Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Þriðjudaginn 09. október 2001, kl. 15:33:58 (285)

2001-10-09 15:33:58# 127. lþ. 6.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 127. lþ.

[15:33]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki hægt að láta það tækifæri fram hjá sér fara þegar hægt er að spyrja fulltrúa Framsfl. út í þær skattkerfisbreytingar sem hér er verið að boða. Það hefur hins vegar verið svo að Framsfl. hefur því miður oft verið sem hálfgerð b-deild Sjálfstfl. Sjálfstfl. hefur haft það hlutverk að koma fram fyrir hönd Framsfl. En nú fáum við einn framsóknarmann til að fara yfir þennan skattalagapakka sem hér er verið að boða.

Ég vil því nota þetta tækifæri og spyrja fulltrúa Framsfl., sem hér talar, hv. þm. Ólaf Örn Haraldsson, út í atriðið sem ég nefndi hér áðan. Mér sýnist að ein breytingin í þessum skattalagapakka, þ.e. auknir möguleikar einstaklingsfyrirtækja til að söðla um yfir í einkahlutfélög, geri það að verkum að tekjustofnar sveitarfélaga lækki töluvert mikið. Það er vegna þess að þau fá hluta af þessum skatti. Fyrr í dag tók ég dæmi um fyrirtæki með 5 millj. kr. hagnað, að eftir breytinguna mundu skatttekjur sveitarfélaga af fyrirtækinu lækka um 600 þús.

Ég vil spyrja fulltrúa Framsfl. út í þetta, herra forseti, og heyra hvort þetta sé ný stefna framsóknarmanna eða hvort sveitarfélögunum skuli bætt þetta upp.

Enn fremur vil ég spyrja hv. þm. Ólaf Örn Haraldsson út í það hvort Framsfl. sé mjög kátur með að þessar skattkerfisbreytingar, sem að mestu koma til lækkunar á fyrirtækjum í þéttbýli, að tryggingagjaldið leggst jafnt á bændur. Er Framsfl. mjög ánægður með það? Telja framsóknarmenn að bændur séu þannig í sveit settir að 0,77% hækkun tryggingagjalds verði til að auðvelda þeim að draga fram lífið?