2002-05-03 03:10:29# 127. lþ. 135.24 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv. 85/2002, Frsm. 1. minni hluta JÁ
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[27:10]

Frsm. 1. minni hluta sjútvn. (Jóhann Ársælsson) (frh.):

Hæstv. forseti. Nú er farið að líða nokkuð á nóttina, klukkan að ganga fjögur og þetta mun vera síðasta málið sem menn ætla í raun og veru að ræða á þessu þingi. Ég ætla mér ekki að flytja þá ræðu alla sem ég hafði hugsað mér þegar ég hóf mál mitt fyrir þrem dögum eða svo, einungis að segja fáein lokaorð í þessari umræðu.

Það er auðvitað orðið ljóst fyrir nokkru hvernig stjórnarflokkarnir ætla að láta þetta mál enda, málið sem þeir lofuðu að leysa í sátt við þjóðina. Það er ekki hægt að hafa um það önnur orð en að hér hafi verið brigðir á þeim loforðum, og þær alvarlegar. Það verður aldrei nein sátt um þann málatilbúnað sem hér liggur fyrir og auðvitað mun umræðan halda áfram. Það sem er fram undan í henni er þó augljóslega það að strax í haust munu sjávarútvegsmál vera á dagskrá á Alþingi. Þó að hæstv. sjútvrh. hafi lagt fram þrjú frv. í vetur er strax búið að gera ráð fyrir því að það verði endurskoðað hvað varðar smábátana strax í haust og hæstv. forsrh. hefur lýst því yfir að á næsta vetri verði líka tekist á hendur að koma með tillögur um breytingar á stjórnarskránni eins og auðlindanefnd lagði til að yrði gert. Að vísu hefur það ekki komist á hreint hvort breytingarnar verði í anda þeirra tillagna sem auðlindanefnd var með en a.m.k. liggur það fyrir í yfirlýsingu frá hæstv. forsrh. að einhver slík tillaga eigi að koma til umfjöllunar. Með þessu er ljóst að sjávarútvegsmálin verða í brennidepli á næsta þingvetri í aðdraganda kosninga.

Ég verð að segja eins og er um þá hugmynd sem hæstv. forsrh. hefur viðrað að mér finnst satt að segja dálítið undarlegt ef menn halda að sú tillaga sem hér er verið að ræða um, um breytingu á lögunum um stjórn fiskveiða og það fyrirkomulag sem í henni felst, geti gengið saman með þessu ákvæði í stjórnarskrá um ævarandi eign þjóðarinnar á auðlindinni. Ég hefði talið að meðferð slíkrar sameiginlegrar eignar gæti aldrei verið með þeim hætti sem menn hafa kosið að hafa á hvað varðar fiskinn í sjónum. Ég held því fram að ef menn í heiðarleika ætla að takast á við það að festa í stjórnarskrá ákvæði um sameign þjóðarinnar á fiskstofnunum þurfi menn að horfast í augu við það að um leið verði að fylgja ákvarðanir um að komið verði á jafnrétti til að nýta auðlindina. En þá umræðu munum við auðvitað taka á hv. Alþingi næsta vetur, og ég fagna henni. Ég held að það sé mjög margt sem þurfi að fylgja í þeirri umræðu. Víða kraumar í umræðupottinum. Sumir hafa verið að ræða um áhugamál sín sem eru þau að skoða möguleika á aðgangi að Evrópusambandinu. Ég hef sett fram skoðun mína á því og sérstaklega vegna þess að mönnum hefur verið hugleikin umræðan um hvort það væri hægt vegna stefnu Evrópusambandsins í sjávarútvegsmálum. Ég er ekki tilbúinn að kveða upp úr með það atriði. Ég er hins vegar tilbúinn að kveða upp úr með það fyrir mitt leyti að aðild að Evrópusambandinu kemur ekki til greina að óbreyttri fiskveiðistefnu á Íslandi.

