Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 08. október 2001, kl. 16:49:37 (198)

2001-10-08 16:49:37# 127. lþ. 5.4 fundur 3. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., Flm. JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 127. lþ.

[16:49]

Flm. (Jóhann Ársælsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil ekki gleyma að bjóða hv. þm. Vinstri grænna velkomna í hópinn sem vilja innkalla veiðiheimildir og setja þær á markað. Þó það sé að hluta til, þá er það veruleg breyting frá því sem áður var.

Vegna þess að hv. þm. nefndi hér áðan eða gaf það til kynna að við værum að innkalla veiðiheimildirnar of hratt og að hugmyndir þeirra um 20 ára innköllun væru skynsamlegri, þá langar mig til þess að vita aðeins betur hvað þetta þýðir.

Hjá Vinstri grænum er verið er tala um að innkalla 2% á ári fyrstu sex árin og síðan 3% í viðbót sem útgerðarmennirnir eiga að fá að hafa áfram á sérstökum samningi. Síðan stendur einhvers staðar líka í bókinni að þetta eigi að endurskoðast áður en 20 árin eru liðin. En þessi 3% sem hlaðast upp fyrstu sex árin eru gengin út aftur eftir 12 ár, sýnist mér. Er það þá hugmyndin að þau verði síðan látin aftur til útgerðarmannanna án endurgjalds úr því ákvæðið um endurskoðun eftir 20 ár er þarna inni? Mig langar til að fá svar við þessu.

Síðan langar mig til að nefna eitt vegna þess að ég er ekki ánægður með það sem hv. þm. sagði á frekar neikvæðan hátt, hann talaði um að menn ættu ekki að koma með einhliða skoðanir, eins og það væru einhliða skoðanir okkar að flytja svona þingmál. Ég spyr: Ætla vinstri grænir þá ekki að flytja þetta sem þingmál, þessar hugmyndir sínar um sjávarútvegsmálin? Af því að þeir vilja geta samið við aðra um hvernig þetta eigi að vera. Er ekki rétt að sýna á spilin sín? Er ekki bara gott að menn takist á við þetta eins og við höfum gert hér að leggja fram tillögur okkar um hvernig við viljum gera þessa hluti og leyfum mönnum að takast á um þær og gagnrýna þær?