2001-10-03 14:54:07# 127. lþ. 3.1 fundur 35#B hryðjuverkin í Bandaríkjunum og viðbrögð við þeim, skýrsla utanríkisráðherra# (munnl. skýrsla), JBjart
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 127. lþ.

[14:54]

Jónína Bjartmarz:

Herra forseti. Hryðjuverkaárásirnar á Bandaríkin sem hér eru til umræðu og afleiðingar þeirra, hinn mannlegi harmleikur, eru atburðir í mannkynssögunni sem mun taka okkur langan tíma að átta okkur á til fulls. Það er ekki ofsagt að heimurinn verður aldrei samur. Á sama tíma og við erum að átta okkur á þessum atburðum og margháttuðum afleiðingum þeirra og þýðingu er unnið að því á alþjóðavettvangi að ná samstöðu með þjóðum heims um það hvernig skuli við þeim brugðist og staðið að því að draga illvirkjana til ábyrgðar, draga til ábyrgðar og stöðva hermdarverkastarfsemi þeirra sem ógnar ekki bara öryggi okkar heldur lýðræði og frelsi um allan heim.

Sú samstaða sem náðst hefur með þjóðum heims um nauðsyn þess að standa saman í baráttunni gegn hryðjuverkum er einstök. Fornir fjendur snúa nú bökum saman enda er engin þjóð óhult og við vitum ekkert um það hvar eða hvenær frekari hryðjuverka er að vænta. Samstaða íslenskra stjórnvalda og stjórnvalda um allan heim lýtur fyrst og fremst, enn sem komið er, að tilraunum bandarískra stjórnvalda til að hafa hendur í hári hryðjuverkamanna og að draga þá til ábyrgðar.

Forsenda þess að hægt sé að draga hina seku til ábyrgðar er að ljóst sé hverjir þeir eru og nú munu liggja fyrir sönnunargögn um að árásirnar voru skipulagðar og með vitund og vilja bin Ladens. Um utanaðkomandi árás var að ræða sem aðildarríki Atlantshafsbandalagsins eru skuldbundin til að líta á sem árás á þau öll, enda er nú svo litið á að gagnkvæmar skuldbindingar ríkjanna geti einnig átt við um skipulagða hryðjuverkastarfsemi og annað er vissulega ekki hægt.

En afleiðingar hryðjuverkanna eru ekki bara mannlegur harmleikur og efnahagslegar heldur valda þær jafnframt áframhaldandi ótta og öryggisleysi, ekki aðeins í Bandaríkjunum heldur um allan heim og ógna með því bæði lýðræði og frelsi og öryggi í öllum heiminum. Ótti okkar allra hlýtur fyrst og fremst að vera við hernaðaraðgerðir og afleiðingar þeirra sem mega undir engum kringumstæðum hafa á sér svip eða blæ hefndaraðgerða. Sérstaklega ber að standa vörð um að hryðjuverkin grafi ekki undan því gildismati sem er grunnurinn að okkar samfélagi jafnt og margra annarra samfélaga þjóða heims og varast alla nálgun við orð eins og krossferðir. Það er hvorki ákveðin trú, þjóð né þjóðarbrot sem þjóðir heims hafa fordæmt og náð samstöðu um að brjóta á bak aftur heldur aðgerðir manna sem hafa gert sig seka um glæpi gagnvart mannkyninu. Áfram þarf að standa vörð um þau fjölmenningarlegu samfélög sem hvarvetna er að finna og víðar eru að rísa og það gildismat sem er grundvöllur þeirra samfélaga.

Hryðjuverk eins og þau sem eru tilefni þessarar umræðu hjá okkur nú er aldrei hægt að réttlæta og aldrei hægt að afsaka á nokkurn hátt. En ég er þeirrar skoðunar að okkur beri auk alls annars sem við þurfum að gera að reyna að leita skýringa þeirra og greina það umhverfi og þær aðstæður sem ráða þessum verkum og móta og skapa gerendur hryðjuverkanna. Aukinn skilningur getur aldrei verið til tjóns og ef vinna á bug á hryðjuverkum og verjast margháttuðum afleiðingum þeirra verður að ráðast á jarðveginn sem skapar þeim vaxtarskilyrði. Hryðjuverkin kalla ekki aðeins á ákvarðanir og aðgerðir alþjóðasamfélagsins heldur jafnframt á aðgerðir og vinnu hér heima svo sem hæstv. utnarrh. gat um í ræðu sinni. Það þarf að fullgilda alþjóðasamninga sem miða að því að samræma margháttuð viðbrögð við hryðjuverkum og huga að aðgerðum sem þörf er á á sviðum alþjóðlegrar lögreglusamvinnu og hugsanlegum breytingum á íslenskum lögum sem slíkar aðgerðir kalla á.

Herra forseti. Aðstæður flóttamanna frá Afganistan eru hræðilegri en orð fá lýst. Þær aðstæður eru annað viðfangsefni sem alþjóðasamfélagið verður að standa saman um að bregðast við og vera tilbúið til að rétta þar hjálparhönd.