2002-05-03 01:47:39# 127. lþ. 135.2 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál. 30/127, KVM
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[25:47]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Hér ræðum við ein mikilvægastu mál samfélagsins, byggðamál, till. til þál. um stefnu í byggðamálum. Hún er ekki löng. Hún er í fáeinum liðum sem eru einkenndir með a, b, c, d og e.

Liður a fjallar um draga úr mismun á lífskjörum og afkomumöguleikum fólks milli byggðarlaga í landinu og skapa íbúum á landsbyggðinni sem hagstæðust búsetuskilyrði.

Þessi þáltill. á að gilda fyrir árin 2002--2005. Nú er komið fram í maí, fimmta mánuð ársins 2002, og hér hefur komið fram í máli manna að fjárlög síðasta árs hafa ekki náð til þessa árs hvað varðar þessa þáltill. og það sem ætlast er til að hún uppfylli.

Varðandi málflutning hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar þegar hann talaði um sameiningu sjóða í landinu, Ferðamálasjóðs, Byggðastofnunar, Nýsköpunarsjóðs o.fl. þá má velta fyrir sér hvort í því sé eingöngu fólginn styrkur að sameina slíka sjóði. Spyrja má: Getur ekki verið betra að efla þessa sjóði eins og þeir eru hver fyrir sig og gefa þeim ákveðnari og skýrari hlutverk þannig að Byggðastofnun sé t.d. ekki að vasast inn á svið Ferðamálasjóðs og öfugt?

Við höfum séð sameiningu sjóða eiga sér stað í banka sem heitir Fjárfestingarbanki atvinnulífsins. Það var sameining Fiskveiðasjóðs, Iðnlánasjóðs og þróunarsjóðs iðnaðarins, Iðnþróunarsjóðs. Við getum velt því fyrir okkur og spurt: Hefur Fjárfestingarbanki atvinnulífsins tekið við af þessum sjóðum eða hefur hann fengið nýtt hlutverk? Ég hef heyrt fólk kvarta undan því að Fjárfestingarbankinn láni aðeins til mjög dýrra framkvæmda og hafi ekki lánað til lítilla fyrirtækja. Erum við þá að tala um Fjárfestingarbanka atvinnulífsins 2, ef svo má að orði komast? Er nýr fjárfestingarbanki hugsun hv. þm. eða nýr landsbanki? Erum við að tala um það? Bankarnir hafa ekki staðið undir skyldum sínum. Menn telja að Landsbankinn láni ekki og taki ekki nógu mikinn þátt í að lána til atvinnulífs úti á landi, ekki Búnaðarbankinn heldur og því síður Íslandsbanki. Einhverjar verða varnirnar að vera og þá fara menna að tala um Byggðastofnun. Hún gegnir svo sannarlega mikilvægu hlutverk og hefur komið mörgu góðu til leiðar, enda er yfirleitt áhugasamt fólk í stjórn hennar. Byggðastofnun hefur staðið fyrir því í samræmi við síðustu byggðaáætlun að gera svokallaða SVÓT-greiningu á landsbyggðinni, þ.e. um styrk, veikleika, ógnir og tækifæri hvers staðar fyrir sig, sem var ágætt að var gert. Það er vinna sem við þurfum alltaf að skoða og bæta o.s.frv. því líf byggðarinnar breytist eftir tímanum.

Eins má spyrja að þessu: Hver mundi vera styrkur slíks sjóðs? Mundi hann ekki búa yfir einhverjum veikleika? Er kannski betra að fleiri aðilar komi að því að lána í starfsemi úti á landi? Þetta var það sem ég vildi tala um í sambandi við sameiningu sjóða. Ég tel að menn verði að átta sig á því að ekki er endilega víst að best sé að hafa bara einn stóran sjóð. Það þýðir ekkert endilega að hann skili því besta. Það getur líka kostað ákveðna fjarlægð við athafnalífið, við einstakar greinar þegar við setjum þetta allt í einn stóran sjóð. Auk þess yrði þá bara ein sjóðstjórn og ef hún yrði pólitískt skipuð gæti ýmis hætta verið á ferðum eins og er í hinu mannlega lífi. Þegar deilt er út peningum, styrkjum og lánum þykir mörgum að þeir hafi ekki fengið að njóta sín á réttan hátt.

