Fjárlög 2002

Fimmtudaginn 04. október 2001, kl. 15:34:06 (101)

2001-10-04 15:34:06# 127. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv., KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 127. lþ.

[15:34]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Fyrst varðandi Náttúruverndarráð. Lögboðið hlutverk Náttúruverndarráðs er að koma saman til náttúruverndarþings og ræða á breiðum grunni stöðu náttúruverndar í landinu öllu. Frjáls félagasamtök taka ekki yfir þetta hlutverk Náttúruverndarráðs.

Við skulum bara tala um þessi mál tæpitungulaust, herra forseti. Það hafa staðið deilur um Náttúruverndarráð. Hæstv. umhvrh. hefur beðist undan þeirri gagnrýni sem Náttúruverndarráð hefur leyft sér að senda umhvrn., m.a. vegna gjörða hæstv. umhvrh. Það er ekki laust við það, herra forseti, að maður hugleiði hvort þær deilur og þau erfiðu samskipti, sem margir mundu kannski segja að hæstv. umhvrh. hafi boðið heim, séu þess valdandi að ráðið er bara sett af.

Ég fullyrði, herra forseti, að náttúruverndarþing hefur öflugt hlutverk samkvæmt lögum. Mér þykir það grundvallarbreyting að breyta þannig skipan mála algerlega án þess að því hlutverki verði sinnt nokkurs staðar annars staðar.

Varðandi sjálfstætt starfandi frjáls félagasamtök þá vil ég minna á þær deilur sem urðu hér á Alþingi í fjárlagaumræðu í fyrra þar sem Náttúruverndarsamtök Íslands, öflugustu frjálsu félagasamtökin á sviði náttúruverndar sem hægt er að kalla því nafni, þ.e. frjáls félagasamtök, fengu ekki sinnt þeim óskum sínum að fara inn sem sérmerktur fjárlagaliður með einhverja hungurlús á fjárlögum. Á meðan fengu Umhverfisverndarsamtök Íslands, sem rekin eru af fyrrv. hæstv. ráðherra, samflokksmanni hæstv. umhvrh., nafngreinda fjárveitingu fyrir sitt starf. Þar komu upp deilur sem blandast líka inn í þetta mál. Þannig er allt þetta undarlega vaxið og gagnrýnivert. Hæstv. umhvrh. hefur ekki skýrt þetta með fullnægjandi rökum.