[27:15]

Það er augljóst að ef menn legðu í það að ganga í Evrópusambandið án þess að breyta einkaeignarhaldinu á fiskstofnunum þá væru þeir að bjóða upp á að Ísland yrði í þeirri stöðu sem kvótalausir eru í dag á Suðurnesjum eða hvar sem það nú er og eru að fiska fyrir 50 kall fyrir þann sem á kvótann. Ef það ætti að liggja fyrir útgerðarmönnum og sjómönnum á Íslandi að verða leiguliðar í verstöðinni fyrir þann sem ætti kvótann, hvort sem það væri úti í Evrópu eða ekki, og léti fiska fyrir sig og flytja fiskinn þangað þá sæju menn í hnotskurn hvað fram undan er. Þessu er ekki hægt að verjast. Það er alveg klárt mál að ef menn ganga í Evrópusambandið verða þeir að horfast í augu við að atvinnurekendur á því svæði geta tekið þátt í atvinnulífinu á Íslandi. Undan því verður ekki vikist að þeir geta tekið þátt í útgerð á Íslandi eins og öðrum atvinnuvegum. Það er bara eitt ráð við þessu, þ.e. ef menn hafa á annað borð áhuga á því að ganga í Evrópusambandið, og það er að breyta fiskveiðistefnunni. En það verður að gerast áður.

Áhugi minn á því að breyta fiskveiðistefnunni er ekkert bundinn við það hvort menn ætla að halda áfram umræðunni um Evrópusambandið. Þessi fiskveiðistefna er fáránleg. Einkaeignarhald á þessari sameiginlegu auðlind okkar er ekki boðlegt og hefur aldrei verið það. Baráttan fyrir því að breyta því verður að halda áfram og ég vona satt að segja að það náist einhver áfangi í henni eftir næstu kosningar. En ég geri mér ekki neinar vonir um að það gerist fyrr en þá vegna þess að þeir sem fara með völdin í þeirri ríkisstjórn sem nú situr eru búnir að kveða upp úr með að þeir ætli sko ekki að gera nokkurn skapaðan hlut annan en reyna að festa í sessi eignarhald útgerðarmanna á fiskinum í sjónum.

Af því að ég neitaði mér um að biðja um orðið um byggðamál áðan langar mig að bæta því við að stór hluti þeirra byggðavandamála sem við glímum við á Íslandi í dag er vegna þess að fólk hafði byggt upp hús og fyrirtæki á stöðum sem liggja vel við sjó, vel við góðum fiskimiðum. En eðlisbreytingin sem varð á sjávarútveginum við að einkavæða aðganginn að auðlindinni hefur gersamlega kollvarpað og raskað því munstri sem hafði orðið. Ef menn hefðu ekki með sértækum aðgerðum --- það er víst best að nota það orðalag um það --- smám saman sprautað inn í þessi lög hér veiðiheimildum gegnum smábátaútgerð alveg frá því 1991 eða 1990 og fram á þennan dag þá væru býsna mörg þeirra byggðarlaga sem við köllum sjávarbyggðir út um landið gjörsamlega eyðibyggðir. Ekki þarf að rökstyðja það með öðru en því að benda á að hefði sú stefna sem tekin var upp 1990 verið látin ganga áfram væri enginn smábátafloti til á Íslandi því gert var ráð fyrir því að sá floti ætti að fá að veiða 2.400 tonn. Síðan er búið að skera niður veiðiheimildir þannig að þessi floti væri að fiska einhvers staðar á bilinu 1.200--1.500 tonn líklega. Þannig var það. En þingmenn þorðu ekki að horfast í augu við stefnuna sem þeir voru búnir að samþykkja á hv. Alþingi og byrjuðu að pota inn réttindum handa smábátum og hafa gert það fram á þennan dag. Smábátar eru að veiða núna --- ég man ekki töluna --- 60--80 þús. tonn á ári, eitthvað svoleiðis, bátarnir sem áttu að fá að veiða 2.400 tonn árið 1990. Gat á kerfinu sem stjórnmálamennirnir á Íslandi trúa á hefur því bjargað því sem bjargað hefur verið í byggðarlögunum út við sjóinn í kringum landið, í sjávarbyggðunum.

