Fjárlög 2002

Fimmtudaginn 04. október 2001, kl. 13:52:51 (78)

2001-10-04 13:52:51# 127. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv., DrH
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 127. lþ.

[13:52]

Drífa Hjartardóttir:

Herra forseti. Við ræðum frv. til fjárlaga fyrir árið 2002, stefnu og horfur í fjármálum ríkisins. Það var raunar ótrúlegt að heyra ræðu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar fyrr í morgun og þau gífuryrði sem hann lét þar falla. Það er athyglisvert að þrátt fyrir merki um samdrátt í efnahagslífinu er gert ráð fyrir að ríkissjóður skili myndarlegum afgangi og að áfram verði haldið á þeirri braut að greiða niður skuldir.

Aðhaldssöm stefna hefur skilað því að skuldir hafa lækkað verulega. Það sýnir sig í því að hreinar skuldir ríkissjóðs sem hlutfall af landsframleiðslu hafi lækkað úr 34% árið 1995 í 22% samkvæmt áætlun ársins í ár og geta farið niður í 14% í lok næsta árs. Þetta eru allt aðrar tölur en hv. þm. Ögmundur Jónasson setti fram áðan. Það er gert ráð fyrir að rekstrarafgangur verði 18,6 milljarðar kr. sem er 2,5% af landsframleiðslu. Það kemur glöggt fram að staða ríkissjóðs er traust og að aðhaldssamri stefnu er fylgt.

Meginmarkmið ríkisstjórnarinnar er og hefur verið að draga úr verðbólgu og viðskiptahalla, treysta undirstöður atvinnulífsins og tryggja varanlegan stöðugleika. Það eru því veigamikil rök fyrir skattalækkunum jafnt á fyrirtæki og einstaklinga og nú hefur ríkisstjórnin ákveðið umfangsmiklar breytingar á skattamálum þeirra. Það eru bestu fréttirnar sem við höfum fengið lengi.

Þegar ríkisstjórnin lækkaði skatta á fyrirtæki úr 50% í 30% á sínum tíma kom í ljós að sú lækkun skilaði meiri tekjum í ríkissjóð en áður höfðu komið inn, þvert á það sem ýmsir töldu. Nú er komin fram tillaga um verulega lækkun tekjuskatts fyrirtækja sem formaður Vinstri grænna ræddi svo ósmekklega um sem gróðafyrirtæki í fyrrakvöld. Það er engin skömm að því að vilja græða og mikið er betra að fyrirtæki skili hagnaði heldur en tapi í rekstri.

Eignarskattur, sem er óréttlátur skattur, verður lækkaður. Ég tel það mikla kjarabót fyrir eldri borgara sem flestir búa í eigin húsnæði. Þá er boðuð lækkun á stimpilgjaldi og hækkun á viðmiðunarmarki um 20% í sérstökum tekjuskatti einstaklinga. Auk þess er rætt um afnám verðbólgureikningsskila og að fyrirtækjum verði gert kleift að færa bókhald og ársreikninga í erlendri mynt. Allt er þetta gert til að styrkja samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja, gera íslenskt skattaumhverfi hagstætt í alþjóðlegum samanburði og skapa þannig í senn forsendur fyrir því að erlend fyrirtæki flytji starfsemi sína til Íslands og draga úr líkum á því að íslensk fyrirtæki færi starfsemi sína af úr landi af skattalegum ástæðum.

Á miðju yfirstandandi ári tóku gildi verulegar breytingar á bótum almannatrygginga til að tryggja hag þeirra sem talið var að hefðu minnstar tekjur. Þá hækkuðu bætur í upphafi ársins við að nýr tekjutryggingarauki var tekinn upp. Áætlað er að breytingar á bótum almannatrygginga kosti um 1.600 millj. kr. árlega og skýrir það hækkun á fjárlögum umfram verðlagsforsendur. Útgjöld fæðingarorlofssjóðs hækka einnig nokkuð eða um 2 milljarða þar sem um fyrsta heila rekstrarár sjóðsins verður að ræða á næsta ári. Við bætist einn mánuður í fæðingarorlofi feðra.

Um næstu áramót kemur til framkvæmda annar áfangi af þremur í hækkun barnabóta. Það er í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar á síðasta ári. Í því fólst að barnabætur hækka um meira en þriðjung á árunum 2001--2003 eða sem nemur 2 milljörðum kr. Megininntak breytinganna er að ótekjutengdar barnabætur eru teknar upp að nýju. Dregið er úr skerðingu bótanna vegna tekna og skerðing vegna eigna er felld niður. Þessar breytingar leiða til verulegrar hækkunar á ráðstöfunartekjum alls barnafólks en hinir tekjulægri bera þó mest úr býtum sem er mikilvægast í þessum breytingum.

Eins og fram kom í stefnuræðu forsrh. hefur mikill kraftur verið í þeim atvinnugreinum sem sækja drifkraft sinn í rannsóknir og þróun. Árangurinn hefur skilað sér í fjölmörgum nýjum fyrirtækjum, endurnýjun og vexti eldri fyrirtækja og fjölgun starfa á sviði hátæknigreina. Þetta er áberandi í hugbúnaðargerð, lækninga- og stoðtækjaframleiðslu, lyfjaþróun, líftækni, erfðavísindum og fleiri greinum.

Herra forseti. Í þjóðhagsáætlun kemur fram að frá árinu 1990 hafi erlendum ferðamönnum fjölgað um 7,1% á ári að meðaltali. Heildartekjur af erlendum ferðamönnum á síðasta ári voru 30,5 milljarðar kr. Árásir hryðjuverkamanna á Bandaríkin munu vafalítið hafa umtalsverð áhrif á ferðaþjónustu og flugsamgöngur hér á landi.

Flest bendir til að töluvert muni draga úr spennu á vinnumarkaði þegar á næsta ári. Þannig má gera ráð fyrir að heldur dragi úr innflutningi fólks til landsins. Það er mjög mikilvægt að hér á landi haldi áfram að ríkja sú bjartsýni sem einkennt hefur þjóðina, enda hefur íslensk þjóð aldrei haft það eins gott og undangengin tíu ár.

Stjórnarflokkarnir leggja mikla áherslu á að virkjanaáform nái fram að ganga, byggingu Kárahnjúkavirkjunar og álvers í Reyðarfirði. Norðurál hefur jafnframt áhuga á stækkun og þá hefur Ísal hafið athugun á þeim möguleika að stækka álver félagsins í Straumsvík.

Herra forseti. Ég tel að þetta fjárlagafrv. sé gott frv.