Umhverfisstofnun

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 19:55:07 (8693)

2002-05-02 19:55:07# 127. lþ. 135.13 fundur 711. mál: #A Umhverfisstofnun# frv. 90/2002, EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[19:55]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Magnúsi Stefánssyni fyrir skýr svör þó að ég sé að vísu ekki að öllu leyti sammála skilgreiningunni á höfuðborgarsvæðinu. Ég tel að það eigi að skilgreina höfuðborgarsvæðið eins vítt og nokkur kostur er. (KPál: Og Suðurnesin með.) Ég tel t.d. mjög eðlilegt að hv. þm. Kristján Pálsson, fyrst hann grípur hér fram í, sé staðsettur á höfuðborgarsvæðinu. Eins og kom fram í máli hv. þm. er höfuðborgarsvæðið eitt atvinnusvæði. Hv. þm. Kristján Pálsson sýnir okkur fram á að hann er á sama atvinnusvæði með því að fara daglega á milli heimilis síns og vinnustaðar í miðborg Reykjavíkur. Ég held þannig að það sé ekki vandamál.

Síðan er auðvitað spurningin, þegar við erum að staðsetja stofnanir eins og þá sem hér er til umræðu, hvort síðra sé að ákveða að höfuðstöðvar stofnunarinnar séu á einhverjum ákveðnum stað. Ég held að við eigum hins vegar að horfa til þess að reyna að dreifa stofnunum sem allra mest um landið þannig að þær séu sem næst starfsvettvangi. Við eigum að reyna að hafa starfsstöðvar sem víðast og tengja þær síðan saman. Það er kominn tími til að hinn opinberi geiri átti sig á því að það hafa orðið töluverðar tæknibreytingar, ekki síður á Íslandi en meðal annarra þjóða. Það er auðvitað kominn tími til þess að hinn opinberi geiri nýti sér það sem allra mest. Ég er alveg sannfærður um að þessi ágæta stofnun getur nýtt sér töluvert þá nýju tækni sem komin er til skjalanna til að tryggja það að starfsfólk stofnunarinnar þurfi ekki allt að vera búsett á einhverjum litlum radíusi frá höfuðstöðvunum.