Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 08. október 2001, kl. 17:54:17 (221)

2001-10-08 17:54:17# 127. lþ. 5.4 fundur 3. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 127. lþ.

[17:54]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Það er leitt að þegar hér á sér stað efnisleg umræða þá skuli alltaf skola upp einum og einum hv. þm. sem tekst vísvitandi að grípa til hins skæða og gamla vopns, útúrsnúninga.

Það er rangt hjá hv. þm. Kristjáni Pálssyni að ég hafi staðið hér og sagt að vegna óvissu í ráðgjöf ætti að gefa allar veiðar frjálsar á krókabáta og taka það frá aflamarksbátum. Það er rangt hjá hv. þm. að ég hafi sagt það. (KPál: Ég sagði ekki ,,að taka frá``.) Ég á ekki að þurfa að endurtaka það sem ég sagði. Ég reyndi að færa rök fyrir því og fleiri rök en hv. þm. nefndi hér.

Ég ætla ekkert að svara hv. þm. því hvaða frv. ég muni styðja. Ég mun styðja það frv. sem felur í sér þá leið sem samkomulag náðist um 1996. Hins vegar er rétt að árétta að þá leið á að fara án þess að rífa af aflamarksbátunum, hinum gömlu vertíðarbátum.