Fjárlög 2002

Fimmtudaginn 04. október 2001, kl. 16:47:07 (131)

2001-10-04 16:47:07# 127. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv., heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 127. lþ.

[16:47]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Tveir hv. þm. beindu til mín fyrirspurnum sem ég hef ekki svarað. Í fyrsta lagi bað hv. 5. þm. Reykv. um svör við því hvort á döfinni væri frekari hækkun á hlutdeild sjúklinga í kostnaði við heilbrigðiskerfið. Ég get svarað því til að engar slíkar raunhækkanir eru á döfinni. Ég hef þegar gefið yfirlýsingar um að ég hyggist ekki taka upp t.d. innritunargjöld á sjúkrahús eða ný gjöld. Hlutdeild sjúklinga í einstökum gjöldum var hækkuð á liðnu sumri. Ekki hafa verið til umræðu frekari raunhækkanir að þessu leyti.

Hv. 15. þm. Reykv. gerði hagræðingarkröfuna og sparnaðartöluna sem lendir á einstökum stofnunum að umræðuefni. Það er þessi 1% hagræðingarkrafa sem sett er á allar stofnanir heilbrrn. Hún gerir um 307 millj., ef ég man rétt, en hagræðingarkrafan fer svo upp í 2% með sértækum aðgerðum. Það er rétt að stærstu spítalarnir bera um 180 millj. af þessari uppphæð, Landspítalinn -- háskólasjúkrahús. Hins vegar verður að horfa á þessa tölu í tengslum við þann mikla rekstur sem þar er um að ræða því að þetta er rekstur upp á 20,4 milljarða. Ég er þó ekkert að draga úr því að ætíð er erfitt að hagræða í slíkum rekstri en þó verður að líta á það að þarna er aðeins um þriggja daga veltu á spítalanum að ræða eða tæplega það.

Síðan varðandi biðlistana. Nefndir voru sérstaklega bæklunarbiðlistarnir sem ég tek undir að eru tilfinnanlegir. Ég get sagt það hreinskilnislega að sá biðlisti fer í taugarnar á mér. Ég hef fylgst með því á yfirstandandi ári hver þróunin er í þessum efnum. Við erum að fara yfir fjárhag okkar og fjárhagsramma og það sem út af stendur það sem eftir er ársins, með tilliti til þess hvort við höfum nokkra möguleika á að fjölga bæklunaraðgerðum. Við höfum sett 80 millj. í þennan málaflokk á næsta ári til þess að stytta biðlistana af 350 millj. sem við höfðum í ráðuneytinu samkvæmt rammafjárlögum til nýrra verkefna. Við teljum því að það sé eitt af forgangsverkefnum okkar að reyna að stytta þennan biðlista. Það er alveg ljóst að til mikils er að vinna að gera það því að fólk sem bíður er á lyfjum og líður þjáningar. Ég dreg ekkert úr því.

Hv. þm. kom einnig inn á geðsviðið og hvaða aðgerðir væru fyrirhugaðar í þeim efnum. Fram kom í stefnuræðu hæstv. forsrh. að það svið væri til sérstakrar skoðunar. Við erum að setja þetta upp sem eitt af forgangsmálum ráðuneytisins. Ég tel afar brýnt að fara yfir þennan málaflokk og það hvaða aðgerðir kæmu að mestu gagni. En þessi málaflokkur er afar víðfeðmur. Geðsviðið snýst ekki eingöngu um geðdeild Landspítalans -- háskólasjúkrahúss. Það er miklu víðfeðmara. Ég hef reynt að fylgjast með því á árinu hvort það sé þannig að fólk í neyðartilfellum sé ekki tekið inn. Samkvæmt upplýsingum sem ég hef fengið hefur svo ekki verið. Allir sem eru í neyð eru teknir inn. Hins vegar eru alltaf í þessum rekstri erfiðleikar á sumrin vegna þess að það gengur erfiðlega að manna þessar deildir þegar sumarleyfi eru. Ég veit ekki hvort hv. þingmenn gera sér grein fyrir því, ég a.m.k. gerði mér ekki grein fyrir því áður en ég kom að þessu, hve óskaplega stór deild þetta er. Það vinna hvorki meira né minna en 600 manns á geðdeild Landspítalans -- háskólasjúkrahúss. Því miður verða truflanir á þessum rekstri yfir sumarið þegar fólk tekur sín frí því að það gengur erfiðlega að fá afleysingar í þessum rekstri.

Margs konar aðgerðir koma til greina í þessu efni. Það eru t.d. umræður um það hvort möguleikar séu á því að heilsugæslan komi meira inn á geðsviðið, að þar séu möguleikar á þjónustu. Einnig er skortur á félagslegum úrræðum fyrir geðsjúka. Það hefur verið unnið gott verk, t.d. hefur klúbburinn Geysir, sem ég þekki til, unnið gott verk í atvinnumálum geðsjúkra og það þarf auðvitað að styðja slíka starfsemi. Það er mjög mikilvægt. Ég átti nýlega viðræður við forsvarsmenn Geðhjálpar. Það er mjög mikilvægt að styðja við geðrækt og eftirmeðferð geðsjúkra. Einnig hef ég unnið að því að koma upp forvarnateymum til að berjast gegn sjálfsvígum en það er á vegum landlæknisembættisins. Sú vinna er komin af stað og voru gerðar sérstakar ráðstafanir til þess í sumar að gera það.

Ég tel að mikil þörf sé á því að sameina kraftana í þessum málaflokki og ég hef einsett mér að ráðuneytið leggi vinnu í það. Vafalaust þarf að leita samstarfs við önnur ráðuneyti í þessum efnum og sérstaklega félmrn. en þessi mál skarast milli ráðuneyta. Ég veit að hæstv. félmrh. er allur af vilja gerður til að ræða þau mál. Á þessar aðgerðir er ekki kominn verðmiði enn en ég held að það sé brýnt verk að fara yfir skipulag þessara mála og leitast við að forgangsraða þeim í þágu geðsjúkra, ekki síst að efla forvarnaþáttinn í þessum málum. Það er mikið til vinnandi að gera það því að þarna er um mjög viðkvæman málaflokk að ræða sem þarf að skipuleggja vel og leggja vinnu í það mál.

Ég vildi koma þessum svörum á framfæri og læt máli mínu lokið.