2002-05-03 00:15:51# 127. lþ. 135.2 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál. 30/127, Frsm. meiri hluta GuðjG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[24:15]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Guðjón Guðmundsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. meiri hluta iðnn. um till. til þál. um stefnu í byggðamálum fyrir árin 2002--2005. 18 gestir komu á fund nefndarinnar um umfjöllun um málið og eru þeir tilgreindir á þingskjalinu. Þar eru einnig tilgreindir þeir 30 aðilar sem sendu nefndinni umsagnir og gögn.

Meiri hluti nefndarinnar mælir með samþykkt hinna almennu markmiða þáltill. og telur að í þeim felist mikil sóknarfæri til byggðarþróunar á landinu. Meiri hlutinn telur að við umræður um byggðaáætlun sé mikilvægt að hafa í huga skynsamlega þróun byggðar á landinu öllu, jafnt höfuðborgarsvæði sem landsbyggð. Höfuðborg þrífst ekki án landsbyggðar og landsbyggðin þarf á höfuðborg að halda.

Meiri hlutinn tekur undir þau rök fyrir þörf á byggðastefnu sem fram koma í greinargerð og styður þær hugmyndir til aðgerða sem fylgja tillögunni. Sjálf tillögugreinin er í fimm stafliðum um almenn markmið byggðaáætlunar. Undir þau tekur meiri hlutinn. Í greinargerð er síðan kynnt framkvæmdaáætlun ráðuneytisins í 22 töluliðum. Meiri hlutinn telur að í þeim felist mikil sóknarfæri fyrir landsbyggðina alla en vekur jafnframt athygli á því að þar er um að ræða framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar og stofnana hennar. Meiri hlutinn hvetur til þess að þeirri áætlun verði fylgt fast eftir en mælir jafnframt með að við þessa framkvæmdaáætlun verði bætt 11 atriðum sem gerð er grein fyrir í nál. Ég ætla að geta þessara atriða í stórum dráttum.

Í fyrsta lagi telur meiri hlutinn eðlilegt að skilgreina nokkra byggðakjarna, hlutverk þeirra og stöðu í þjóðfélaginu. Í ljósi byggðaþróunar þykir nefndinni rétt að taka mið af þeirri skiptingu að í fyrsta lagi verði um að ræða byggðakjarna. Meiri hlutinn tekur undir hlutverk Akureyrar sem mótvægis við höfuðborgarsvæðið. Meiri hlutinn telur jafnframt að byggðakjarnar skuli byggðir upp á Ísafirði og á Miðausturlandi. Með því móti væru sköpuð boðleg búsetuskilyrði fyrir stærstu landshlutana. Í hverjum byggðakjarna er nauðsynlegt að styðjast við sérkenni hvers staðar og byggja upp innviði á þeim grunni. Í öðru lagi er gert ráð fyrir vaxtarsvæðum þar sem meiri hlutinn telur rétt að skilgreina auk meginkjarna og byggðakjarna vaxtarsvæði þar sem hið opinbera tryggir grunnþjónustu. Í þriðja lagi er rætt um jaðarsvæði, og fjallað sérstaklega um búsetuskilyrði á jaðarsvæðum, þ.e. svæðum sem falla utan byggðakjarna og vaxtarsvæða.

Það kom fram hjá fulltrúum Sambands ísl. sveitarfélaga að þessi skipting hafi ekki átt sér stað, skipting í byggðakjarna, vaxtarsvæði og jaðarsvæði. Meiri hlutinn telur mikilvægt að þeirri vinnu verði lokið fyrir 1. jan. 2003 í samstarfi ríkis og sveitarfélaga. Vaxtarsvæði gætu hugsanlega verið staðir eins og Snæfellsnes, suðurhluti Vestfjarða, Skagafjörður, Húsavíkursvæðið, Vestmannaeyjar, Hornafjarðarsvæðið, e.t.v. Suðurnes og kannski fleiri svæði. En við leggjum áherslu á að ríki og sveitarfélög komi sér saman um þessa skiptingu og það fyrir næstu áramót.

