Ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 22:00:01 (8711)

2002-05-02 22:00:01# 127. lþ. 135.1 fundur 714. mál: #A ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar# frv. 87/2002, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[22:00]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Ég get endurtekið það fyrir þingmanninn að engin tilmæli til ríkisbankanna hafa frá mér komið varðandi þetta mál, alls engin.

Að því er varðar frv. og þær breytingar sem með því eru gerðar á lögunum um ríkisábyrgð langar mig til að vitna í fyrrverandi bandamann hv. þm., fyrrv. hv. þm. Ragnars Arnalds, sem stundum sagði okkur til í lögfræði í þinginu og sagði þá m.a.: ,,Það er ekki lögbrot að breyta lögum.`` Það er það sem við erum að gera. Hér er verið að setja ný lög sem yfirtaka hluta af ríkisábyrgðalögunum og þá förum við eftir þeim nýju lögum í þessu máli.

Hitt er svo annað mál hvort ríkisábyrgðalögin frá 1997, sem sennilega hafa aldrei verið notuð, eru óbreytanleg eða hvort við ættum að skoða þau aðeins. Ég skal ekki fullyrða það. Það má vel vera að ástæða sé til þess. En hvað sem því líður eru þau þess eðlis að ábyrgð samkvæmt þeim verður ekki veitt nema til komi sérstök ný heimild hverju sinni af hálfu Alþingis þar sem tiltekinn er ákveðinn aðili sem ríkisábyrgðar á að njóta. Þannig er það nú og skýrir sig auðvitað sjálft.