Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 08. október 2001, kl. 18:07:56 (233)

2001-10-08 18:07:56# 127. lþ. 5.4 fundur 3. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 127. lþ.

[18:07]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Það er svo sem erfitt í mínútu andsvari að fara yfir heimspekilegar vangaveltur um þetta flókna fyrirbrigði sem jafnræði er. En eitt af því sem ég var að reyna að velta upp og hv. þm. vék að er jafnræði á opnum, almennum uppboðsmarkaði. Er það jafnræði gagnvart nýliðum sem standa kannski peningalega á brauðfótum, er það jafnræði gagnvart sjávarplássum á landsbyggðinni þar sem afl fjármagnsins stjórnar á opnum útboðsmarkaði? Í því felst auðvitað að það er ekkert jafnræði í sjálfu sér.

Er það jafnræði gagnvart þeim sem stendur á brauðfótum fjárhagslega andspænis þeim sem hefur greiðan aðgang að fjármagni frá stóru, stöndugu fyrirtæki? Í mínum huga er það ekki jafnræði og það er það sem ég var að reyna að velta hér upp.