Í öðru lagi tekur meiri hlutinn undir skoðanir Sambands ísl. sveitarfélaga, Háskólans á Akureyri og fleiri þess efnis að stækkun sveitarfélaga sé árangursrík byggðaaðgerð. Með því móti verða sveitarfélögin betur í stakk búin til að taka að sér verkefni og veita þá þjónustu sem íbúar kalla eftir. Í umsögn Sambands ísl. sveitarfélaga er tekið undir þessa hugsun. Meiri hlutinn telur rétt að fylgjast með umfjöllun aðalfundar sambandsins um mál þetta og að Alþingi bregðist við í samræmi við þær niðurstöður. Við teljum eðlilegra að frumkvæði að þessum breytingum í sveitarstjórnarmálum komi frá sveitarstjórnunum sjálfum en ekki Alþingi.

Í þriðja lagi tekur meiri hlutinn undir mikilvægi góðra samgangna í byggðastefnu og leggur áherslu á gildi jarðganga milli helstu byggðakjarna. Jafnframt telur meiri hlutinn að sérstaklega þurfi að gefa gaum samgöngum við Vestmannaeyjar og bendir á fjóra kosti sem skoða þurfi strax í því sambandi.

Í fjórða lagi telur meiri hlutinn tillöguna fela í sér mörg tækifæri til sóknar í íslensku atvinnulífi um land allt en vill bæta við og leggja áherslu á nokkra þætti, svo sem að efla rannsóknir og nýsköpun sem tengist auðlindum þjóðarinnar í landbúnaði og sjávarútvegi í því skyni að efla verðmætasköpun. Benda má í því sambandi á árangur, m.a. á Siglufirði við vinnslu á rækjuskel, lyfjagerð úr jurtum og ámóta þætti sem áunnist hafa á síðustu árum. Má þar nefna t.d. starfsemi Saga Medica sem framleiðir lyf úr ætihvönn. Sú starfsemi fer einmitt fram á landsbyggðinni, þ.e. á Hvanneyri og í Búðardal.

Meiri hlutinn telur veruleg sóknarfæri geta fólgist í þeirri vakningu sem er meðal bænda um að nýta smávirkjanir til raforkuframleiðslu og mælir með því að Orkustofnun verði falið að hafa umsjón með úttekt og rennslismælingum vegna smávirkjana í samstarfi við atvinnuþróunarfélög einstakra svæða. Meiri hlutinn fagnar skýrslu iðnrn. um þörf fyrir þrífösun rafmagns í landinu og hvetur til að framkvæmdir eftir þeirri áætlun hefjist þegar á þessu ári en ástand rafmagnsmála í sumum sveitum hindrar alla sókn í atvinnulífi.

Meiri hlutinn tekur undir tillögu um uppbyggingu ferðaþjónustu í dreifbýli en telur jafnframt að leggja þurfi áherslu á að lengja ferðamannatímabilið. Háannatími ferðaþjónustunnar nær aðeins yfir um þrjá mánuði ársins en aðra mánuði nýtist fjárfesting í greininni illa. Þá mælir meiri hlutinn með því að í stefnumótun í ferðaþjónustu verði tekið til alvarlegrar skoðunar að endurskoða álögur hins opinbera á flugfargjöld og aðra þætti er beinlínis snerta ferðaþjónustu þannig að fjölga megi ferðamönnum yfir vetrarmánuðina. Slík aukning ætti að nýtast vel ferðaþjónustunni á landsbyggðinni. Meiri hlutinn mælir með því að ríkisstjórnin geri áætlun um flutning ríkisstofnana út á landsbyggðina. Með bættum samgöngum og fjarskiptum hafa aðstæður breyst verulega varðandi aðgengi fólks að stofnunum. Eðlilegt er að stofnanir sem hafa starfsgrundvöll sinn á landsbyggðinni séu staðsettar þar. Hefur t.d. ein slík stofnun, Byggðastofnun, verið flutt að fullu frá Reykjavík og út á land sem er eðlileg tilfærsla þar sem starfssvæði þeirrar stofnunar er allt landið nema höfuðborgarsvæðið.

Þá er einnig eðlilegt að kanna vel hvort hluta af starfsemi einstakra stofnana megi ekki koma fyrir í byggðakjörnum úti á landi. Benda má á fyrirmynd að slíku þar sem rannsóknaraðilar nokkurra stofnana mynda sameiginlega starfsstöð á Ísafirði. Reynslan af slíkum flutningi og samstarfi hefur verið góð. Halldór Halldórsson, bæjarstjóri á Ísafirði, lagði áherslu á það í viðræðum við iðnn. að þessi starfsemi verði efld og aukin en áhersla er lögð á það í byggðaáætlun fyrir Vestfirði. Meiri hlutinn telur að slík rannsóknasetur í samstarfi nokkurra stofnana megi vel staðsetja á nokkrum byggðasvæðum og í mörgum tilfellum færa starfið nær vettvangi.

