Fjárlög 2002

Fimmtudaginn 04. október 2001, kl. 16:04:55 (117)

2001-10-04 16:04:55# 127. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 127. lþ.

[16:04]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef tekið eftir því núna í tvo daga, bæði í umræðunni í gær og svo aftur núna að hv. þm. Guðjón Guðmundsson hefur reynt að draga upp þá mynd að við hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði hefðum gert tillögur að því að auka útgjöld ríkisins. Mér finnst rétt að það komi fram að við höfum lagt til aukningu en líka tillögur um tekjur en það er ekki sama hvernig hlutirnir eru sagðir. Ég vil draga fram einn milljarð í þessu sambandi sem ég veit ekki betur en ég og hv. þm. hefðum verið sammála um að auka útgjöld ríkisins um og það var í tengslum við Orkubú Vestfjarða. Hv. þm. Guðjón Guðmundsson vildi gera það í gegnum sölu á Orkubúi Vestfjarða en við hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði vildum hafa þann háttinn á að gera það með beinum framlögum. Mér finnst því rangt að stilla málum upp þannig að við gerum bara tillögu að útgjöldum. Það er ýmislegt á bak við og í þessu tilfelli, í sambandi við þennan milljarð, þá var það spurning um hvernig og hvaða form ætti að vera á því en báðir voru sammála um þau auknu útgjöld, ekki satt?