Fjárlög 2002

Fimmtudaginn 04. október 2001, kl. 18:16:17 (150)

2001-10-04 18:16:17# 127. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 127. lþ.

[18:16]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Í fyrri ræðu minni í dag fór ég almennt yfir efnahagslegar forsendur fjárlagafrv. og ræddi þá nokkuð um okkar litla hagkerfi og hversu valt það væri. Miðað við þær upplýsingar sem við fáum í ræðu hæstv. fjmrh. í yfirlýsingum og stefnu Þjóðhagsstofnunar, yfirlýsingum Seðlabankans og vaxtastefnu, þá fellur þetta ekki allt í sama farveg. Ég trúi því a.m.k. ekki að fjárlagafrv. sé lagt fram með þeirri vissu að það sé á traustum grunni. Ég held að allir sem hafa komið að frv. hljóti að gera sér ljóst að blikur eru á lofti og þær breytingar sem kynntar voru í gær á skattkerfinu eru ekki, að mínu mati, til þess fallnar að styrkja þann grunn sem fjárlagafrv. byggir á. Áður en við afgreiðum frv. þarf að fara mjög vel yfir það hvernig þessar breytingar koma niður á mismunandi atvinnugreinum. Ég held að þær upplýsingar sem hér hafa komið fram og hv. þingmenn hafa reifað þegar við 1. umr. beri vitni um að þetta þurfi að skoða mjög vel.

Ég hef áhyggjur af skuldasöfnun og að við getum ekki áfram verið frjáls þjóð og haldið sjálfstæði okkar með sjálfstæðum gjaldmiðli. Ég hef áhyggjur af því að við séum smám saman að veikja sjálfstæði okkar og að einn bitinn af því hafi komið fram í gær þegar nú verður leyft að skrá efnahagsreikninga fyrirtækja í erlendum gjaldmiðlum og það gefi vísbendingu um að menn hafi ekki trausta trú á íslenska gjaldmiðlinum og verði til þess að veikja hann enn frekar.

Það er togstreita á milli ríkisstjórnarinnar og stjórnar Seðlabankans hvað vextina varðar. Það verður að halda verðbólgu í skefjum og Seðlabankinn telur að enn þá sé ekki óhætt að lækka vextina. Hvenær sá tími rennur upp er erfitt að segja. En eitt er víst að það er örugglega ekki innstæða fyrir þeim skattalækkunum sem hér eru boðaðar og kæmu niður á rekstri opinberrar þjónustu. Þetta eru viðamestu aðgerðir í skattamálum sem framkvæmdar verða og hafa verið gerðar um langan tíma. Það er hægt að taka undir afnám skatts á húsaleigubætur og það var kominn tími til þess að fara yfir stimpilgjöldin. En ég er hrædd um að þetta muni ekki jafna kjör fólks í landinu heldur frekar ýta undir meiri mun á milli ríkra og fátækra og jafnframt að veikja enn frekar veikari byggðir úti um land af því að þessi breyting á skattkerfinu mun leggjast mismunandi á atvinnugreinar.

Hæstv. forseti. Mig langar að ræða aðeins um heilbrigðismál og launamál því að nú er öllum stofnunum og öllum ráðuneytum gert að draga saman, beita aðhaldi. Eftir því sem ég þekki til innan heilbrigðisþjónustunnar þá berst hún í bökkum í dag við að halda sjó og halda uppi lögboðinni þjónustu. Það hafa verið umtalsverðar breytingar á launatöxtum. Það hefur verið launaskrið. Og þó svo að mæla megi það launaskrið hjá nokkrum fagstéttum í háum prósentum þá er ekki samasemmerki á milli hárrar prósentuhækkunar í þessu launaskriði og þess að þessir einstaklingar eða fagstéttir séu hálaunastéttir því að svo lengi er hægt að draga að semja við opinbera starfsmenn, hvort sem það eru kennarar, hjúkrunarfræðingar eða sjúkraliðar, að þegar loksins er samið eftir jafnvel tveggja ára samningstímabil þá verða launahækkanirnar vitaskuld háar í prósentutölu því að fagstéttir innan heilbrigðisþjónustunnar, innan kennarastéttarinnar eru vitaskuld ekki bara að miða sig við sambærilegar stéttir hins opinbera heldur ekki síður við það sem er að gerast á hinum almenna launamarkaði. Það er mjög alvarlegur hlutur og dýrt fyrir þjóðarbúið að missa faglært fólk úr þeim störfum sem það er menntað til og þetta gerist ef launaþróun hjá opinberum starfsmönnum fylgir ekki almennri launaþróun. Hér hefur verið spenna á launamarkaðnum og þetta kemur mjög greinilega fram núna innan sjúkrahúsanna, innan heilbrigðisþjónustunnar. Stórir hópar sjúkraliða hafa sagt upp störfum. Ég ætla að vona að samið verði hið allra fyrsta svo næstu daga verði hægt að koma rekstri sjúkrahúsanna í eðlilegt horf. Og þó svo að það verði samið núna þá munum við samt sem áður ekki fá alla sjúkraliðana sem sagt hafa upp störfum inn á stofnanirnar aftur því að þeir eru farnir í önnur störf. Þetta gerðist hjá kennurum líka. Þetta er þjóðfélaginu dýrt og það þýðir ekkert að flagga því hér að það verði að halda aftur af launum opinberra starfsmanna. Laun þeirra verða að fylgja hinum almenna launamarkaði. Annars erum við í vondum málum. Þetta er grunnþjónusta sem verður að vera í lagi.

Ég er ekki að tala fyrir því að hækka taxta ýmissa sérfræðinga sem gætu verið í þeirri aðstöðu að skammta sér laun. Ég er ekki að tala fyrir því. Ég er að tala fyrir hinum almenna launamanni hjá hinu opinbera.

Til þess að ná fram verulegum sparnaði í jafnmikilvægum málaflokki og jafndýrum og heilbrigðisþjónustan er --- hún mun halda áfram að aukast bara vegna þess að samsetning þjóðarinnar er slík. Við erum að eldast. Fleiri fyrirburar geta lifað. Við getum hjálpað fleirum og þjónustan mun verða dýrari --- þurfum við aftur á móti að breyta kerfinu þannig að við nýtum ódýrari þjónustu. Við þurfum að stórbæta heilsugæsluna. Við þurfum að fjölga störfum þar. Við þurfum að auka stöðugildi þar til þess að fá ódýrari þjónustu og beina henni frá sérfræðiþjónustunni, beina henni frá einkarekstrinum sem nú ríkir og hefur þanist út. Við þurfum að gæta þess að halda lyfjakostnaði niðri, ekki með því að leggja kostnaðinn á neytendur heldur með því að velja ódýrari lyf.