Fjárlög 2002

Fimmtudaginn 04. október 2001, kl. 13:59:48 (79)

2001-10-04 13:59:48# 127. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv., EMS
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 127. lþ.

[13:59]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Mönnum hefur að gefnu tilefni orðið nokkuð tíðrætt um forsendur fjárlagafrv. Það liggur ljóst fyrir að nú er fjárlagafrv. í fyrsta skipti lagt fram án þess að stuðst sé algerlega við forsendur Þjóðhagsstofnunar. Það veldur að sjálfsögðu því að við sem störfum í fjárln. hljótum að gera kröfu um að nefndin fái einnig í heimsókn til sín fleiri stofnanir sem fjallað hafa um þessar forsendur. Það er t.d. óhjákvæmilegt að við köllum til fulltrúa Þjóðhagsstofnunar og fáum álit þeirra á þeim tölum sem fjárlagafrv. byggir á.

[14:00]

Það er einnig athyglisvert að þegar okkur var kynnt fjárlagafrv. var í engu minnst á að hér væri stigið skref til hliðar miðað við fyrri hefðir við gerð fjárlagafrv. Því miður, herra forseti, veldur þetta því að ótrúverðugleiki blasir við verðandi gerð frv.

Það er hins vegar ljóst eins og fram hefur komið hjá hv. fjmrh. að munurinn á spá Þjóðhagsstofnunar og fjmrn. er ekki slíkur að mikið beri í milli og hægt að segja í raun að það sé að flestu leyti innan skekkjumarka. Hér hefur þó verið bent á nokkur atriði sem valda undrun. Hæstv. fjmrh. hefur bent á að í raun sé spá Þjóðhagsstofnunar nýrri en spá fjmrn. og skulum við því ætla að það sé meira mark á henni takandi en þeirri eldri því venja er jú sú að nýrri áætlanir séu vonandi réttari en þær eldri.

Hæstv. fjmrh. nefndi að þann 4. september hefði spá Þjóðhagsstofnunar verið 1% hagvöxtur fyrir árið 2002, en þann 14. september hefði verið spáð samdrætti upp á 0,3%. Hér er því tíu daga munur og breytingin nokkur, en þó þannig að fjmrn. virðist hafa valið það að fara eftir fyrri tölunni vegna þess, eins og mátti skilja á hæstv. fjmrh., að þá hafi verið lokað talnabunka frv.

Því er eðlilegt, herra forseti, að spurt sé hvernig standi á því að þetta er nú í fyrsta skipti sem ekki er farið eftir forsendum þjóðhagsspár. Er þetta í fyrsta skipti sem tölur frá Þjóðhagsstofnun koma seinna en lokað er tölum eða er einhver önnur ástæða fyrir því að ekki er eftir þessu farið?

Það er athyglisvert í þessu samhengi að bera saman að fjárlagafrv. er kynnt á mánudegi þegar þing er sett. Á þriðjudegi fer fram umræða um stefnuræðu forsrh. og í hvorugt þessara skipta er fjallað t.d. um þær skattalækkunartillögur sem síðan voru kynntar á miðvikudegi. Nú er fimmtudagur og má því segja að það hafi verið tíðindi hvern einasta dag þessarar viku. Það er einnig athyglisvert varðandi þessa skattalækkanir að á mánudeginum er sagt frá því að hátekjuskattmörkum verði breytt, þ.e. að í frv. sé gert ráð fyrir 600 millj. til þess að mæta þeirri breytingu.

Nú þegar er ljóst, miðað við þær tillögur sem kynntar voru í gær, að breyting hefur orðið á fjárlagafrv. vegna þess að ekki er gert ráð fyrir hinum ágætu tillögum um skattleysi húsaleigubóta sem nú er búið að kynna nokkrum dögum eftir að fjárlagafrv. kemur fram. Því er eðlilegt að spurt sé: Eru fleiri breytingar í vændum eða má búast við því að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson standi við það sem hann boðaði hér, þ.e. að hann mundi á öllum vígstöðvum berjast gegn því að nokkrar hækkanir kæmust í gegn miðað við það frv. sem hér liggur fyrir?

Herra forseti. Þó er eins og mig minni að ég hafi einhvern tímann áður heyrt eitthvað þessu líkt. En því miður, herra forseti, hefur hv. þm. þurft að standa að fjölda tillagna í þveröfuga átt við það sem hann hefur oft boðað í 1. umr. Við skulum vona, herra forseti, vegna hv. þm. að svo verði ekki í þetta sinn. Hægt er að taka undir það með honum að það er gífurlega mikilvægt að menn geti haft stjórn á útgjöldum ríkisins. Það er auðvitað eitt af meginverkefnunum. Og það er líka rétt að taka undir með hv. þm. Ólafi Erni Haraldssyni, formanni fjárln., sem boðaði aukið aðhald nefndarinnar gagnvart því að stofnanir stæðu við fjárlög. Þetta hefur að vísu allt saman verið sagt áður. En við skulum vona að breyttir tímar séu fram undan og við þetta verði staðið.

Herra forseti. Í framhaldi af því sem ég sagði hér áðan bendir því miður ýmislegt til þess, þegar meira að segja áður en umræðan um fjárlögin á sér stað hefur ríkisstjórnin sjálf boðað breytingar á fjárlögnum, og þar af leiðandi hlýt ég að draga þá ályktun, að búast megi við því að breytingar verði gífurlegar á þeim vikum og mánuðum sem fram undan eru. Við skulum vona svo sannarlega að þær breytingar verði allar í jákvæða átt en ekki neikvæða.

