2001-10-03 13:48:46# 127. lþ. 3.1 fundur 35#B hryðjuverkin í Bandaríkjunum og viðbrögð við þeim, skýrsla utanríkisráðherra# (munnl. skýrsla), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 127. lþ.

[13:48]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Við erum öll, Íslendingar allir, slegin djúpri hryggð yfir þeim atburðum sem við urðum vitni að svo að segja í beinni útsendingu gegnum hið alsjáandi auga myndavélarinnar þann 11. sept. Ég tek heils hugar undir samúðarkveðjur sem íslensk stjórnvöld, hæstv. forsrh. og utanrrh., hafa sent bandarísku þjóðinni.

Það er alveg rétt sem hæstv. utanrrh. segir. Við munum aldrei gleyma þessum atburði. Þetta er ein af þeim myndum í lífi sérhvers manns sem greypist í hugann með þeim hætti að það fellur aldrei yfir þá minningu. Framtíðin er einhvern veginn ekki lengur ný og hugrökk, svo vísað sé til Huxleys, og jafnvel okkur sem erum búin að lifa í hálfa öld og höfum séð margar hörmungar í gegnum auga miðlanna finnst einhvern veginn eins og veröldin hafi tapað sakleysi sínu með vissum hætti. Okkur finnst einhvern veginn eins og heimurinn sé allur annar og miklu verri en hann var.

Þessi atburður hefur kallað fram órofa samstöðu nánast allra þjóða heimsins. Síðast í gær var Pútín Rússlandsforseti á ferðalagi í Brussel til þess að lýsa yfir gagnvart yfirstjórn NATO að hann væri reiðubúinn að taka upp sérstök og ný og önnur tengsl við NATO til að vinna gegn þeirri nýju vá sem við stöndum andspænis. Hæstv. utanrrh. kallar eftir samstöðu þjóðarinnar. Hann segir: Þetta mál er hafið yfir flokkadrætti. Við stöndum andspænis atburðum af því tagi að við þurfum að standa saman. Ég vil af því tilefni, herra forseti, segja það að mér hefur fundist málflutningur hæstv. utanrrh. ákaflega jákvæður og hófstilltur. Þó að ég geti ekki lofað hæstv. utanrrh. að ég muni verða honum samferða alla leið þá heiti ég honum samstöðu Samfylkingarinnar í þeim ákvörðunum sem hann hefur tekið nú þegar.

Herra forseti. Ég er þeirrar skoðunar að sá mikli stuðningur sem Atlantshafsbandalagið og Evrópusambandið og þær þjóðir sem við finnum til skyldleika við hafa sýnt Bandaríkjamönnum hafi leitt til þess að viðbrögð þeirra hafi orðið miklu hófstilltari en ella. Einhvern tíma hefði maður búist við því að fyrstu viðbrögð Bandaríkjamanna gegn svona svívirðilegri árás huglausra hermdarverkamanna hefði leitt til eldflaugaárása, strax fyrsta kvöldið. En þeir sem e.t.v má kalla dúfur, skynsemismenn, menn yfirvegunar, menn eins og utanríkisráðherra Bandaríkjanna, réðu ferðinni og kannski var það blökkudrengurinn, sonur fátæku blökkuforeldranna úr gettóunum í Bandaríkjunum, sem skynjaði hvað þarna var á ferð og réð förinni vegna þess að aðgerðir Bandaríkjamanna hafa verið miklu hófstilltari síðustu daga en fyrstu yfirlýsingar gáfu til kynna eins, t.d. yfirlýsingar Bush forseta sem mér líkuðu ekki til að byrja með. Veröldin verður aldrei söm aftur.

En það skiptir máli að við tökum saman höndum til þess að berjast gegn þessum voðaverkum. Mér líkaði vel sú greining sem hæstv. utanrrh. var með hér áðan, þar sem hann tengdi saman þessar þrjár nýju ógnir sem steðja að okkur, þ.e. það eru hermdarverkin sem eru fjármögnuð með sölu fíkniefna og með mansali sem er e.t.v. það allra ógeðfelldasta af þessu öllu, þegar verið er að selja konur og börn til þess að fjármagna voðaverk af þessu tagi.

Herra forseti. Það skiptir mestu að tryggja að þessi atburður endurtaki sig ekki. Ég er sammála hæstv. utanrrh. um það. Við eigum að taka yfirvegaðar og hófstilltar ákvarðanir. Auðvitað þarf að sýna hramm valdsins, það er rétt. En við eigum að hafa í huga þau orð sem formaður breska Verkamannaflokksins lét falla á þingi flokksins í gær: ,,Hinir látnu vilja ekki hefnd. Þeir vilja annars konar og jákvæðari minningu í huga eftirlifenda.``

Ég tek heils hugar undir þessi orð. Ég er viss um að hæstv. utanrrh. a.m.k. gerir það líka í hjarta sínu. Það breytir ekki hinu að með einhverjum hætti verðum við að koma lögum yfir misindismennina, og hvernig gerum við það?

