Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 08. október 2001, kl. 18:10:43 (235)

2001-10-08 18:10:43# 127. lþ. 5.4 fundur 3. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 127. lþ.

[18:10]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Ég hygg að við munum ekki komast til botns í þessari umræðu um jafnræði. Ég tek undir það að ekki er gildandi jafnræði eins og fyrirkomulagið er í dag. Það eiga ekki allir aðgang að því.

En ég var að reyna að færa rök fyrir því að með þeim hugmyndum sem hv. þm. og félagar hans kynna með fyrningarleið og uppboðsleið þá tel ég að jafnræði náist ekki heldur. Þá erum við komin að þeirri spurningu: Er eitt misvægið betra en annað? Þar með erum við komin í enn frekara huglægt mat.

Ég kann ekki neina einfalda patentlausn á þessu en kannski er meginniðurstaðan sú, eins og ég var að velta hér upp í byrjun, að meðan aðgengið að auðlindinni er takmarkað munum við aldrei ná þessu endanlega jafnræði. Og við munum alltaf sitja uppi með ákveðið misrétti, við getum kallað það svo, a.m.k. ekki jafnræði. Ég held því að leitin að jafnræðinu, þó að við færum hönd í hönd, ég og hv. þm., gæti falið í sér nokkuð langa göngu. Kannski ,,Mission Impossible``.