Þegar verkin sýna með svo skýrum hætti merkin er ömurlegt að menn skuli ekki hafa horfst í augu við að þetta kerfi, fiskveiðistjórnarkerfið í landinu, hefur átt langstærstan þátt í því að mynda þau byggðavandamál sem hafa orðið til. Svo geta menn velt því fyrir sér hvort hagræðingin, eins og hún er kölluð, hefur gefið okkur eitthvað í staðinn. Ég er ekki sannfærður um það. Ég hef nefnilega farið yfir það og skoðað og gert það fyrir löngu og gert það oftar en einu sinni hvað því fylgir í atvinnulegu tilliti og í arði til þeirra sem að koma að nýta aflaheimildirnar til þess að veiða á smærri bát og grunnslóð eða nýta þær til þess að veiða á stórum bát eða togskipi á dýpra vatni. Í mínum huga leikur ekki nokkur vafi á því að miklu hagkvæmara er fyrir þjóðina og fólkið sem nýtir þessa auðlind að nota alla möguleikana sem eru fyrir hendi til þess að nýta auðlindina á grunnslóð, ekkert endilega með svona litlum bátum eins og menn eru að gera. Þeir mega vera stærri en það. Ég hef ekkert á móti togskipum. En við eigum bara of mikið af þeim. Við höfum gengið of langt. Ég vildi skjóta þessu inn í þessa umræðu.

Ein röksemd virðist fanga huga þeirra sem trúa á einkaframtakið og hafa komist að þeirri niðurstöðu að eignarhald á þessari þjóðarauðlind til handa útgerðarmönnum muni færa mestan arð af henni. Ég dreg það afskaplega mikið í efa og er reyndar sannfærður um að það er rangt. Við getum náð meiri hagnaði, meiri arði af auðlindinni með því að halda eignarhaldinu hjá þjóðinni og leyfa þeim sem taka þátt í útgerð að keppa á eðlilegum jafnræðisgrundvelli um veiðiheimildirnar. Ég vil biðja þá sem hlusta á áróður LÍÚ að afla sér líka upplýsinga sjálfir. Þá munu þeir kannski átta sig á því að sá gífurlegi arður sem á að hafa orðið til vegna kvótakerfisins --- þeir virðast setja beint samasemmerki á milli þess að útgerðarmenn eigi auðlindina og að meiri arður sé af henni --- orsakast af því að fiskverð hefur aldrei verið eins hátt og það er búið að vera á undanförnum árum. Ég hef ekki nýjustu tölur. Ég veit að fram að 1994 hafði fiskverð hækkað verulega frá því fyrir 1990. En ég hef tölur um verðvísitölu fiskverðs frá 1994--2001. Og hvað segja þær? Þær segja að ef fiskverðið var 88 árið 1994 þá var það komið upp í 170 í lok ársins 2001. Fiskverð í verðvísitölunni á þessum árum frá 1994 til 2001 hefur sem sagt tvöfaldast. Kannski þarf ekki að leita miklu lengra til þess að finna það út að arðurinn af útgerðinni hefði átt að aukast eitthvað við þessa hækkun á fiskverðinu.

Ég ætla ekki að halda lengri ræðu um þá hluti. Ég ætla að kveðja þetta mál núna í sölum hv. Alþingis. Við munum takast á um það á næsta vetri og ég ætla mér að taka þátt í þeirri umræðu. Ég ætla satt að segja að vona að við fáum hv. alþm. til þess að ræða þetta mál og hlusta á rökin þannig að það verði ekki áfram eins og að skvetta köldu vatni á gæs --- eins og það hefur verið --- er menn leggja fram rök í þessa umræðu og kalla eftir því réttlæti sem þeim var lofað fyrir síðustu kosningar.

Ég held að umræðan um stjórnarskrárfrv. sem kemur næsta vetur eigi að gefa okkur gott tækifæri til þess að takast á um grundvallaratriði þessa máls.