Þessi þáltill. á að gilda fyrir árin 2002--2005 og á að samþykkjast í maí, væntanlega á morgun, herra forseti. Þessi tillaga minnir á aðra þáltill. um stefnu í byggðamálum fyrir árin 1999--2001. Hún var líka samþykkt í maí árið 1999. Það má eiginlega spyrja í þessu sambandi, herra forseti: Hvernig stendur á því að þessar tillögur koma ekki fyrr fram? Er þetta sýndarmennska? Af hverju er t.d. ekki unnið þannig að við samþykktum þáltill. fyrir þetta ár og næstu tvö árin síðasta haust? Það sama hefði átt að gera varðandi þáltill. sem ég nefndi áðan fyrir 1999--2001.

Þessar þálitill. eru að mörgu leyti hliðstæðar. Sú sem nú kemur fram er styttri. Að mörgu leyti er almennara orðalag í henni og ekki eru eins áþreifanlegir hlutir í sjálfri þáltill. En með þessari þáltill. sem hæstv. iðnrh. lagði hér fram eru athugasemdir og líka tillögur um aðgerðir. Ég vænti þess, herra forseti, að þegar hið háa Alþingi samþykkir þessa till. til þál. um stefnu í byggðamálum fyrir 2002--2005, þessa a-, b-, c-, d- og e-liði, þá sé meiri hluti Alþingis líka að gangast undir það, þ.e. ráðherrar Sjálfstfl. og Framsfl. og þá felist í því vilji og þess muni sjá stað á næstu fjárlögum að tekið verði fullt tillit til tillagna hæstv. iðnrh., t.d. þar sem talað er um endurskipulagningu atvinnuþróunar á landsbyggðinni, nýsköpunarmiðstöð á Akureyri. Það er nú farið að byrja eitthvað á því. Hér stendur um kostnað, með leyfi forseta:

,,Lagt er til að auk þeirra fjárveitinga sem nýsköpunarmiðstöð verða ætlaðar á fjárlögum til almenns rekstrar leggi ríkissjóður 1.000 millj. kr. til nýsköpunarverkefna á landsbyggðinni á árunum 2002--2005.``

Hér er verið að tala um 1 milljarð kr. fyrir árin 2002--2005. Því leyfi ég mér að segja, herra forseti, að það sé í raun fyrir árin 2003--2005. Þá erum við að tala um 333 millj. kr. hvert ár. Munum við sjá í næstu fjárlögum lið þar sem stendur: Nýsköpunarverkefni 333 millj. kr.? Mun það standa í fjárlögunum? Ef það stendur ekki, þá spyr ég: Hvað mun þá standa þar? Þetta hljóta ráðherrar ríkisstjórnarinnar, hæstv. fjmrh., hæstv. forsrh. og allir ráðherrarnir að vera búnir að undirgangast því þetta var náttúrlega lagt fyrir á ríkisstjórnarfundi. Ef svo er ekki þá er þetta bara grín. (Iðnrh.: Þetta er klárt.) ,,Þetta er klárt``, segir hæstv. iðnrh. og gleðst ég yfir því.

Síðar í þessari þáltill. er talað um athugun á búsetuskilyrðum fólks og að undirbúningskostnaður geti orðið allt að 10 millj. kr. Mér finnst hér vera nokkuð vel í lagt. Eins er með athugun á starfsskilyrðum atvinnuveganna því þar getur undirbúningskostnaður verið 10 millj. Hér liggja greinilega gífurlega viðamikil rannsóknarverkefni fyrir. Síðar er talað um að byggðaáætlun fyrir Eyjafjörð eigi að kosta 20 millj. Hér eru komnar 40 millj. í sambandi við athuganir og rannsóknir.

Mætur hópur manna vann mikið starf í verkefnisstjórn við gerð þessarar till. til þál. Þar var gott fólk.

Herra forseti. Ég er á þeirri skoðun að þegar byggðaáætlun er gerð, mótuð og sköpuð þurfi fólkið sem býr í byggðunum að koma með hugmyndir sínar um hvaða framtíðarmöguleika hver byggð búi yfir. Við skulum taka Vesturbyggð sem dæmi. Hvaða möguleikar eru í Vesturbyggð?

[26:00]

Hvað mundu þeir segja sem búa í Vesturbyggð um möguleika sinnar byggðar? Geta þeir sagt betur til um það en t.d. prófessor í viðskiptafræði við Háskóla Íslands? Ég held að nálægð þeirra við náttúruna sem þar er, og möguleikana, eigi að gefa þeim a.m.k. jafnmikla möguleika til þess.

