Fjárlög 2002

Fimmtudaginn 04. október 2001, kl. 11:30:37 (63)

2001-10-04 11:30:37# 127. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 127. lþ.

[11:30]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður spurði: Hver á að biðja hvern afsökunar? Ég skal nú aðeins fara yfir það, herra forseti.

Hv. þm. heldur áfram að saka þann sem hér stendur um falsanir, sviksemi (ÖS: Ekki sviksemi.) og lögbrot. Það stendur upp úr hv. þm. hér. Ég gaf honum færi á því í upphafi máls míns að koma og draga þetta bara til baka, biðjast afsökunar þannig að við gætum látið þetta mál niður falla. En það er nú annað hljóð í strokkinn hjá viðkomandi þingmanni, þessum Nostradamusi íslenskra efnahagsmála. Hann heldur áfram að þvæla um þessar forsendur eins og sá sem ekkert veit. Hann heldur áfram að blaðra hér um þessar forsendur og er nú búinn að reikna það út að svindlið sem hann sakaði mig um, upp á 10 milljarða í landsframleiðslu, sé nú komið niður í 6 milljarða. Það er vegna þess að hann kann ekki að framreikna þessar tölur.

Maður verður annaðhvort að nota sömu forsendur annars aðilans beggja vegna, eða hins aðilans, bæði að því er varðar verðlag og að því er varðar hagvöxt, þannig að fréttatilkynning fjmrn. stendur.

Ef við hefðum viljað plata hv. þm. dálítið, lyfta pínulítið upp landsframleiðslunni til að fá meiri skatttekjur, þá hefðum við að sjálfsögðu notast við forsendurnar sem Þjóðhagsstofnun gaf, ef þær hefðu reyndar borist okkur á réttum tíma. Ég get sagt hv. þm. að talnabálki fjárlagafrv. var lokað 10. sept. og þá var stuðst við spá sem barst frá Þjóðhagsstofnun þann 4. sept. Og hver var hagvöxturinn þar 2002? 1%. Hvað gerðist síðan eftir að talnabálkinum var lokað? Þann 14. sept. barst ný spá frá Þjóðhagsstofnun. Hver er þjóðarframleiðslan þá samkvæmt þessu plaggi? Mínus 0,3%.

Ég ætla að segja þetta, herra forseti: Hver á að biðja hvern afsökunar? Hv. þm. Össur Skarphéðinsson á að biðja mig afsökunar á þessu fleipri sínu.