2002-05-03 02:34:34# 127. lþ. 135.2 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál. 30/127, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[26:34]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég get ekki annað en tekið undir með hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni. Það er síður en svo skeytt viðbótum við hina upphaflegu byggðaáætlun með nægilega markvissum hætti. Af því að hv. þm. er tilheyrandi stjórnarliðinu og það eru ekki aðrir í þessum sal til andsvara vil ég þó varpa til hans nokkrum spurningum.

Ég er eins og hv. þm. nokkuð undrandi á því að þegar hin upphaflega tillaga kom fram var gert ráð fyrir því að menn skytu stoðum undir Akureyri sem ákveðna miðstöð og ég er sammála því. Hins vegar var gert ráð fyrir því að ekki yrði um nokkra fólksfjölgun að ræða á Vestfjörðum. Hv. þm. og ýmsir aðrir voru ákaflega óánægðir með það. Ég tók undir með þeim í þeirri gagnrýni. Síðan er búið að bæta örlitlu við í meirihlutaálitið. Þar er m.a. sagt að það eigi að byggja upp byggðakjarna víðar, m.a. á Ísafirði. Mig langar að spyrja hv. þm.: Er hann þeirrar skoðunar að einhverjar haldbærar tillögur til þess að treysta Ísafjörð séu í þessum textum sem hér liggja fyrir?

Mig langar líka að spyrja hv. þm.: Þegar hann les þetta yfir, er hann ekki þeirrar skoðunar að þetta meirihlutaálit sé ákaflega undarlegur samsetningur, þar sem má jafnvel sjá óskalista einstakra þingmanna? Þegar maður fer yfir þetta eru þetta aðallega hugmyndir sem hafa skotið upp kolli í þingmannamálum ágætra þingmanna Framsóknar. Hvernig ætlar hv. þm. t.d. að bæta stöðu byggða á Íslandi með því að auka lyfjagerð úr jurtum? Hann er kannski þeirrar skoðunar að fara að dæmi Vinstri grænna að tína fjallagrös. Hvernig ætlar hv. þm. að bæta stöðu byggða með því að stuðla að því að hægt verði að breyta bújörðum með litlum heimarafstöðvum í listmunaverkstæði?

Má ég líka spyrja hv. þm.: Hvernig á og hver á að taka upp viðræður við innlenda og erlenda aðila um stofnun hlutafélags um klak- og kynbótastöð fyrir þorskeldi? Ég spyr af því að við erum báðir áhugamenn um þorskeldi á Vestfjörðum. Hverjir eiga að gera það? Hvar á hún að vera?