Hvernig er þetta með Tálknafjörðinn? Ég spyr. Hafa íbúar í Tálknafirði ekki meiri möguleika til að sjá hver tækifæri þeirrar byggðar eru? Eiga þau ekki að leggja fram hugmyndir og tillögur um hvernig þau sjái Tálknafjörð vaxa, eða kannski standa í stað í mannfjölda, en að atvinnuhættir og búsetuskilyrði verði samt betri?

Ég er á þeirri skoðun, herra forseti, að þetta sé það sem þurfi að horfa meira til við gerð byggðaáætlana. Ég er viss um að það muni verða gert í framtíðinni enda hefur tónninn verið gefinn í því efni þar sem Vestfirðingar hafa komið fram með tillögu í byggðamálum, samanber þá sem þau í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar stóðu að. Hefur bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar verið nefndur í því sambandi en ég leyfi mér að nefna fleiri bæjarfulltrúa, t.d. Bryndísi Friðgeirsdóttur, sem hafa tekið þátt í því starfi. Það var ekki starf eins meiri hluta. Þetta var samstarf fólks sem býr á Vestfjörðum. Atvinnuþróunarfélagið kom að þessu og fleiri aðilar sem er náttúrlega hið besta mál. Þannig á að vinna þessa hluti.

Það er náttúrlega mjög gleðilegt að þessi tillaga hæstv. iðnrh. sé líka kveikjan að þessu. Auðvitað eiga svona tillögur að vera kveikja að því að fólkið taki við sér og sjái að það eigi líka að vinna í sínum málum og skoða möguleikana í byggðinni. Tökum Vesturbyggð aftur sem dæmi. Það eru vaskir og góðir drengir, t.d. á Bíldudal, sem hafa algerlega á eigin kostnað lagt vísi að kræklingarækt. Sú starfsemi gefur mjög góð fyrirheit. Og hvernig eigum við að koma að því? Ég tel, herra forseti, að hér sé um nýsköpunarverkefni að ræða sem sé fullkomlega réttlætanlegt að hið opinbera veiti stuðning og styrki, einkum og sér í lagi með tilliti til þess hve vaxandi kræklingarækt er og hvað þessi skel er orðin dýrmæt og vinsæl og mikið etin. Þetta nefni ég sem dæmi, herra forseti.

Í nál. frá meiri hluta iðnn. um þessa þáltill. er líka ítarefni við tillögu hæstv. iðnrh. Þar er komið víða við og fjallað um hvað hægt er að gera en þó skortir á í nál. meiri hluta iðnn. sem sér þó stað í tillögum hæstv. ráðherra sem nefnir a.m.k. ákveðnar fjárhæðir. Þar er eitthvert kjöt á beinunum ef svo má að orði komast eins og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hefur talað um að þurfi að vera. Auðvitað verður að samþykkja þessa þáltill. þó að ég og minn flokkur munum sitja hjá í þessu máli af ástæðu sem hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir hefur nefnt. Það sem vantar í nál. meiri hlutans er hvaða fjárhæðir eigi að setja í hlutina. Hvað á t.d. að setja í þorskeldið? ,,Meiri hlutinn telur að markviss uppbygging þorskeldis hérlendis kæmi sér vel fyrir efnahagslíf þjóðarinnar og nýttist ekki síst sjávarbyggðum.`` Þetta er, herra forseti, eitt mesta þjóðþrifamál í mínum huga, og í þessu sambandi þar sem nál. meiri hlutans nefnir þorskeldi á svona jákvæðan hátt, herra forseti, leyfi ég mér að þakka fyrir að það sé gert af þeirri ástæðu að fyrir þingið var lögð till. til þál. um rannsóknir á þorskeldi fyrir tveimur árum. Í raun og veru er sú þáltill. komin inn í þetta meirihlutaálit iðnn. Þetta er till. til þál. um rannsóknir á þorskeldi sem undirritaður flutti ásamt Kristjáni L. Möller, Gísla S. Einarssyni, Svanfríði Jónasdóttur, Össuri Skarphéðinssyni og Einari Má Sigurðarsyni. Sú þáltill. hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela sjávarútvegsráðherra að hlutast til um að skipulegar rannsóknir á þorskeldi frá klaki til slátrunar verði hafnar, svo og að fjarða- og kvíaeldi á þorski verði eflt og stutt, með það að markmiði að Íslendingar geti framleitt eldisþorsk til útflutnings innan fárra ára.``