En því miður bendir ýmislegt í forsendum fjárlagafrv. til þess að hættur séu fram undan. Áður hefur verið bent á hina gífurlegu erlendu skuldasöfnun sem átt hefur sér stað. Ljóst er að sú mikla skuldasöfnun veldur því að það er miklum mun erfiðara og gengur hægar að draga úr viðskiptahallanum vegna þess að stöðugt hækkar hlutfall þeirra þátta sem eru háðir hinum erlendum lántökum og stefnir í það nú að hluti af viðskiptahallanum á næsta ári verði bundinn að þessu leytinu til að 80%. Það segir okkur að sjálfsögðu að það verður mun erfiðara að ná viðskiptahallanum niður og það mun ganga miklum mun hægar en við höfum talið eðlilegt. Þar að auki bendir ýmislegt til þess, eins og nefnt var hér fyrr í morgun, að það geti reynst erfiðara fyrir þá styrkingu á genginu sem vonast er til í fjárlagafrv., og að ýmislegt bendi til þess, því miður segi ég, að hún náist ekki fram. En auðvitað reynum við að vera bjartsýn eins og hæstv. fjmrh. er við framlagningu síns fjárlagafrv.

Þetta mun að sjálfsögðu ráða ákaflega miklu um það hvernig til tekst að eiga við vandann, lækka þennan viðskiptahalla, sem er nú ein höfuðorsök þess vanda sem við stöndum nú frammi fyrir, þ.e. gengislækkunarinnar og hinnar auknu verðbólgu. Þetta ræður að sjálfsögðu miklu um það hvernig til tekst við að eiga við vandann. En enn á ný endurtek ég að við að sjálfsögðu reynum að vera sem bjartsýnust í þessum efnum.

Það er eitt atriði sem enn veldur áhyggjum í forsendum fjárlagafrv. og minnir okkur á að fjmrn. á ekki aðeins í ákveðnum deilum við Þjóðhagsstofnun, heldur hefur fjmrn. líka, ásamt að vísu miklum mun fleirum, átt í ákveðnum deilum við Seðlabankann. Því miður hef ég ekki rekið augun í að í fjárlagafrv. sé neitt sérstakt sem bendir til þess að það auðveldi Seðlabankanum að lækka vexti eins og allir hafa verið að vonast eftir. Því er nauðsynlegt, herra forseti, að spyrja hæstv. fjmrh. hvort eitthvað hafi farið fram hjá mér í þeim efnum, hvort eitthvað í forsendunum eða í frv. sjálfu hafi þau áhrif að það auki líkur á því að Seðlabankinn lækki vexti.

Mér sýnist hægt að segja að frv. sé í þessu tilfelli hlutlaust. En vera má að eitthvað hafi farið fram hjá mér því eins og áður hefur verið á bent er býsna flókið að finna í þeim pappírum sem við höfum fengið allar þær forsendur sem fjárlagafrv. byggir á því öðruvísi er nú staðið að verki en áður hefur verið.

Herra forseti. Hv. þingmenn hafa áður bent á að sá ræðutími sem okkur er skammtaður hér er býsna naumur og því er eðlilegt að ýmislegt verði eftir að liggja til seinni ræðu. Þó er nauðsynlegt að skoða nokkur atriði í framhaldi af því að boðað er aukið aðhald og það er að hin svokallaða tveggja prósenta regla var sett á aðhaldsaðgerðir. Það er nauðsynlegt að skoða þetta og fá heildaryfirlit yfir þessar aðhaldsaðgerðir. Það verður að sjálfsögðu óskað eftir því í fjárln. að við fáum gaumgæfilegt yfirlit yfir það frá öllum ráðuneytum hvernig að þessu er staðið.

Herra forseti. Ég vil rétt svona í lok ræðu minnar nefna nokkur dæmi. Ég mun byrja á menntmrn. Aldrei þessu vant er hæstv. menntmrh. ekki viðstaddur, en hann hefur verið eins og fram hefur komið, ráðherra þaulsætnastur við fjárlagaumræðu.

Menntmrn. tekur að sjálfsögðu þátt í þessum aðhaldsaðgerðum eins og önnur ráðuneyti. Í frv. stendur á bls. 321, með leyfi forseta:

,,Til þess að mæta sparnaðarmarkmiði ríkisstjórnarinnar lækkar framlag til að mæta nemendafjölgun og óvissum útgjöldum framhaldsskólanna um 82 millj. kr., framlag til framkvæmdar nýrrar skólastefnu lækkar um 30 millj. kr., framlag til ýmissa nýjunga í skólastarfi lækkar um 15 millj. kr. og að lokum lækkar framlag til símenntunarmiðstöðva um 10 millj. kr.``

Herra forseti. Það er eðlilegt að spurt sé: Er hér menntastefna ríkisstjórnarinnar í hnotskurn? Er þetta forgangsröðun í menntamálum þjóðarinnar, þ.e. að skera niður þessa þætti?

Síðan til viðbótar eru hækkuð gjöld á nemendur, um 40% innritunargjöld í háskóla og um rúmlega 40% og upp í 100% á nemendur í framhaldsskólum. Er það forgangsröðun ríkisstjórnarinnar í menntamálum að ráðast á þetta sem við höfum nú flest talið, trúi ég, að frekar hefði þurft að gera á annan hátt. Það hefði mátt forgangsraða á annan hátt í fjármálum ríkisins, með því að sjálfsögðu m.a. að bæta og styrkja menntakerfið í landinu.