Umhverfisstofnun

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 20:16:07 (8703)

2002-05-02 20:16:07# 127. lþ. 135.13 fundur 711. mál: #A Umhverfisstofnun# frv. 90/2002, umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[20:16]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að ekki hafi verið byrjað á öfugum enda, það sé eðlilega staðið að þessu máli á allan hátt. Hér var gefið í skyn að ríkisstjórnin hefði ekki marga með sér í þessu máli. Ég held að það sé alls ekki rétt. Þvert á móti eru einmitt mjög margir sem styðja málið á viðkomandi stofnunum. Auðvitað eru undantekningar þar á en það eru afar margir sem styðja þetta, og þar fara forstöðumennirnir fremstir í flokki. Forstöðumennirnir verða fulltrúar starfsfólksins í starfshópnum en að sjálfsögðu hlýtur að teljast eðlilegt að fundað verði með starfsfólkinu til að ræða framtíðaruppbygginguna innan stofnunarinnar. Það er eins og menn gera almennt og ekki bara þegar ný stofnun er sett upp. Ég tel að hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir þurfi ekki að hafa miklar áhyggjur af þessu. Menn munu sameiginlega setja upp glæsilega nýja Umhverfisstofnun eftir að við höfum samþykkt þetta lagafrv.