Ég ætla ekki að lesa greinargerðina, herra forseti, en þessi þáltill. er tekin og sett inn í nál. meiri hluta iðnn. núna. Það hefði verið mjög gaman að sjá frá hæstv. iðnrh. og þeim sem unnu þær tillögur fyrir hana sem lagðar voru fyrir þingið talað um ákveðnar fjárhæðir. Hér hefði verið gaman að sjá að það ætti að setja 200 millj. í þetta verkefni, að við þyrðum að setja fjármuni í þessa rannsókn og í kræklingarækt, og trúa á það. Það er það sem við þurfum að gera. Hér trúa menn á Íslenska erfðagreiningu og ætla að ábyrgjast víxil upp á 20 milljarða. Samanborið við það hefði ég talið það lítið tiltökumál að ábyrgjast lán eða leggja bara hreinlega fram fjármagn í gegnum Nýsköpunarsjóð, Byggðastofnun eða einhvern annan sjóð eða banka beint í þessa sprota með markvissum hætti.

Það er talað um ferðamál í þessum tillögum og það er mjög gott. Ferðaþjónustan er náttúrlega næststærsti atvinnuvegur á Íslandi, skapar næstmestu gjaldeyristekjurnar og það er aldeilis fínt að styðja við það.

Mig langar til að minna á, herra forseti, að þingmenn Samfylkingarinnar eru búnir að leggja fram ótal góðar markvissar tillögur í byggðamálum þar sem tekið er á málunum með beinum hætti og ég er á þeirri skoðun að ýmislegt af þeim tillögum hafi komið inn í till. til þál. um stefnu í byggðamálum. Það hefur verið mjög ánægjulegt að fylgjast með umræðunni í byggðamálum en mig langar til, herra forseti, að lokum í máli mínu að minnast á það sem talað var um í tillögu hæstv. iðnrh., að draga úr mismun á lífskjörum og afkomumöguleikum fólks milli byggðarlaga. Eins kveður við svipaðan tón í þáltill. hæstv. forsrh. sem lagði fram hina fyrri þáltill. árið 1999. Þar var líka vikið að þessum aðstöðumun og tekjumun. ,,Jöfnun lífskjara`` heitir beinlínis einn kaflinn og ,,bætt samkeppnisstaða``. Í báðum þessum þáltill. kemur því fram viðurkenning ríkisstjórnarinnar á því að lífskjör séu mismunandi. Það verður að fara að vinna með markvissari hætti í því að bæta þessi mál. Ég vil að lokum, herra forseti, benda á þáltill. hv. þm. Kristjáns L. Möllers, Margrétar Frímannsdóttur, Karls V. Matthíassonar, Gísla Einarssonar, Sigríðar Jóhannesdóttur, Gunnlaugs Stefánssonar, Jóhanns Ársælssonar og Lúðvíks Bergvinssonar. Þar er talað um hærri persónuafslátt og lægri tekjuskatt á landsbyggðinni --- þetta nefndi hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sem dæmi um aðgerðir í byggðamálum í Noregi --- álagningu hátekjuskatts og ónýttan persónuafslátt barna. Vikið er að framhaldsskólakostnaði, vinnu fjarri heimili þar sem tekið er tillit til þess ef menn þurfa að fara um langan veg, tveimur heimilum vegna vinnu og afslætti af námslánum. Þetta var nefnt í síðustu ræðu. Hærri barnabætur, eignarskattur og skattar á flug --- verið er að tala um að þeir séu of miklir hér --- virðisaukaskatturinn og tryggingagjaldið, það hefur mikið verið rætt um það líka, og svona má lengi telja. Að lokum minni ég á stofnstyrkjatillögu, þáltill. frá Svanfríði Jónasdóttur o.fl., í þessu sambandi.

Herra forseti. Hin almennt orðaða tillaga hæstv. iðnrh. er góð yfirlýsing en hún er ekki annað en það. Tillögur og annað sem fylgja eru það bitastæða. Ég vona að það sé a.m.k. réttur skilningur að tillögum um framkvæmdina verði fylgt eftir og fjármagnið verði sett í þessa hluti.