Fjárlög 2002

Fimmtudaginn 04. október 2001, kl. 14:37:15 (90)

2001-10-04 14:37:15# 127. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv., EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 127. lþ.

[14:37]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. hefur nú dregið nokkuð í land varðandi fullyrðingar sínar og það er auðvitað af hinu góða.

Það er hárrétt hjá hv. þm. að ég fór fram á það á fundi í fjárln. fyrir tveimur dögum að fá nákvæmlega sundurliðað hvernig þessi gjöld hafa verið innheimt í öllum framhaldsskólum landsins og háskólum svo hægt væri að sjá hvernig hafi verið miðað við þessi þök. En það er ýmislegt sem menn vita um varðandi gjöldin og að auðvitað eru fleiri gjöld innheimt en þessi. Það er því nokkuð hastarleg kveðja sem hv. þm. sendir námsmönnum, finnst mér, að þetta séu aðeins málamyndagjöld. Ég vil minna á að með þessari tillögu er gert ráð fyrir að t.d. nemendur sem stunda iðnnám, sem ég hélt að allir væru sammála um að þyrfti frekar að hvetja nemendur til, þurfi að greiða 58.500 kr. til að hefja slíkt nám.

Það getur vel verið, herra forseti, að þetta séu málamyndagjöld í huga hv. þm., en ég fullyrði að þetta eru ekki málamyndagjöld í hugum þeirra nemenda sem þurfa að greiða slíkar upphæðir. Enda er það ljóst og af því hafa borist fréttir að mikil óánægja er með þessar tillögur sem koma fram í fjárlagafrv.

Það er ljóst að ekki náðist samkomulag um annað eins og hv. þm. sagði þegar þessi lagafrv. fóru hér í gegn. Þess vegna er spurningin hvort samkomulag næst um eitthvað annað nú. Eða hvaða samkomulag er hv. þm. að tala um? Var þetta samkomulag á milli ríkisstjórnarflokkanna? Eða er spurningin um hvaða samkomulag næst þá nú á milli ríkisstjórnarflokkanna? Eða er hv. þm. kunnugt um að nú þegar hafi náðst fullkomið samkomulag milli ríkisstjórnarflokkanna um þessa hækkun?