Ódæðismaðurinn Osama bin Laden situr í skjóli afganskra stjórnvalda. Það hefur komið fram að 94% íslensku þjóðarinnar vilja að sá kóni verði dreginn fyrir lög og dóm, enda hefur nú komið fram óræk sönnun fyrir því að hann stendur á bak við þetta. Með hvaða hætti drögum við hann þá fyrir lög og dóm? Hann situr í skjóli stjórnvalda sem virðast ekki vilja láta hann af hendi. Það þýðir einfaldlega að við verðum að fara og sækja hann. Hvers konar skilaboð væru það til annarra svipaðra hryðjuverkasamtaka ef við létum afgönsk stjórnvöld komast upp með að skjóta áfram skjólshúsi yfir hann? Það gengur ekki. Það þýðir að það verður að sækja hann. En það verður að gera með þeim hætti að það kosti ekki fórnir af hálfu óbreyttra borgara, barna, kvenna og karla sem eiga enga sök á þessu. Maður treystir því auðvitað að sameinuð herveldi heimsins geti gert slíkt.

Herra forseti. Heimurinn er breyttur eftir þetta. Hæstv. utanrrh. sagði: ,,Osama bin Laden og samtök hans vilja kalla glundroða yfir heiminn.`` Hvað hafa þau hafa gert nú þegar? Þau hafa lostið hrammi sínum á tvær táknmyndir bandarísks samfélags, annars vegar miðstöð hinnar alþjóðlegu fríverslunar, miðstöð hins alþjóðlega fjármagns, þ.e. World Trade Center, og hins vegar táknmynd bandarískrar stjórnsýslu. Þessu tvennu náðu þau. En auðvitað vilja þau þriðja líka. Þessir menn, þessir fúndamentalistar, vilja auðvitað kalla fram stríð á milli Vesturlanda og hins íslamska heims, m.a. til þess að geta hrundið frá völdum tiltölulega hófsömum ríkisstjórnum við Persaflóa. Það er eitt af því sem þeir eru að gera. Við á Vesturlöndum verðum auðvitað að gæta þess, þegar við svörum þessum hryðjuverkum, að við færum þeim ekki þann áfanga upp í hendur. Það skiptir öllu máli og það er þess vegna sem hófstillt viðbrögð skipta máli.

Ég hef áður sagt að a.m.k. af hálfu Íslendinga hafa viðbrögðin verið hófstillt til þessa þó að auðvitað hafi líka heyrst, jafnvel frá þeim sem síst skyldi, tal sem ekki er hægt að kalla annað eða telja til skyldleika við einhvers konar stríðsæsingar. En það kemur ekki úr utanrrn.

Hæstv. utanrrh. hefur lýst því ferli sem orðið hefur til þess að 5. gr. stofnsáttmála Atlantshafsbandalagsins hefur verið virkjuð. Ákvörðun Íslendinga um að taka þátt í þeirri virkjun var auðvitað meiri háttar ákvörðun sem var borin undir utanrmn. Eins og hæstv. utanrrh. hefur lýst hafa Bandaríkin hvaða rétt sem þau vilja, samkvæmt 51. gr. sáttmála Sameinuðu þjóðanna, til þess að grípa til þeirra aðgerða sem þau kjósa. En ef um er að ræða aðgerðir sem eru sameiginlegar af hálfu Atlantshafsbandalagsins og eru beinlínis hernaðaraðgerðir þá hlýtur líka að vera um meiri háttar aðgerðir að ræða sem eru bornar undir Atlantshafsráðið og þar með ræddar sérstaklega í ríkisstjórn Íslands. Þess vegna vil ég leyfa mér að varpa spurningu til hæstv. utanrrh. Komi til þess að Atlantshafsbandalagið verði aðili að hernaðaraðgerðum er þá ekki alveg ljóst að það verði rætt í ríkisstjórn Íslands og líka borið undir Alþingi, þ.e. þá nefnd Alþingis sem með þetta fer, utanrmn., í krafti þess sérstaka ákvæðis þingskapa um að meiri háttar ákvarðanir skuli bornar undir Alþingi Íslendinga með þeim hætti?

Að lokum, herra forseti. Við blasa nýjar ógnir. Þær blasa ekki bara við þessum stóru ríkjum úti í heimi heldur líka gagnvart okkur Íslendingum. Sú hætta er alltaf fyrir hendi að erlend hryðjuverkasamtök kjósi að slá tjöldum sínum hér á Íslandi. Menn kynnu að segja að það væri ótrúlegt og ótrúverðugt að halda slíku fram. En, herra forseti, fyrir 11. sept. hefði ég hlegið að þeim manni sem hefði sagt mér að erlend hryðjuverkasamtök gætu tekið herskildi fjórar flugvélar í innanlandsflugi í Bandaríkjunum, molað efnahagskerfi Bandaríkjanna, gert Bandaríkin stjórnlaus í nokkrar klukkustundir og skekið þannig skellum að Vesturlöndum öllum að sjálft efnahagskerfi okkar riðaði til falls. Allt getur gerst og við verðum að líta svo á að allt sé mögulegt. Hæstv. utanrrh. skilaði þinginu merkilegri skýrslu árið 1999 þar sem þetta mál er reifað með skynsamlegum hætti. Þar er einmitt sagt að það þurfi að meta þær raunverulegu hættur sem Íslandi sé búið í stjórnkerfi og mannvirkjum og það er sérstaklega tekið til hermdarverkastarfs. Þess vegna vil ég leyfa mér að spyrja hæstv. utanrrh.: Með hvaða hætti hefur hann undirbúið varnir Íslands gagnvart þessari nýju ógn? Hefur hann gert þetta mat? Ég spyr hann líka: Mun hann í þeim viðræðum sem fyrirhugaðar eru um bókun við varnarsamninginn einnig gera þessar nýju ógnir að meginatriði?