Þá tekur meiri hlutinn afdráttarlaust undir þau sjónarmið að nýjar stofnanir ríkisins skuli staðsettar á landsbyggðinni sem og sú aukning sem kann að verða í ríkisstofnunum.

Talið er að fiskeldi muni eflast um heim allan í náinni framtíð. Þannig verja Norðmenn verulegum fjárhæðum til þorskeldis auk hins mikla laxeldis. Sérfræðingar telja að eldi sjávarfisks sé að mörgu leyti hentugra við strendur Íslands en víða annars staðar. Því er mikilvægt að Íslendingar verði ekki eftirbátar annarra á sviði fiskeldis. Nokkur reynsla er fengin af því hérlendis, samanber árangur Stofnfisks í kynbótum fisks og Fiskeldis Eyjafjarðar við klak og eldi á lúðu. Hafrannsóknastofnun hefur náð jákvæðum árangri í klaki og eldi þorsks. Áframeldi við Eyjafjörð og Ísafjarðardjúp lofar góðu um framhaldið og það er talið að með skipulegum aðgerðum geti Íslendingar framleitt með klaki og eldi 30--40 þús. tonn af þorski til vinnslu, að verðmæti 14--16 milljarða kr. á ári. Meiri hlutinn telur að markviss uppbygging þorskeldis hérlendis kæmi sér vel fyrir efnahagslíf þjóðarinnar og nýttist ekki síst sjávarbyggðum.

Meiri hlutinn mælir með því að næsta haust verði teknar upp viðræður við innlenda og erlenda aðila um stofnun hlutafélags um klak- og kynbótastöð fyrir þorskeldi, og enn fremur verði stefnt að aukinni þorskseiðaframleiðslu hjá Hafrannsóknastofnuninni og að stofnunin skuli hið fyrsta hefja rannsóknir á aðstæðum í fjörðum og víkum fyrir sjókvíaeldi.

Í fimmta lagi hvetur meiri hluti iðnn. til stofnunar átakssjóðs í menningartengdri ferðaþjónustu samkvæmt hugmyndum í skýrslu samgrh. og einnig að komið verði upp ferðasjóði íþróttafélaga til að jafna ferðakostnað íþróttafélaga í Íslandsmótum og bikarkeppnum en þátttaka íþróttafélaga af landsbyggðinni í þessum mótum er til muna kostnaðarsamari en sambærilegra félaga á höfuðborgarsvæðinu. Dæmi eru um að félög treysti sér ekki til þátttöku vegna mikils ferðakostnaðar. Það er fátt sem eflir jafnmikið samkennd innan sveitarfélaga sem góður árangur íþróttafélags þeirra. Dæmi um það er knattspyrnan á Akranesi og í Vestmannaeyjum, handboltinn á Akureyri, körfuboltinn á Suðurnesjum og Vesturlandi, blakið í Neskaupstað, sundið á Akranesi o.fl.

Meiri hlutinn tekur undir þá áherslu sem í byggðaáætlun er lögð á eflingu náms með fjarskipta- og upplýsingatækni, svo og endurgreiðslu námslána, en leggur einnig áherslu á að stutt verði við bakið á þeim símenntunarmiðstöðvum sem starfandi eru. Reynsla af slíkum stöðvum er afar jákvæð og hefur skapað aukna festu í þeim byggðarlögum þar sem þær eru starfræktar. Þörf fólks fyrir símenntun er orðin grunnþáttur í menntastefnu og um leið byggðastefnu.

Í sjötta lagi mælir meiri hlutinn með því að annað hvert ár verði haldið byggðaþing fyrir tilstuðlan iðnrh. Á byggðaþingi kynni einstök landsvæði stöðu sína og áætlanir í byggðamálum. Á grundvelli þeirra upplýsinga leggi svo iðnrh. tillögu til þál. fyrir Alþingi. Byggðaþing verði haldið í tengslum við ársfund Byggðastofnunar.

