Fjárlög 2002

Fimmtudaginn 04. október 2001, kl. 14:17:35 (84)

2001-10-04 14:17:35# 127. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv., EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 127. lþ.

[14:17]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Það er mikið gleðiefni fyrir mig að geta sagt hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni að ég viðurkenni fúslega að væntanlega hafi ég ekki verið nógu nákvæmur í orðavali. Undir lok ræðu hv. þm. kom hins vegar í ljós, nákvæmlega það sem ég átti við, að hann hefur sagt ýmislegt í líkingu við þetta. En eins og hv. þm. sagði hefur hann aldrei áður kveðið jafnsterkt að orði. Það má vel vera að ég hafi á árum áður lagt of þunga merkingu í sum orð hv. þm. en hann sagði að hann hefði oft talað í líkingu við þetta en aldrei jafnsterkt sem nú. Ég skal fúslega, herra forseti, viðurkenna það að ég hef ekki heyrt hv. þm. leggja jafnþung orð í þessa átt og nú. Hins vegar hefur andinn í ræðum hv. þm. jafnan verið mjög á þessa leið. Mér er það því gleðiefni að geta sagt það við hv. þm. enn einu sinni að hann hefur aldrei áður kveðið jafnsterkt að orði í þessum efnum.

Ég endurtek það sem ég sagði áður: Ég vona að hv. þm. geti staðið við þessi stóru og miklu orð því að ég er sammála hv. þm. í því að afar brýnt sé, í störfum nefndarinnar, að koma í veg fyrir að menn missi algerlega stjórn á útgjöldum ríkissjóðs. Það er auðvitað eitt af hlutverkum okkar að standa vörð um að sem allra best sé farið með almannafé.