Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Þriðjudaginn 09. október 2001, kl. 14:04:51 (265)

2001-10-09 14:04:51# 127. lþ. 6.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 127. lþ.

[14:04]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. fullyrðir að komið hafi verið til móts við öryrkja á Íslandi. Hér fóru fram einhverjar mestu umræður í sögu Alþingis um frægan dóm Hæstaréttar sem ríkisstjórn Íslands gekk gegn og Öryrkjabandalagið, sem var að halda upp á afmæli sitt fyrir fáeinum dögum, lýsir því yfir að öryrkjar á Íslandi búi við lögskipaða fjárhagsneyð.

Sá öryrki sem mestar bætur getur fengið fær 80 þús. kr. úr ríkissjóði. Fjárhaldsmaður þessa sjóðs, hæstv. fjmrh., hefur talað fyrir skattkerfisbreytingum sem fela í sér umtalsverðar skattalækkanir hjá þeim fyrirtækjum á Íslandi sem skila hagnaði. Þetta er gert á sama tíma og virtar eru að vettugi kröfur og óskir frá íslenskum öryrkjum og Öryrkjabandalaginu.

Ég endurtek spurningu mína við hæstv. fjmrh.: Hvernig svarar hann Öryrkjabandalagi Íslands?