Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 08. október 2001, kl. 19:01:26 (243)

2001-10-08 19:01:26# 127. lþ. 5.4 fundur 3. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 127. lþ.

[19:01]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég lýsti því hér áðan að ég teldi betra að fara þannig á milli kerfa að afnema leigu- og sölurétt útgerðanna til að taka á því vandamáli. En á meðan menn eru að fara á milli kerfa þurfa þeir auðvitað að koma aflaheimildum á milli sín. Mér hefur aldrei dottið í hug að mönnum væri bannað að skipta á jöfnum heimildum ef þeir væru í sams konar veiðiskap eða í sams konar útgerðarflokki. Við í Frjálslynda flokknum höfum lagt til að flotanum væri skipt upp í aðgreinda útgerðarflokka með ekki mjög ósvipuðu sniði og m.a. Samfylkingin hefur gert og reyndar Vinstri grænir einnig, þannig að í þeirri útfærslu er ekkert mjög langt á milli manna. Og ef menn ætla að ná víðtækri samstöðu um að útfæra svona mál þá verða þeir auðvitað að setjast yfir þessi atriði og rekja þau hver fyrir öðrum. Öðruvísi ná menn ekkert saman um þetta mál.

En fyrst og fremst mundi ég vilja láta það vera alveg skýrt að útgerðin þarf að vita sinn veiðirétt, hafa veiðiréttinn fyrir framan sig. Hún þarf aldrei sölurétt á leigurétti á óveiddum fiski. Útgerðin þarf að hafa veiðiréttinn og nýtingarréttinn. Mér finnst það grundvallaratriði að það sem ég hef kallað kvótabrask í þessu kerfi hverfi út og kvótamarkaður eða ríkið sjái um að færa þessar heimildir á milli ef menn ætla ekki að skipta á jöfnum skiptum. Ég held að það sé alveg grundvallaratriði. Öðruvísi held ég að menn komist ekki í þessa vektora.

Ég get síðan sagt það til viðbótar, svo það sé ljóst, að með því að fara í aðgreinda útgerðarflokka verður miklu auðveldara að stíga þessi skref því að hugsanlega má skilja nótaflotann og frystitogaraflotann eftir tímabundið.