Nefndin leggur mikla áherslu á að styrkja varanlega rekstur atvinnuþróunarfélaganna ásamt eignarhaldsfélögum og atvinnuþróunarsjóðum en atvinnuþróunarstarfið er eitthvað það jákvæðasta sem gert hefur verið í byggðamálum á undanförnum árum, þ.e. hin stórauknu framlög til atvinnuþróunarfélaganna á landsbyggðinni, félaga sem eru á forræði heimamanna á hverjum stað. Áður var þetta allt á vettvangi Byggðastofnunar sem þá var staðsett í Reykjavík. Þessi félög hafa víða gert mjög góða hluti og við leggjum áherslu á að áfram verði fullur kraftur í þeirri starfsemi.

Meiri hluti iðnn. lítur svo á að Nýsköpunarmiðstöð á Akureyri sé frekari útfærsla á starfsemi Impru á vegum Iðntæknistofnunar en hins vegar séu með stofnun hennar ekki gerðar neinar grundvallarbreytingar á starfsemi Byggðastofnunar sem nú hefur að fullu verið flutt til Sauðárkróks. Á það er lögð mikil áhersla að Byggðastofnun haldi verkefnum sínum. Stofnunin hefur komið sér fyrir á nýjum stað með nýjum forstjóra, nýju starfsliði og nýju húsnæði og það er mikilvægt að núna, þegar stofnunin er komin á fulla ferð eftir þá flutninga, verði ekki reyttar af henni fjaðrirnar. Það er mikilvægt að náið og gott samstarf verði milli Nýsköpunarmiðstöðvar og Byggðastofnunar, ekki síst vegna tengsla Byggðastofnunar við atvinnuþróunarfélögin en eins og ég nefndi eru stóraukin framlög Byggðastofnunar til þeirra félaga eitthvað það besta sem gert hefur verið í byggðamálum á undanförnum árum. Meiri hlutinn leggur til að Byggðastofnun tilnefni einn fulltrúa í stjórn Nýsköpunarmiðstöðvarinnar til að tryggja tengsl þessara stofnana.

Í áttunda lagi mælir meiri hlutinn með því að Byggðastofnun verði falið að meta gildi byggðaáætlunar, setja viðmið og mæla árangur af framkvæmd hennar. Sú könnun verði kynnt á byggðaþingi. Þetta er með sama hætti og var við síðustu byggðaáætlun. Byggðastofnun gerði nýlega úttekt á því hvernig þar tókst til og hún sýndi að mjög margt af því sem þar var lagt upp með gekk ágætlega eftir.

Í níunda lagi tekur meiri hlutinn undir tillögu nr. 2 í III. kafla greinargerðar með tillögunni um mikilvægi þess að efla samstarf sjóða ríkisins sem tengjast nýsköpun og atvinnugreinum. Meiri hlutinn telur jafnframt að enn skynsamlegra gæti verið að sameina umræddar stofnanir að mestu leyti í eina stofnun og hvetur til að skoðun á kostum þess verði hafin þegar í stað og lokið fyrir næstu áramót og niðurstöður þá birtar. Með sameiningu næst betri sýn yfir atvinnulífið og byggðir og skilvirkni eykst til muna.

Í tíunda lagi leggur meiri hlutinn áherslu á skynsamlega nýtingu vistvænnar orku, m.a. til stóriðju, og bendir á jákvæð áhrif stóriðju á Grundartanga og í Straumsvík fyrir byggðirnar umhverfis sem og efnahagslíf þjóðarinnar.

Í ellefta og síðasta lagi mælir meiri hlutinn svo með því að iðnrh. hefji undirbúning þess að koma á fót Hönnunarmiðstöð Íslands. Hönnun er eitt fyrsta skref framleiðslu og yrði slík miðstöð hvatning fyrir hönnuði og framleiðendur um land allt.

Herra forseti. Ég hef gert grein fyrir þeim atriðum sem meiri hluti iðnn. mælir með að bætt verði við framkvæmdaáætlun byggðaáætlunar.

Meiri hlutinn leggur til að tillagan verði samþykkt. Undir þetta nál. rita nöfn sín hv. þm. Hjálmar Árnason, Guðjón Guðmundsson, Kristján Pálsson, Helga Guðrún Jónasdóttir, Kjartan Ólafsson og Ármann Höskuldsson.