Geðheilbrigðismál

Mánudaginn 08. október 2001, kl. 15:20:20 (172)

2001-10-08 15:20:20# 127. lþ. 5.1 fundur 43#B geðheilbrigðismál# (óundirbúin fsp.), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 127. lþ.

[15:20]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. lagði í stefnuræðu sinni í síðustu viku sérstaka áherslu á stórverkefni í heilbrigðismálum sem væru aðgerðir í geðheilbrigðismálum. Á málþingi um þjónustu við geðfatlaða utan stofnana sl. föstudag á vegum Rauða krossins komu fram miklar væntingar hjá þeim sem eiga við þessa sjúkdóma að stríða og hjá aðstandendum þeirra og starfsfólki í geðheilbrigðisþjónustu til þessara orða í stefnuræðunni.

Þar kom fram að þrengt hefur að geðsjúkum og þjónustu við þá og að 50--60 og jafnvel 100 geðfatlaðir eru heimilislausir og margir bíða eftir húsnæði. Einnig kom fram að 250--300 bíða eftir eftirmeðferð á Reykjalundi, þ.e. þeir sem hafa verið inni á geðdeild, og að engin eftirfylgni er af hálfu heilbrigðiskerfisins með þeim sem útskrifast af stofnunum og þess vegna er meira um það eða meiri hætta á því að fólk veikist fljótt aftur. Þessa eftirfylgniþjónustu töldu menn brýnasta og töluðu jafnvel um hrópandi þörf. Því spyr ég hæstv. forsrh.:

Í hverju verður þetta átak í geðheilbrigðismálum fólgið?

Verður tekið á vanda 50--100 heimilislausra?

Verður komið á eftirfylgni og þjónustan aukin?

Eða hvers mega geðsjúkir, aðstandendur þeirra og starfsfólk í geðheilbrigðisþjónustu vænta?