Loftárásir á Afganistan og aðstoð við uppbyggingu

Mánudaginn 08. október 2001, kl. 15:10:35 (163)

2001-10-08 15:10:35# 127. lþ. 5.1 fundur 41#B Loftárásir á Afganistan og aðstoð við uppbyggingu# (óundirbúin fsp.), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 127. lþ.

[15:10]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrirspurnina og inngang hans að henni.

Eins og kom fram hjá hv. þm. hefur ríkisstjórnin þegar lagt til hliðar 10 millj. kr. sem er hærra framlag en yfirleitt er ákveðið af ríkisstjórn utan fjárlaga til verkefna af þessu tagi. Oftast eru upphæðirnar 1--2 millj. kr. en að þessu sinni var ákveðið að leggja til hliðar 10 millj. kr. og óskað eftir því að Rauði krossinn hefði meðalgöngu um að koma þeim fjármunum til þess fólks sem búið hefur við hörmungar. Þetta var reyndar gert nokkru áður en loftárásir áttu sér stað. En menn vissu svo sem af því að að þeim kæmi. Það var sérstaklega tekið fram af hálfu hæstv. utanrrh. í ríkisstjórninni að við því mætti búast að til frekari aðgerða yrði gripið. Við höfum látið það í ljós við þá aðila sem við höfum rætt við --- nú síðast fyrir tíu mínútum átti ég samtal við sendiherra Bretlands sem kom með skilaboð frá forsætisráðherra Bretlands og lét ég þess getið að Íslendingar teldu að þeir ættu með tvennum hætti að koma að málinu, annars vegar með því að taka þátt í alþjóðlegri hjálp og hins vegar þegar að lokaniðurstöðum kæmi að eiga þá þátt í því að binda endahnútinn frekar um friðinn en ófriðinn.