínu lagi því það er alveg ljóst að mjög misjafnlega stendur á hjá verktökum og það er ekkert gefið að endilega sé ódýrara að fá þetta í heilum pakka. Ég tel alla vega rétt að það eigi að bjóða út með fráviki og skoða hvort það geti komið betur út.

Ég legg á það áherslu að sem allra fyrst verði farið í jarðgöngin fyrir austan því búið er að fresta vegagerð og í raun hefur sú ákvörðun verið tekin að fara ekki í Vattarnesskriðurnar og dýrar vegaframkvæmdir út Reyðarfjörðinn. Í stað þess ætti að fara í þessi jarðgöng. Bæði hvað varðar öryggi á þjóðveginum og eins ef við horfum til þess að hugsanlega verði reist stóriðja á Reyðarfirði þá tel ég að huga ætti að því að grafa þessi göng (Gripið fram í.) á undan stóriðjunni. Ef af henni verður á að byrja á þessum jarðgöngum því að það styrkir rekstur stóriðjunnar að stækka atvinnusvæðið í kringum hana. Nú er ég alls ekki að tala fyrir þessum stóriðjuframkvæmdum. En þetta er skynsamleg (Gripið fram í.) framkvæmdaröð ef af stóriðju verður. Burt séð frá því að stækka atvinnusvæðið þá styrkir þetta búsetu á Austurlandi. Eins og ég sagði er búið að taka þá ákvörðun að fara frekar í jarðgöng en fyrir Vattarnesskriðurnar og því er þetta algerlega óháð stóriðju. En það ætti að fara í þetta á undan, eins og ég sagði áður.

Hvað varðar þá hugsun að horfa á samhengið á milli flugáætlunar og vegáætlunar er ljóst að eftir að áætlunarflug hefur verið lagt niður eða mjög takmarkað til Vopnafjarðar verður að huga að daglegum snjómokstri yfir vetrartímann. Það verður að koma því á að mokað sé sjö daga vikunnar til þess að gera ungmennum mögulegt að sækja framhaldsskóla. Það hefur sýnt sig að snjómokstur eins og hann er í dag er ekki fullnægjandi. Ég nefni þetta svæði. Til fleiri svæða þarf að huga, en sérstaklega þarf að huga að meiri snjómokstri á Vopnafirði.

Hvað varðar vegagerð og samgöngur þá geta og hafa lélegar samgöngur til ákveðinna staða hamlað atvinnuuppbyggingu. Svo er m.a. í Mjóafirði þar sem verið er að koma upp miklu sjóeldi. Nú er vegurinn frá Héraði og yfir í Mjóafjörð rétt eins og ferðamannavegur. Hann þolir alls ekki þá þungaflutninga sem fylgja fiskeldinu. Því er líklegt að vegasamband við Mjóafjörð sé þessari nýju atvinnugrein til mikils trafala.

Herra forseti. Ég vil aðeins nefna eitt. Yfirskrift IV. kafla vegalaga er þessi:

,,IV. kafli. Almennir vegir, einkavegir, reiðvegir og hjólreiða- og göngustígar.``

Þar kemur fram skilgreining:

,,Reiðvegir eru vegir sem einkum eru ætlaðir umferð ríðandi manna og eru kostaðir af einstaklingum, félagasamtökum, fyrirtækjum eða opinberum aðilum.`` --- Í vegáætlun er gert ráð fyrir reiðvegum. En svo kemur líka: --- ,,Hjólreiða- og göngustígar eru einkum ætlaðir hjólandi og gangandi vegfarendum og eru kostaðir af einstaklingum, félagasamtökum, fyrirtækjum eða opinberum aðilum.``

Þarna er nákvæmlega sama skilgreiningin á hverjir eiga að kosta hjólreiða- og göngustíga. En það er ekki króna í hjólreiða- og göngustíga í vegáætluninni, eingöngu í reiðvegi. Þar sem átt hefur að bæta aðgengi gangandi og hjólandi fólks þá hefur það strandað á því að það séu möguleikar fyrir Vegagerðina að koma að þessum framkvæmdum. Þeirri athugasemd við ég beina til hv. samgn. að hún skoði þetta og taki til rækilegrar athugunar fyrir næstu afgreiðslu sem verður þá í samræmdri samgönguáætlun.

Enn og aftur: Góðar samgöngur, hvort sem þær eru á láði, lofti eða sjó eru forsenda fyrir byggð í landinu. Þær eru undirstaðan alveg sama hvort það er innan sveitar eða á þjóðvegum landsins, a.m.k. ein af mörgum. Því er mjög miður að til þessa niðurskurðar skuli koma enn og aftur. Því tek ég hjartanlega undir það að aldeilis fráleitt er að huga að uppbyggingu hálendisvega og fara þar í stórkostlegar vegabætur, jafnvel með meiri háttar framkvæmdum, áður en búið er að tengja byggðir landsins inn á þjóðvegakerfið.